21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

1. mál, fjárlög 1936

Magnús Guðmundsson:

[óyfirl.]: Ég hefði haft ástæðu til að tala langt mál, en ég vil ekki verða valdur að því, að þm. utan af landi komist ekki af stað heim til sín, og skal ég því takmarka ræðutíma minn.

Ég vil fyrst víkja að því, sem hæstv. atvmrh. sagði viðvíkjandi höfninni á Ísafirði. Ég get ekki skilið, að það sé rétt hjá honum, að sama regla sé látin ganga yfir Ísafjörð og aðra staði, og sem byggðar hafa verið hafnir, því að Ísafjörður hefir fengið fyrirfram samninga um allt það fé, sem höfnin hefir kostað, en aðrir staðir hafa orðið að útvega sér lán sjálfir og leita samninga um þau jafnóðum, líka því, sem ríkissjóður á að greiða. Það er því ekki sama máli að gegna um Ísafjörð og aðra kaupstaði.

Út af því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði fyrst í ræðu sinni, vil ég segja fáein orð. Hann talaði mikið um það, að ég yrði að athuga, að hér á þingi væru tveir umbótaflokkar, sem ynnu saman, en á móti væru tveir íhaldsflokkar, eða einn með tungli, eins og hann orðaði það. En ég vil segja hv. þm., að ef það eru umbætur, sem hann hefir flutt, t. d. í „bandorminum“, þá þætti mér ekki heiður að því að vera í umbótaflokki. Það er ekki nóg að samþ. svonefndar umbætur og verða svo næsta ár að setja lög um að hætta við framkvæmd þeirra vegna fjárskorts. Það hafa komið hér tvenn lagafyrirmæli, annað í fyrra og hitt nú á þinginu, um að fresta umbótum, sem þessir tveir flokkar hafa komið á. Í staðinn fyrir að koma fram umbótunum og efna loforð sín, þá renna þessir menn frá þeim og koma með ný loforð um nýjar umbætur, sem þeir segja, að séu meiri en þær fyrri.

Ef heldur áfram sama árferði og nú er, sem búast má við, að fari versnandi, þá rekur að því, að þessir flokkar verða á næsta þingi að koma með nýtt bandormsfrv. um að nema úr gildi þær umbætur, sem þeir eru að burðast með nú. Það er eins gott, að þeir reyni að sjá fótum sínum forráð og hlaði ekki á sig meiri byrðum af loforðum en þeir geta risið undir.

Hv. þm. S.-Þ. sagði að við sjálfstæðismenn myndum ekki hafa komið á atvinnuleysisstyrkjum, ef við hefðum ráðið. Ég býst ekki heldur við því. En þó þeir hafi verið samþ. hér, er það ekki fyrir það, að meiri hluti þm. hafi verið með þeim. Margir framsóknarmenn greiddu þar nauðugir atkv. Þeir hafa sjálfir sagt mér það.

Hv. þm. sagði einnig, að við myndum ekki hafa sett mjólkurlög eða kjötlögin. Það er undarlegt, að hann skuli segja svo, þar sem búið var að undirbúa þá löggjöf af fyrrv. ríkisstj., eins og oft hefir verið sýnt fram á, og nú síðast af hv. 10. landsk.

Hv. þm. játaði, að fjárl. væru há. Það undrar mig ekki. Hann hefir haldið í fjvn. ræðu um að hækka ekki fjárl., en samt eru þau hækkuð stórkostlega. Hann getur ekki fóðrað þetta með öðru en því, að það hafi verið nauðsynlegt til að halda saman stjórnarfylkingunni hér á þinginu. En hvernig fer, ef haldið verður áfram á sömu braut, ef hækka verður fjárl. ár frá ári? Hann sagði, og ég er honum þar sammála, að þessi kreppa myndi verða löng, standa enn mörg ár. Og ef svo er, þá er auðséð, að smátt og smátt heltast fleiri atvinnufyrirtæki úr lestinni, og ef haldið er áfram á sömu braut og nú, þá hækka fjárl. og skattarnir með hverju ári. Og hverjir eiga svo að bera byrðarnar? Það fer eftir því, hvað kreppan verður löng, en ef hún stendur t. d. í 5 —10 ár ennþá, þá verður ómögulegt að rísa undir þessum byrðum og það vofir yfir algert hrun.

