23.12.1935
Neðri deild: 107. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (3432)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég skal ekki tala langt mál um þetta frv. að þessu sinni. Ég fann aðeins ástæðu til þess eftir þær ræður, sem fluttar hafa verið hér nú, að slá því enn einu sinni föstu, að höfuðtilgangur þessa máls er bersýnilega allt annar heldur en gefið er upp. Ég kom að því í ræðu minni við 2. umr., og má öllum ljóst vera, að svo hlýtur að vera. Það er nú þannig fyrir mælt um útvegun námsbóka fyrir börn á skólaskyldualdri, að öllum, sem ekki hafa efni á að greiða verð fyrir bækurnar, skuli lagðar þær til ókeypis af opinberu fé. Þetta er því ekkert nýtt í þessu frv. Þetta er falskt yfirskin, og ekkert annað. Höfuðtilgangurinn er að koma á einokun á samningu námsbóka; það verða menn að gera sér ljóst; einokun á fræðslu barna frá hinu fyrsta til hins síðasta. Það er þessi tilgangur frv., sem við sjálfstæðismenn erum algerlega andvígir, meðfram vegna þess, að auk þess sem við vitum, að að þessu er keppt til þess að hafa áhrif á hugsunarhátt unglinganna frá því fyrsta, er þeir fara að hafa skilning á viðfangsefnum lífsins, þá miðar þetta líka að því að gera barnafræðsluna ófullkomnari, með því að útiloka e. t. v. beztu kraftana frá því að semja kennslubækur. því það getur farið svo, þó það þurfi ekki að vera, að þegar fárra manna stjórn er einvöld um það, hverjum er falið að semja kennslubækurnar, þá verði þeim, sem bezt eru fallnir til þess að semja slíkar bækur, hægt þar frá. Höfuðtilgangur frv. er því algerlega fordæmanlegur. Auk þess sem afleiðingarnar af framkvæmd málsins geta orðið hinar allra háskalegustu, þá eru yfirskinsástæðurnar, sem færðar eru fyrir því að berja málið áfram, ekkert annað en fals og blekkingar.