25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (3457)

77. mál, bæjargjöld á Akureyri

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Aðstaða mín til þessa máls er kunn frá síðasta þingi, og hefir hún ekki breytzt síðan. Ég álít, að þetta frv. eigi að falls núna í þessari hv. d., eins og það féll í síðasta þingi, og er það af því, að ég tel alrangt að veita einstökum bæjum leyfi til þess að veita útsvörunum af mönnum, sem búsettir eru í bæjunum, yfir í menn, sem búa í öðrum sveitum og borga útsvar þar, en verða að verzla við bæina. Þetta er meginatriði þessa máls.

Því hefir verið haldið fram, að þetta kæmi aðallega niður á verzlunum og þess vegna væri sama, hvort það væri tekið svona eða með auknum útsvörum, t. d. útsvari lögðu að viðskiptaveltu. En það er allt annað. Með þessu er lagt gjald í alla, sem verzla við bæina. Ef það er lagt á sem umsetningargjald, þá er það tekið af vörunni og ekki lagt á í þeim hlutföllum, sem útsvörin eru borguð í. Ef það er lagt á sem útsvar, þá kemur það jafnt niður á alla.

Nú heldur hv. þm. Ak. því fram, að útsvörin á Akureyri séu svo há, að þau þoli ekki hækkun frá því, sem nú er. Þarna er atriði, sem bæjarstj. verður sjálf að dæma um. En ég held, að útsvörin séu ekki hærri þar en annarsstaðar. Eftir því, sem ég veit bezt, þá er lagt á þann mann, sem hefir 25 þús. kr. skattskyldar tekjur, tæp 7 þús. kr., en svo fer álagningin ört hækkandi á tekjur, sem eru þar fyrir ofan. Þetta er ekki hátt á móts við það, sem útsvörin eru annarsstaðar, að Reykjavík undanskilinni. Það er þess vegna rangt, að gjaldendur í sveitarfélögum, sem verzla við kaupstaðinn, séu skyldaðir til þess að borga útsvar þar, en það er farið fram á það með þessu frv. Ég legg því til, að þetta frv. verð fellt.