21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. 3. kafla (Þorbergur Þorleifsson):

Ég sé ekki ástæðu til að tala mikið um þær brtt. frá einstökum þm., sem hér liggja fyrir; bæði eru flm. margra þeirra fjarverandi, og svo er það um þær allar að segja, að fjvn. sem slík mælir ekki með þeim. Hinsvegar hafa nm. óbundnar hendur um flestar till. og geta því greitt atkv. eins og þeim sýnist.

En út af ummælum hv. 1. þm. Skagf. í framsöguræðu sinni fyrir minni hl. ætla ég að segja örfá orð. Hv. þm. talaði nú svona nokkuð á við og dreif um starf og stefnu fjvn.; hv. þm. S.-Þ. hefir tekið það efni til athugunar, og skal ég ekki fara frekar út í það. Ég get aðeins tekið undir með öðrum frsm. n. um það, að í rauninni var bezta samstarf og samkomulag í n.; það voru teknar til greina till. minni hl., enda virtist mér koma fram hjá hv. frsm. minni hl., að hann hefði ekki upp á neitt að klaga um samstarfið í n. yfirleitt. Hinsvegar er það vitanlegt, þar sem um þann reginstefnumun í stjórnmálum er að ræða, eins og er hér milli meiri og minni hl., að þá hlýtur að vera að ýmsu leyti staðfest allmikið djúp milli þeirra aðferða, sem slíkir aðilar vilja hafa um ýms atriði fjárl.

Hv. 1. þm. Skagf. minntist ofurlítið á eitt atriði víðvíkjandi þeim klofningstill., sem minni hl. kom hér fram með í fyrra. Ein þeirra var um að lækka styrkinn til samgangna á sjó. Nú segir hv. þm., að meiri hl. hafi fallizt á slíka lækkun, þó hann í fyrra teldi hana árás á Austurland. Ég býst við, að ég hafi látið falla einhver ummæli í þessa átt á þingi í fyrra. En ég vil henda hv. þm. á það, að nú er viðhorfið allbreytt hvað þetta snertir. Í fyrsta lagi voru ekki á þingi í fyrra gerðar till. um slíka heildarniðurfærslu á öllum liðum fjárl., þar sem því er mögulegt að koma við, eins og nú. Þó nú sé færður niður styrkurinn til strandferða, þá er það ekkert annað en hliðstæð niðurfærsla við niðurfærslu fjöldamargra annara liða, en í fyrra tók hv. minni hl. þennan lið alveg út úr. Auk þess má benda á, að aðstaða Austurlands til samgangna hefir breytzt síðan í fyrra að því leyti, að bílvegakerfi landsins hefir verið bætt svo, að nú er hægt að nota bíla alla leið milli Reykjavíkur og Austurlands, sem ekki var hægt þegar gengið var frá fjárl. í fyrra, að þessu leyti hefir viðhorfið breyzt. Einnig munu verða gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að þessi niðurfærsla styrksins til strandferða komi sem minnst niður á þeim stöðum, sem verst eru settir með samgöngur hér á landi, en til slíks hafði hv. minni hl. ekki ætlazt, þegar hann kom fram með till. sínar í fyrra. (PO: Hvaða sérstöku ráðstafanir eru það?). Það var samkomulag um það milli samgmn. og fjvn., eins og hv. þm. veit, að þetta skyldi látið koma tiltölulega minnst niður á Austurlandi. (MG: Mátti ekki gera það í fyrra líka?). Það lá ekkert fyrir um það þá, svo þetta er ekki rétt, að meiri hl. hafi skipt um skoðun; það er viðhorfið í þessu efni, sem hefir breytzt; það er allt og sumt.

