23.12.1935
Neðri deild: 107. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (3431)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) -[óyfirl.]:

Í sambandi við ummæli síðasta ræðumanns vil ég taka fram, að því er snertir innheimtu námsbókagjaldsins, að svo er ákveðið í 7. gr. frv., að það skuli innheimt á sama tíma og tekju- og eignarskattur. Það eru að vísu ekki ákveðin nein innheimtulaun, og það atriði mætti taka til athugunar fyrir næsta þing, ef einhver ákvæði eru í frv., sem þá þætti ástæða til að endurskoða.

Ég get ekki verið hv. 2. landsk. alveg sammála um það, að þetta mál sé illa undirbúið eða lítið athugað. Það hefir verið rætt og athugað á undanförnum þingum, að vísu í dálítið annari mynd heldur en það er í nú, en það er einmitt í sambandi við þá athugun, að málið hefir færzt inn á þessa braut, sem nú er álitin heppilegust. Ég er sammála hv. þm. um það, að sjálfsagt sé að gera það, sem unnt er, til þess að börnin fari vel með bækurnar, og er hægt samkv. 8. gr. að setja ákvæði í reglugerð í þá átt.

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. 2. landsk. getur fallizt á meginatriði í frv., þrátt fyrir þær aths., sem hann gerir við einstök atriði þess. Ég mun að sjálfsögðu fús að endurskoða l. hvenær sem tilefni gefst til, en ég legg nokkra áherzlu á, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, því verði það ekki, er útilokað með öllu, að hægt sé að byrja þá starfsemi, sem hér er gert ráð fyrir, í tæka tíð fyrir næsta haust.