Það er eftirtektarvert, að í fyrra var tekjuskatturinn hækkaður mikið, en samt hefir hann nú orðið um 400 þús. kr. lægri en hæstv. fjmrh. áleit, er hann bjó til fjárlagafrv. Þetta er af því, að atvinnuvegirnir ganga illa. Þessi hækkun verður bara til smáslátrunar á fyrir tækjunum, er hafa að síðustu ekkert til að láta af mörkum í ríkissjóðinn, í staðinn fyrir að vera honum hinar beztu mjólkurkýr.

Hv. þm. talaði um varalögreglu, að við vildum eyða fé í hana. Ég vil svara því með örfáum orðum. Jafnvel hæstv. atvmrh. leyfði sér að tala eins og ekkert hefði verið gert í tíð fyrrv. stj. til að draga úr þessum kostnaði. En hvað var þá gert í tíð fyrrv. stj.? Varalögreglan var afnumin, og náð löngu áður en stj. fór frá, eftir að komið var lag á lögregluna í Reykjavík. En það var ekki undarlegt, þó að gripið væri til varalögreglu, þegar uppreisn hafði orðið og allt lögregluliðið lá flakandi í sárum.

Hv. þm. spurði mig einnar spurningar, sem hann hafði áhuga á, að ég svaraði. Hann spyr, hvernig standi á því, að skattarnir séu hækkaðir í Reykjavík, þar sem meiri hl. í bæjarstjórn séu sjálfstæðismenn. Þessu er létt að svara. Skattarnir fara ekki eingöngu eftir því, hvað bæjarstj. ákveður, heldur líka eftir því, hvað þingið ákveður. En það hefir á síðustu árum hrúgað stórum útgjöldum á bæjar- og sveitarfélögin, og þó sérstaklega á Reykjavík. Á þessu þingi hefir verið aukin skattabyrðin alveg stórkostlega. Auk þess er rangt að bera saman skatta í Reykjavík við skatta ríkisins, taka bara útsvörin í Reykjavík og tekjuskatt ríkisins. Ef bærinn hefði eins mikla tekjustofna eins og ríkið, þá hefðu útsvörin ekki hækkað. En bæirnir hafa ekki aðra tekjustofna, að undanskildum fasteignasköttum, en útsvörin. Og þegar öll hækkunin kemur niður á einn lið, öll útgjöldin, sem lögboðin eru af Alþingi, eiga að koma niður á þetta, verður hann líka að hækka.

Hvað halda menn, að nemi miklu fyrir ríkissjóð hækkun allra tolla og beinir og óbeinir skattar? Ef þetta væri borið saman við Reykjavík, þá yrði annað uppi á teningnum, þá myndi sjást, að gjöldin hafa vaxið minna hjá Reykjavíkurbæ en hjá ríkissjóði. Ég get sannað þetta, en ég vil ekki eyða hér löngum tíma, því að ég vil ekki hindra, að þm. komist heim til sín, þegar þingið hefir nú staðið á annað hundrað daga.

Hv. þm. sagði, að Reykjavík hefði engin ný mál á dagskrá, svo sem ýms vegamál, alþýðutryggingar o. fl. Það er nú helzt, að Reykjavík hafi ekki ný mál á dagskrá. Hvað er um Sogsvirkjunina? Er hún ekki mesta fyrirtækið, sem ráðizt hefir verið í hér á landi? Hvað er hitaveita Reykjavíkur? Er hún ekki með stærstu fyrirtækjum? Jú, Reykjavík hefir stærri mál með höndum heldur en ríkið, svo að það er hart, að geta staðið hér upp og sagt, að Reykjavík hafi engin stórmál með höndum. Og Reykjavík hefir meira að segja sín eigin vegamál, sem eru stærri en þeir vegir, sem á að byggja fyrir þennan nýja benzínskatt.