Þá ætla ég að víkja með örfáum orðum að Því, er hv. 1. þm. Skagf. sagði um meðferð till. þeirrar, er fram kom í fjvn. um að bæta upp kjötverð til bænda. mér datt í hug, þegar hv. þm. var að segja frá þessu, að sjaldan er nema hálfsögð sagan er einn segir frá. Ég ætla ekki að mótmæla því, að hv. þm. hafi sagt rétt frá, það sem það náði, en hann gleymdi að geta um það, að á fund n. kom hv. 2. þm. N.-M., sem einmitt er form. kjötverðlagsnefndar, og benti hann n. á, að það væri ekki rétt að taka upp neina ákveðna upphæð til þess að bæta með kjötverðið, vegna þess að það væri mjög óvíst um það ennþá, hvernig salan yrði á erlendum markaði. Hann skýrði n. frá, að salan á frysta kjötinu hefði gengið mjög vel það sem af væri, og líkindi væru til, að hún gengi vel áfram, þó ekkert væri hagt að segja um það með vissu. því áleit hann, og yfirleitt þeir, sem hafa þetta með höndum, að ekki væri hyggilegt að taka upp í fjárl. ákveðna fjárhæð í þessu skyni, meðan ekki væri hægt að segja um, hvað hún þyrfti að vera há. Þessi aðferð var líka viðhöfð á síðasta þingi, að það var ekki tekin upp sérstök fjárveiting í þessu skyni, en hæstv. forsrh. lýsti því yfir fyrir hönd Framsfl., að hann mundi beita sér fyrir því, að þessi kjötuppbót yrði veitt síðar á árinu, ef þörf væri á. Var í rauninni ekki nema sjálfsagt að taka þetta til greina, og því var það, að við, sem áður vorum því fylgjandi í n. að taka þegar upp sérstakt framlag til kjötuppbótar, fellumst á að láta þetta bíða þangað til séð væri, hvað mikið þyrfti við.

Þá er það út af aths. við heimildartill. um endurgreiðslu á tolli af vínanda til verksmiðju á Akureyri, sem ég vil gefa nokkrar upplýsingar. Ég skal viðurkenna, að í framsöguræðu minni gaf ég ekki neina skýringu á þessari till., og er því eðlilegt, að hv. þm. vilji fá upplýsingar um hana. En ég er sannfærður um, að þegar hv. þm. hæfa heyrt, hvernig málavextir eru, þá muni þeir ekki verða þessari tollendurgreiðslu andstæðir. Þessu er þannig varið, að S. Í. S. hefir hugsað sér að koma upp verksmiðju á Akureyri til að vinna fatnað úr skinnum. En til þess hægt sé að keppa við erlenda framleiðslu í þeirri grein hvað verð snertir, þá þarf að skapa þessari fyrirhuguðu verksmiðju sömu aðstöðu til útvegunar þeirra hráefna, sem til þessa iðnaðar þarf, eins og erlendu verksmiðjurnar hafa. M. a. þarf að nota allmikið af vínanda við verkun skinnanna. Erlendu verksmiðjurnar fá þann vínanda, sem þær þurfa að nota, fyrir 50 aura lítrann. En tollurinn á ómenguðum vínanda er hér kr. 6.25 pr. lítra, og kr. 2.25 pr. lítra af menguðum vínanda. Nú er að vísu betra að nota ómengaðan vínanda til þessara hluta, en má þó nota mengaðan. Hér er um það að ræða, að ef ekki fæst þessi tolleftirgjöf, verður alls ekki lagt í að koma þessum iðnaði á fót, og þess vegna tapar ríkissjóður í raun og veru engu, því það mundi aldrei koma til þess, að neinn vínandi væri fluttur inn í þessu skyni, ef tollurinn er ekki gefinn eftir. Í öðru lagi yrði hér ekki nema um litla upphæð að ræða. Í byrjun er gert ráð fyrir 100 lítrum af vínanda, en þörfin mundi vitanlega aukast fljótt, ef framleiðslan heppnaðist vel. Fyrst í stað mundi eftirgjöfin því ekki nema meiru en 225 kr., en þó hún kæmi til með að nema svo þúsundum skipti, þá er ekki nokkur vafi á því, að hér er um svo merkilegan iðnað að ræða, að ekki er nema sjálfsagt, að ríkið gefi eftir þennan toll.

Ég man þá ekki eftir fleiri atriðum, sem ég þarf að svara.