21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (3439)

28. mál, námskeið fyrir atvinnulausa unglinga

Frsm. 2. minni hl. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins með nokkrum orðum að gera dálítið fyllri grein fyrir afstöðu minni til þessa máls en ég hefi gert í þskj. 168. Tilefni frv. þessa mun vera það, að í fyrra haust tóku sig saman nokkrir borgarar, með aðstoð bæjarstj. og skólanefnda barnaskólanna, og komu upp námskeiði fyrir atvinnulausa unglinga. Þetta mun hafa gengið sæmilega, og má vera, að ástæða sé til að gera eitthvað í þessa átt framvegis. En þrátt fyrir það tel ég þessa tilraun ekki réttlæta það, að þetta sé beinlínis lögskipað nú og ríkissjóði og bæjarsjóði bökuð töluverð útgjöld vegna þessara hluta. Hér í Reykjavík hafa verið gerðar ýmsar tilraunir í svipaga átt og þessa, og það með misjöfnum árangri. Sú nýbreytni var t. d. tekin upp síðastl. haust, að þeim unglingum, sem útskrifuðust úr barnaskólum bæjarins í fyrra og sérstaklega þóttu laklega að sér t. d. í móðurmálinu og reikningi, var gefinn kostur í að sækja námskeið í þessum fögum við barnaskólana í vetur. Árangurinn var sá, að ekki sóttu þetta námskeið nema 10-12 börn í hvorum skóla, af 150-160 börnum. Þegar svo kom fram undir nýárið, hafði þeim fækkað svo, að ekki þótti fært að hafa námskeiðin í tvennu lagi, og voru því sameinuð í eitt, og nú mun svo komið, að ekki eru eftir fleiri en 5 eða 6 unglingar, sem halda út með þetta nám. Ég gæti trúað, að það yrði fólk á svipuðu reki og unglingar þessir, sem koma til að njóta kennslu þeirrar, sem frv. gerir ráð fyrir. Býst ég því alveg eins við, að þó að tilraun þessi yrði gerð, þá myndi hún ekki gefa betri raun en tilraunir þær, sem gerðar hafa verið í svipaða átt. Af þeim ástæðum, sem ég nú hefi tekið fram, get ég ekki fylgt því, að sett verði lög um þetta efni nú enda má gera tilraun með öðru móti, og vil ég í því sambandi benda á, að í 2. gr. frv. á þskj. 155, um breyt. í l. um gagnfræðaskóla, er það tekið fram, að veita megi styrk úr ríkissjóði til námskeiða, sem standi eigi skemur en 3 mánuði með einnar stundar kennslu á dag. Hér virtist vera átt við svipuð námskeið og frv. það, sem hér er til umr. gerir ráð fyrir. Verði því frv. um breyt. á l. um gagnfræðaskóla að lögum, þá er alveg séð fyrir því, sem frv. í þskj. 31 fer fram á að verði lögfest. Það verður því að teljast alveg óþarft að setja sérstök lög um þetta efni, a. m. k. þangað til fengin er reynsla fyrir því, að ákvæði það, sem felst í 2. gr. nefnds frv. á þskj. 155, geti ekki fullnægt þessu, ef að lögum verður. Þá er það og athugandi í þessu sambandi, að t. d. hér í Rvík er ekkert húsnæði til fyrir slík námskeið sem þessi. Frv. þetta var sent skóanefndum barnaskólanna hér í Rvík til umsagnar, og þær skýra svo frá, að ekki sé mögulegt að koma slíkri kennslu í við barnaskólana, sakir húsnæðisleysis. Hvað snertir húsnæði það, sem gagnfræðaskólarnir hafa, þá er það mjög ófullnægjandi, og býst ég því alls ekki við, að þeir geti bætt neinu á sig. Ef Alþingi vildi gera eitthvað frekar í þessu, svo samtök góðra manna þyrftu t. d. ekki að leggjast niður, þá gæti ég fellt mig einna best við það, að stj. væru gefin heimildarlög til þess að styrkja samtök einstakra manna eða félaga í þessu efni. En að setja nú þegar sérstök lög um þetta, eins og sakir standa nú, tel ég með öllu óþarft. Annars held ég, að frv. sé flatt meira til þess að láta bera á sér og umhyggju sinni fyrir ungu fólki en sannfæringu um það, að hér sé um nauðsynjamál að ræða. Þegar líka þess er ennfremur gætt, að víða hagar svo til, að það er beinlínis ekki hægt að fullnægja ákvæðum frv. að því er kennsluna snertir, þar sem talað er um kennslu í leikfimi, söng, smíðum, hannyrðum og saumaskap. - Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar að þessu sinni. Eins og ég hefi tekið fram, er ég hlynntur því, að stj. verði veitt heimild til þess að styðja samtök góðra manna, en beinna lagafyrirmæla tel ég að svo stöddu ekki þörf.