22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (3464)

185. mál, hluti af landi Ennis í Engihlíðarhreppi

Flm. (Hannes Jónsson):

Ég þarf ekki að vera margorður um þetta litla frv.; Það er flutt út af öðru frv., sem afgr. var til Ed. í gær. Ég vil vænta þess, að þetta frv. verði einnig afgr. til n. a. m. k., til þess að sjá, hverju fram vindur um frv. það, er afgr. var til Ed. í gær. Því að ef það strandar í Ed., sem er ástæða til að ætla, þá er nauðsynlegt, að þetta mál nái fram að ganga, því að ég hygg, að það sé samróma álit allra þeirra, er að hinu frv. stóðu, að þau ákvæði, sem í þessu frv. felast, séu nauðsynleg, og sameining Blönduóskauptúns er frá sjónarmiði flm. hins frv. að miklu leyti byggð á því, að ná eignarheimild fyrir íbúa kauptúnsins norðan árinnar á þessu landi, sem hér um ræðir.

Eins og tekið er fram í grg. fyrir þessu frv., hafa miklar tilraunir verið gerðar til þess að ná samkomulagi við eiganda jarðarinnar um að líta af hendi það land, sem hér um ræðir, og hefir honum verið boðið ríflegt verð fyrir það. En það hefir ennþá ekki tekizt að koma á samkomulagi milli hreppsins og eiganda jarðarinnar. En það getur vitanlega ekki átt sér stað, svo framarlega sem land það, er eignarnámi þarf að taka, er ekki nauðsynlegt fyrir jörðina, að því sé haldið í svo óeðlilega háu verði til hinna ýmsu manna, sem þurfa að hafa afnot af því, að varla sé kleift að taka landið á leigu með þeim skilyrðum, sem sett eru.

Með þessu frv. fylgir sem fskj. álit Búnaðarfél. Ísl. um nauðsyn þessa lands fyrir þennan kauptúnshluta, og get ég vísað til þess, sem þar er sagt.

Sem fskj. II. er líka erindi frá íbúum þessa kauptúnshluta, og lýsa þeir þar þörf sinni á þessu landi og óska eftir, að hreppsnefnd Engihlíðarhrepps geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að tryggja þeim aðgang að þessu nauðsynlega landi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar, en vænti þess, að málið fái afgreiðslu til n., svo að hægt verði, eftir því sem afgreiðsla verður á hinu málinu - sameiningarmálinu - í Ed.afgr. þetta, ef hitt yrði fyrir einhverjum töfum í þinginu, sem ég vænti, að verði. Vil ég svo vænta þess, að n. verði reiðubúin til þess að skila þessu máli frá sér strax og séð verður um afdrif hins málsins, svo að trygging sé fyrir því, að þetta mál fái afgreiðslu í gegnum þingið. Ég sé ekkert á móti því, að þessu máli verði hraðað í gegnum Nd. og sent til Ed. Gæti það þá orðið úrslitaþátturinn um þá stefnu, sem taka á í þessu máli, hvernig Ed. lítur á þetta. Ég efast ekki um, að allir séu sammála um, að þetta atriði þarf að fá afgreiðslu á þessu þingi. Það verður ekki leyst á annan hátt, enda hafa svipuð mál verið leyst með lagasetningu. - Vil ég svo leggja til, að þessu máli verði vísað til landbn. að lokinni þessari umr.