21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

1. mál, fjárlög 1936

Sigurður Einarsson:

Ég hleyp hér í skarðið fyrir fjarverandi menn, til þess að minnast nokkrum orðum á brtt. á þskj. 932, þar sem 5 þm. Nd. fara fram á, að styrkur til Þorbergs Þórðarsonar sé færður á 18. gr. fjárl. Þórbergur er löngu orðinn kunnur maður af ritstörfum sínum, og er ekki um það að deila, að hann er einhver pennafærasti maður, sem ritar bækur hér á landi. Hann hefir löngum átt erfitt uppdráttar fjárhagslega, því það er um hann eins og aðra, sem lagt hafa það fyrir sig að rita hér heima, að hann hefir ekki haft mikið upp úr því. Hinsvegar hefir hann á undanförnum árum notið nokkurs styrks frá Alþ., og eru flm. þessarar till. þeirrar skoðunar, að vel færi á því, að hann væri færður yfir á 18. gr. fjárl. og hefði þar sinn styrk framvegis. Ég vildi vænta þess, að það verði ekki mikill ágreiningur um það, að þessi ráðstöfun sé réttmæt, því ef Þórbergur er borinn saman við þá menn aðra, sem í 18. gr. eru, þá er með engu móti hagt að segja, að hann sé afkastaminni eða ómerkilegri rithöfundur heldur en margir þeir, sem þangað eru komnir. Það má t. d. benda á, að honum er sú gáfa gefin fram yfir flesta íslenzka rithöfunda, ef ekki alla, að hann er mjög gamansamur í ritum sínum og fjölbreyttari heldur en tíðkast um íslenzka rithöfunda. Og þó að hann hafi skrifað hluti, sem einstaka mönnum kann að hafa sárnað í bili, þá hverfur það við hliðina á hinum miklu fræðiverkum og öðru, sem eftir hann liggur. — Ég ætla sem sagt að vænta þess, að hv. Alþ., sé sammála um að færa þennan rithöfund yfir í 18. gr. fjárl.