22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (3465)

185. mál, hluti af landi Ennis í Engihlíðarhreppi

Jón Pálmason:

Ég geri ráð fyrir, að hv. dm. sjái, að þetta frv., sem hér liggur fyrir og lagt var fram fyrir þingið þegar allshn. var búin að afgr. hitt málið, að þetta er þýðingarlaust mál til þess að eyða í það nokkrum tíma, og til þess eins fram lagt að reyna, ef hægt væri, að spilla framgangi hins málsins, sem Nd. hefir nú þegar afgr. Mig undrar í sjálfu sér ekki, þó að hv. þm. V.- Húnv. komi með svona frv., eftir öll þau læti sem hann viðhafði gegn hinu frv., en hitt þykir mér furðu gegna, að hv. 7. landsk. og hv. þm. Mýr. skuli taka þátt í svona skrípaleik, því að það verður það að teljast. Ég skal ekki fara að ræða þetta mál neitt, því að efni þess þýðir ekki að ræða sérstaklega, en ég vænti þess, að hv. þm. verði sjálfum sér samkvæmir vegna þeirrar afgreiðslu, sem hitt málið fékk, og felli þetta frv. nú þegar við þessa umr., svo að frekari tafir þurfi ekki af því að leiða.