22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (3489)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Ég man ekki, herra forseti, hvað ég er búinn að tala oft í þessu máli. (Forseti: Tvisvar). Ég skal ekki vera langorður. Vil ég endurtaka það, sem ég hefi áður haldið fram og er öllum ljóst, að það er ákaflega mikill aðstöðumunur þeirra kaupstaða, sem geta lagt á atvinnureksturinn, eða þeirra, sem eru eins settir og Siglufjörður, að atvinnureksturinn er annarsstaðar og aðeins að kominn um stuttan tíma ársins. Það þýðir ekkert að vitna í hafnargjöld annarsstaðar; þau eru þarna fyrir utan á Siglufirði, eins og allstaðar á landinu, en enginn maður er svo blindur að hugsa sér, að ekki skipti öðru máli fyrir Siglufjörð en aðra staði, vegna þess að þar er atvinnureksturinn útsvarsfrjáls.

Þá er samanburður hv. þm. Ísaf. milli Rvíkur og Siglufjarðar alveg óþarfur; vörugjöld á Siglufirði eru svo lág, að auðséð er, að ekki er til þess ætlazt, að þau verði verulegur tekjustofn. Ég tók minn samanburð eftir reglugerðum beggja hafna, og er hverjum opinn aðgangur að reikna út, hvort ekki sé rétt.

Öðru máli gegnir um þær tölur, sem hv. 3. landsk. fór hér með; þær eru ekkert annað en herfilegar rangfærslur og blekkingar. Þetta er ekki auðvelt að sanna svona standandi án allra gagna, en hann vildi reikna svo út, að hafnargjöld á Siglufirði næmu meiru en útflutningsgjald af síldarafurðum. (PÞ: Hefir þm. lagt til að fella það niður?). Það þarf meira en litla fífldirfsku til að halda því fram, að 1 kr. sé meira en 10 kr. En það er útflutningsgjaldið nú af einni tegund síldarafurða, 10 kr. pr. tonn, en hafnargjald 1 kr. Ef tollurinn á saltsíld sé lægri en vörugjaldið, þar sem útflutningsgjaldið hefir verið 1 kr. á smálest, þó að vísu hafi verið fært niður í 80 aura á smálest á þessu ári eða í 15/8%, sem ég hygg að geri nálægt 80 aurum á smál. en vörugjald Siglufjarðar er 10 aurar. Þó svo að niðurfærsla útflutningsgjaldsins hafi kannske numið því, að gjald þetta sé komið niður í 60-70 aura, þá sjá allir, hvílík ódæma frekja það er af einum manni að halda því fram, að 10 aurar sé hærra gjald en 60-70 aurar. Ég hygg, að það muni láta nærri, að fyrir tonn af fiski upp og niður fáist 400-500 kr. verð. Af því er greitt til ríkissjóðs kr. 6.50, en til Siglufj. í vörugjald kr. 1.50. Þessar tölur hefi ég við hendina, sem hægt er að hrekja með fullyrðingar þessa hv. þm. og rangfærslur, sem ég vildi ekki láta ómótmælt, því það getur verið þægilegt að slá fram svona tölum, þegar hv. þm. kannske ljá því ekki nema hálft eyra, og því er ómótmælt, sem ekki er rétt að láta vera, þó ekki eigi virðulegri maður í hlut en hér er um að ræða. Siglufjörður hefir þá sérstöðu, svo sem ég hefi áður drepið á, að hann missir af útsvörum frá atvinnurekstri, sem aðrir kaupstaðir fá, og er ekki óeðlilega hátt reiknað, að það tekjutap nemi 1/2 millj. kr. á ári.

Að þessu athuguðu er sýnt, að ekki er óeðlilegt að Siglufjörður fái einhverja uppbót og að honum er það nauðsynlegt. Ég hefi ekki sagt, að þetta sé heppilegasta leiðin, en hún er vægileg, og er þar að auki aðeins ætluð til eins árs. Það stendur óhaggað, að vörugjald á Siglufirði sé lágt, og á sumum vörutegundum alls ekkert, þrátt fyrir það, þó hv. 3. landsk. hafi haldið því fram í blaðagrein, að við hv. þm. Vestm. ætluðum að skattleggja nauðsynjavörur, sem sýnir bara, að hann hefir ekki nennt að lesa þskj.

Það má vel vera, að ég hafi verið harðorður í gær, en ég var ekki harðorðari en efni stóðu til. Það er þreytandi að sitja með þessum hv. þm. dag eftir dag og sjá hann bregða fæti fyrir hvert mál á fundum í sjútvn., sem til hagsbóta horfa fyrir sjávarútveginn, með þeim gorgeir og þembingi, sem einkennir þá menn, er minnst hafa til brunns að bera. Ég vil því síður en svo taka aftur nokkuð af því, sem ég hefi sagt.