22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Páll Þorbjörnsson:

Það var núna undir ræðulok 6. þm. Reykv., sem hann sagði, að lagt væri til, að þetta ákvæði stæði aðeins í eitt ár. Ég vil því, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp a. m. k. kafla úr brtt, sem þm. flytur ásamt hv. þm. Vestm.: „Þangað til öðruvísi kann að verða ákveðið með almennum lögum, skal bæjarstjórn Siglufjarðar heimilt að ákveða hækkun á núverandi vörugjaldi um allt að 100%“ o. s. frv. Ég vil svo spyrja hv. 6. þm. Reykv., hvar það standi, að þetta eigi að vera til eins árs. (SK: Ég hefi tekið fram, að ég mundi fylgja brtt. hv. 8. landsk.). Ég hygg, að það sé misminni hjá þm., að hann hafi lýst sig fylgjandi till. hv. 8. landsk, enda er engin trygging fyrir því, að hann greiði þeim atkv. frekar en hann sá sér fært að fylgja frv. eins og það var flutt í byrjun.

Þá var hann að tala um, að ekki væri þægilegt að hrekja tölur þær, sem ég fór hér með. En ég stend þá þeim mun betur að vígi, að ég get hrakið þær staðleysur, sem hann hélt fram, því hann gleymdi t. d. alveg að reikna vörugjaldið af tómum tunnum, sem er 5 aurar á tunnu.

Þá skora ég á þennan þm. að hrekja það, annaðhvort nú í umr. eða síðar, að bátur, sem aflaði 2500 tunnur í salt, þar af 1500 tn. saltsíld og 1000 tn. kryddsíld, og 4 þús. mál í bræðslu, þurfi að greiða 1652.70 kr. í vörugjald samkv. till. hans, og læt ég svo útrætt að sinni.