01.03.1935
Neðri deild: 17. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (3435)

28. mál, námskeið fyrir atvinnulausa unglinga

Flm. (Sigurður Einarsson):

Ég mun ekki að þessu sinni halda langa ræðu. Í grg., sem fylgir frv., hefi ég gert grein fyrir ástæðum þeim, sem eru þess valdandi, að frv. er flutt. Því er ætlað að bæta úr vandræðum, sem af því stafa, að fjöldi unglinga í bæjum hefir engan starfa eða heppileg viðfangsefni, sem dregið geta þá frá athöfnum, sem eru miður hollar.

Annars er frv. svo einfalt, að það skýrir sig sjálft. Ég hefi leitazt við að stilla svo í hóf kröfunum á hendur því opinbera, að menn geti ekki af þeim ástæðum verið á móti frv. Ég skal geta þess, að þessar 8 kr., sem ætlazt er til, að greiddar séu úr ríkissjóði fyrir mánaðarkennslu hvers nemanda, eru nægilegar til að greiða kennslulaunin, og betur þó. Að öðru leyti er ætlazt til þess, að kostnaðurinn greiðist af bæjar- eða hreppsfélögum.

Ég vil svo mælast til þess, að frv. verði, án þess að ég fari um það frekari orðum, vísað til menntmn. og að það fái að ganga hindrunarlítið í gegnum þessa hv. d.