Þá kem ég að kjötuppbótinni. Hann fór um hana vægum orðum og áræddi ekki að vefengja skýrslu þá, sem ég gaf í n. viðvíkjandi því máli. Hann segir, að það hafi komið upplýsingar frá hv. 2. þm. N.-M., um það, að ekki verði séð, hvað mikið þurfi í því skyni. Ég hefi líka fengið upplýsingar frá hv. 2. þm. N-M., og sagði hann þá, að bændur þyrftu að fá 100 þús. kr. í viðbót til þess að það liti sæmilega út fyrir þá. Ég sagði við hann, að ég skyldi styðja að því, að þeir fengju það. Og þykir mér gaman að sjá, hvort hann styður till. mína, þegar hún kemur til atkv. Það hefir verið talað um, að það væri ekki víst, hvort salan erlendis yrði verri en salan innanlands. Ef innlenda salan verður verri en salan á erlendum markaði, þá sýnir það, að verðið á kjötinu hefir verið sett of lágt innanlands. Það er víst, að það, sem bændur fengu fyrir kjötið á innlendum markaði, er ekki fyrir framleiðslukostnaði þeirra, og því full ástæða til þess að bæta þeim upp verðið, þar sem nú er varið stórfé til annara stétta þjóðfélagsins bæði með atvinnuleysistryggingum og öðrum hlunnindum. Hann talaði nokkuð um, að það væri hættulegt að hafa ótiltekin útgjöld, og það ætti að ákveða hámark. Þetta er rétt, og það hefir verið gert að því er snertir nýju tryggingarloggjöfina. En hefir þess verið gætt, þegar farið var inn á þá leið, að takmarka þá líka, hvað bæirnir ættu að borga? Nei, það hefir gleymzt. Bæirnir verða að greiða ótiltekna upphæð, en ekki ríkissjóður. Ef þessi regla er tekin upp, þá verður hún að gilda fyrir alla aðila. En það er ekki hægt að fastákveða öll gjöld, því það er oft ómögulegt að vita fyrirfram, hvað mikil þau muni verða. Það er því staðleysa, að hægt sé að ákveða öll gjöld fyrirfram.

Þá ræddi hann nokkuð um landhelgisgæzluna og sagði, að reynslan hefði sýnt, að það væri betra að hafa við hana smábáta heldur en venjuleg varðskip. Ég er þar á öndverðri skoðun. Reynslan hefir ekkert um það sýnt, að betra sé að hafa smábáta. Og ég er alveg viss um, að bezt er að hafa okkar góðu skip, sem við höfum núna. Hitt má auðvitað deila um, hvort við höfum ráð á að eiga skipin. Það sýnir bezt, hvernig komið er fjárhag þjóðarinnar, þegar í alvöru er farið að tala um það, að selja þessi góðu skip, sem voru keypt fyrir fáum árum og eru talin alveg nauðsynleg til þess að verja landhelgina í þessu landi.

Um barnafræðslutill., sem er einn af liðum „bandormsins“, ætla ég ekki að tala. Það er auðsætt, að það má ná sama marki með því að taka málið upp á næsta ári og setja um það lög.

