17.10.1935
Neðri deild: 50. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (3475)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Pétur Ottesen:

Ég get raunar tekið undir, að það mætti fresta frekari umr. um þetta mál, ef það yrði ofan á að taka aftur brtt. eða taka málið af dagskrá samkv. framkominni ósk. Ég vildi aðeins láta það koma fram af minni hálfu þegar vita þessa umr., að mér virðist það varhugaverð breyt, sem verið er að fara fram á í þessu frv., og sem ég ætla, að skjóti hér í fyrsta sinni upp höfðinu. Ég á við það, að fara að nota hafnarsjóði kaupstaðanna sem almennan gjaldstofn fyrir bæjarfélögin. Hingað til hafa okkar hafnarlög verið þannig byggð upp, að í þeim hafa eingöngu verið ákveðin gjöld, sem leggja megi á til ákveðinna þarfa, þ. e. a. s. þarfa hafnanna út af fyrir sig. Út af þessu hefir ekki verið brugðið, þó hafnarlögum hafi fjölgað, heldur hefir þeim verið haldið innan þessa ramma. Það er fyrst í þessu frv., að farið er út fyrir þennan ramma, og vildi ég nota tækifærið til þess að vekja athygli á, að það getur verið nokkuð varhugavert og komið misjafnlega og ranglega niður, ef breytt er um aðferð og veitt í hafnarlögum slík heimild sem hér er um að ræða. Ég viðurkenni fyllilega, að erfiðar ástæður kaupstaða og kauptúna reka mjög eftir því, að nokkur lausn fáist á því vandamáli, að meiri tekna þarf að afla í bæjar- og sveitarsjóði heldur en víða eru möguleikar fyrir eins og nú standa sakir. Það líður ekki á löngu áður en Alþingi verður með fullkominni alvöru að taka undir þær kröfur, sem streyma að frá kaupstöðum og sveitarfélögum, og leysa þetta spursmál. Þegar fara saman, eins og að undanförnu, erfiðleikar atvinnuveganna við það, að nálega allir tekjustofnar eru hirtir í ríkissjóð, þá er ekki undarlegt, þó þröng sé í búi hjá mörgu sveitarfélagi. En leiðin til þess að leysa úr þessu hlýtur að verða nokkuð önnur og almennara eðlis en sú, að leyfa einstökum bæjarfélögum að afla sér tekna gegnum hafnarsjóð. Því er ég á móti 10. gr. þessa frv. og mun einnig greiða atkv. á móti brtt. í þskj. 296, og standa á móti allri tilhneigingu manna til þess að afla bæjarfélögum tekna með þessari aðferð.

Hitt finnst mér undarlegt, að ein af þremur brtt., sem n. öll kemur sér saman um, fer fram á að kippa burt heimildinni fyrir því, að ríkissjóður ábyrgist nokkurn hluta af því fé, sem kaupstaðurinn þarfnast til hafnargerðar sinnar. Ef taka ætti upp að kippa slíkri heimild út úr hafnarlögum, sem ekki er búið að byggja upp hafnir samkv. þá er það vitanlega sama og loka fyrir allar slíkar framkvæmdir. Hitt gæti verið athugunarefni, innan hvaða takmarka þessi heimild þyrfti að vera, hvort ekki væri ástæða til að setja hana innan þrengri ramma heldur en verið hefir; en að kippa henni alveg burtu er sennilega sama og stöðva allar framkvæmdir á þessu sviði, a. m. k. meðan ríkissjóður er tekinn ábyrgur fyrir slíkum lánum.