21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (3484)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Það er orðið alllangt síðan mál þetta var rætt hér í d., og er því ýmislegt farið að fyrnast fyrir mér, sem þá var sagt og svara hefði þurft.

Í sambandi við mál, sem hér var til umr. áðan. fóru tveir hv. meðnm. mínir úr sjútvn. allmjög inn á umr. um Siglufjörð og skattgreiðslu ríkisverksmiðjanna. Hafa þeir því sennilega lokið sínu máli hvað frv. þetta snertir. Hvað mig snertir gegnir öðru máli; ég hefi ekki haft tækifæri til þess enn að ræða málið sem skyldi.

Fyrst þegar rætt var um þetta mál, þótti ekki geta komið til mála að nota höfnina til þess að afla kaupstaðnum tekna. En þetta er reginvilla, þar sem eins stendur á og á Siglufirði, að kaupstaðurinn hefir vaxið upp utan um höfnina. því eins og kunnugt er, hefir hann ekkert samband á landi við meginlandið. Það er því ekki um annað að ræða en að sá atvinnurekstur, sem vaxið hefir upp í skjóli hafnarinnar, verð gjaldstofn fyrir kaupstaðinn, sem á verði lagt á ýmsan hátt.

Ég hefi gert grein fyrir því áður, hve mikið af þörfum bæjarins hefir verið hægt að leggja á eftir efnum og ástæðum. Jafnframt sýndi ég fram á, að um helmingur af atvinnurekstri bæjarins væri skattfrjáls að lögum. Og það hljóta allir að sjá, hvort nokkurt sveitarfélag geti þolað slíkt. Í þessu sambandi vil ég nota tækifærið til þess að senda heim til föðurhúsanna þá firru, sem hv. þm. Ísaf. sagði áðan, að það væri sú mesta fjarstæða að halda því fram, að ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði hefðu tekið nokkuð frá einstaklingunum eða skert möguleika þeirra fyrir atvinnurekstri þar. Þetta er vitanlega hin mesta endemisvitleysa hjá hv. þm., því að það hljóta allir heilvita menn að sjá, að þegar ríkið er búið að setja þar á stofn verksmiðjur, hvort ekki séu minni möguleikar fyrir einstaklinga að setja þar á stofn samskonar atvinnurekstur. Það er þvert á móti öldungis víst, að ríkisrekstur síldarverksmiðjanna hefir útilokað þar mikið af einstaklingsrekstri, sem hefði getað orðið góður gjaldstofn fyrir bæjarfélagið.

Um það má vitanlega alltaf deila, hvaða leiðir skuli fara til þess að afla kaupstaðnum tekna. Nú hefir stjórn kaupstaðarins farið fram á ákveðið vörugjald; þess vegna býst ég við, að hv. þm. Ísaf. og fylgifiskar hans reyni að ganga á milli og villa mönnum sýn á því, hve vörugjald þetta geti orðið mikið. Mér þykir því rétt að birta hér, til þess að fá það skráð í umr., hvað vörugjaldið er í raun og veru á Siglufirði, og jafnframt til samanburðar, hvað það er hér í Rvík, og skal ég þá fyrst nefna þá vörutegundina, sem mest er framleitt af á Siglufirði, en það er síldarolía eða síldarlýsi. Af því er vörugjaldið hér í Reykjavík 4 kr. pr. smálest, en kr. 1.50 á Siglufirði. Af síldarmjöli og fiskmjöli er það hér í Rvík 3 kr. pr. smálest, en 1.50 kr. á Siglufirði. Af saltsíld er það 1.50 kr. pr. smálest hér, en 0.80 kr. norður frá. Af þurrkuðum saltfiski er vörugjaldið 3 kr. hér, en 1 kr. á Siglufirði. Nýr fiskur er ekki gjaldskyldur á Siglufirði, en hér er vörugjaldið af honum 1.50 kr. pr. smálest. Gjald af landbúnaðarafurðum, svo sem heyi, kartöflum, grænmeti o. fl., er hér í Rvík 3 kr. pr. smálest, en ekkert á Siglufirði. Þá er t. d. ekkert vörugjald á Siglufirði af kornvörum, sementi og timbri, en hér í Rvík er það 1 kr. af kornvörum og sementi og 1.60 kr. af timbri.

Með dæmum þessum hefi ég viljað sýna og sanna, að vörugjaldið er lágt á Siglufirði, og að það verður í mörgum tilfellum lægra en hér í Rvík, enda þótt það verði hækkað um 100%, eins og t. d. gjaldið af síldarlýsinu, sem ekki yrði nema 3 kr. pr. smálest, í stað þess, sem það er 4 kr. hér.

Það, sem ég að síðustu vildi leggja sérstaka áherzlu á, er það í fyrsta lagi, að vörugjaldshækkunin nær ekki nema til nokkurs hluta af þeim vörum, sem fluttar eru að og frá Siglufirði, og í öðru lagi það, að þar sem vörugjaldið er mjög lágt yfirleitt, þá verður hækkunin ekki tilfinnanleg. Og í þriðja lagi vil ég leggja áherzlu á það, að Siglufjarðarkaupstaður verður að fá einhverja tekjustofna til þess að leggja á, úr því að helmingurinn af atvinnufyrirtækjum kaupstaðarins er undanþeginn álagningu til þarfa bæjarfélagsins.

Ég skal að mestu ganga framhjá hv. 3. landsk. Hann blés sig allmjög upp áðan og lét dólgslega. En það eitt vil ég segja honum, að ég fyrirlít slíka framkomu sem hans eins og það, sem ég geng á.