Þá vil ég segja fáein orð út af ræðu hæstv. fjmrh. Hann sagði, að það hefði ekki verið farið á bak við fjvn., þó að fram hafi komið hækkunartill. hér um bil um það leyti, sem hún var að ljúka störfum fyrir 2. umr. fjárl. Ég held því fram, að fjvn. hafi verið vandlega dulin þess, hvað var í aðsigi. Ég held því fram og er sannfærður um það, að ýmsir, sem áttu sæti í n., höfðu ekki hugmynd um, hvað var á seiði, og mér er næst að halda, að formaður n. hafi ekki vitað það. Um þetta má kannske deila. En ég kalla það að fara á bak við n., sem er að leggja sig í líma, eftir beiðni allra flokka, til þess að reyna að spara sem mest, þegar svo er verið að búa til útgjöld, sem nema stórfé, bak við tjöldin. Sú hækkun, sem stjórnarflokkarnir hafa komið á á gjöldum til ríkissjóðs síðan þeir tóku við stjórn landsins, nema 31/2 millj., að ég hygg. Ef þetta er borið saman við t. d. Danmörku, sem er 30 sinnum fólksfleiri, þá svarar það til 105 millj. kr. þar. Nú er mér spurn: Hvaða halda menn, að hefði orðið í Danmörku, ef stj. þar hefði komið með till. um að færa svona upp gjöldin? Ég hefi séð það í dönskum blöðum, að ef hækka hefir átt gjöldin um 3 —4 millj., þá hefir orðið út af því hin mesta rekistefna, svo að hvað myndi þá hafa orðið, ef það hefði átt að hækka þau á annað hundrað milljónir?

Þá er það viðvíkjandi áætlun gjaldanna. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði sagt, að hann hefði gefið loforð um það, að útgjaldaliðirnir stæðust. Ég sagði ekki, að hann hefði gefið loforð um það. Ég sagði, að þegar hann hefði verið í fyrra að gera grein fyrir hækkuninni á fjárlagafrv., þá hefði hann sagt, að hækkunin stafaði aðallega af því, að hann áætlaði útgjöldin eins og þau myndu verða. En nú hefir þessi áætlun ekki staðizt, því þau hafa orðið miklu hærri. Það er rangt hjá honum, þegar hann heldur því fram, að þetta sé í fyrsta skipti, sem það hafi verið reynt að láta útgjaldaliðina standast. Það hefir oft verið reynt áður, en ekki tekizt. Og ég ætla, að þó að það hafi verið reynt núna, þá muni koma fram liðir, sem eru of lágt áætlaðir. Og ef ég lifi það að sjá landsreikninginn fyrir árið 1936, þá mun þetta koma í ljós. Ég veit líka, að ef allt veltur ekki um hrygg, þá eru ýmsir tekjuliðir áætlaðir of lágt. Hann kvaðst hafa sagt við mig í undirnefnd, sem sett var til þess að athuga tekjubálkinn, að útflutningsgjaldið væri of hátt áætlað. Ég man ekki eftir því. En hvers vegna kom ráðh. þá ekki með brtt.? Hann hefir sannarlega verið ófeiminn við að gera það, enda fékk hann tekjubálkinn lækkaðan um a. m. k. 1/2 millj. frá því, sem undirnefndin hafði áætlað hann í byrjun. Ég held líka, að það sé rétt, sem ég sagði, að annaðhvort er berklavarnakostnaðurinn of hátt áætlaður, eða gjaldið samkv. tryggingarloggjöfinni. Ég held raunar, að báðir liðirnir séu það. Ég skal geta þess hér, að ég held, að það sé útilokað, að það geti átt sér stað, að tryggingalöggjöfin verði komin fyllilega til framkvæmda 1. apríl 1936. Og þó að ríkið eigi að borga stofnkostnaðinn, þá skil ég ekki í því, að hann geti orðið nein ósköp. Það þarf að fá bækur, pappír, ritföng og svo þarf auðvitað að leigja húsnæði. Og þetta er nú svo að segja allur stofnkostnaðurinn.

Hæstv. ráðh. var mjög montinn yfir því, að ég sagði í fyrri ræðu minni, að ég gerði ráð fyrir, að landsreikningurinn fyrir árið 1936 yrði hallalaus, ef ekkert óvænt kæmi fyrir. Hann hélt, að þetta væri hrós til sín. En það er herfilegur misskilningur. En það er skoðun mín, að þetta verði svona, ef hann stjórnar áfram eins og hann hefir stjórnað. En þetta er ekkert hrós til hans, því að hann hefir skrifað upp tekjurnar, en áætlað þær svo lágt, að það er engin list að láta þetta standast, ef ekkert sérstakt kemur fyrir.

Annars vil ég segja það út af kjöttill., að það lítur út fyrir, að stj. vilji bíða með það. En ég taldi það vera í samræmi við stefnu hennar að láta það koma inn á fjárl. Stj. hefir haldið því fram, að hún vilji hafa öll gjöld á fjárl. Nú vill hún fá þál. fyrir þessu.

Þá ætla ég aðeins að nefna ábyrgðina fyrir Ísafjarðarkaupstað á láni vegna greiðslu skuldar vegna hafnargerðar. Hann sagði, að þetta væri sama og gert hefði verið fyrir Hafnarfjörð og Vestmannaeyjar. En það er ekki það sama, af því að nú er á ferð í þinginu frv. um að koma skipulagi á lánaábyrgðir ríkissjóðs. Og af hverju getur Ísafjörður ekki beðið eftir því? það gægðist reyndar fram hjá hæstv. ráðh., að stj. hefði lofað þessu. Hann hefir sjáanlega lofað bönkunum þessu. En hann hefði þá sjálfur átt að segja n. frá þessu, en vera ekkert að pukrast með það. (Fjmrh.: Nefndarmennirnir úr stjórnarflokkunum vissu um þetta). Það getur vel verið, en nefndarmenn úr stjórnarandstöðuflokknum vissu ekkert um þetta. Og ég tala hér frá mínu sjónarmiði, en ekki út frá sjónarmiði stjórnarflokkanna.

Mér þótti leitt að heyra, að hæstv. ráðh. var mótfallinn till. minni út af Sauðárkrókshöfn. En hann fór um hana vægilegum orðum, og má ég vera sæmilega ánægður með það. Hann sagðist ekki gera það að neinu kappsmáli, að hún yrði felld, svo að ég vona, að hæstv. ráðh. beiti ekki handjárnunum of stíft við atkvgr. um þessa till. En ef það er ekki gert, þá er ég viss um, að hún nær fram að ganga. En annars getur farið svo, að allt, sem unnið hefir verið, sé unnið fyrir gíg.

Út af ræðu hæstv. forsrh. þarf ég ekki mikið að segja. Hann játaði, að uppbót á kjötið þyrfti sennilega að koma á næsta þingi, og sé ég þá ekki, eftir hverju er verið að bíða.

Hv. frsm. 1. kafla þarf ég litlu að svara. Hann fór hógværum orðum um fyrri ræðu mína. Hann sagði, að það væru mismunandi sjónarmið í skattamálum, sem við hefðum, og er það satt. En ég vil benda honum á það, að jafnaðarmannaforingjarnir annarsstaðar á Norðurlöndum fara mjög öðruvísi að en jafnaðarmenn hér. Það er auðvitað stefna jafnaðarmanna að afla sem mest tekna með beinum skottum, en þeir hafa nú brugðið út af því með hinum nýja verðtolli. Ég ætla svo ekki að fara meira út í ræðu hv. 6. landsk., frsm. 1. kafla, enda var ræða hans, eins og ég hefi áður sagt, mjög hógvær.

Hv. frsm. 3. kafla, þm. A.-Sk., talaði nú á móti kjötuppbótinni. En ég man ekki betur heldur en að hann hafi verið, þegar það kom fyrst til umr. í fjvn. að greiða bændum uppbót á kjötið, mjög fylgjandi því, og taldi hann það sjálfsagt. En svo breytti hann allt í einu um skoðun, og munu jafnaðarmenn hafa snúið honum.

Ég mun svo láta máli mínu lokið, og mun ég ekki taka til máls aftur nema alveg sérstakt tilefni gefist til andsvara.