22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (3492)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Ólafur Thors:

Ég ætla ekki að blanda mér svo seint inn í umr. um þetta mál, eða þau grundvallaratriði, sem deilt er um. En út af ummælum hv. 3. landsk. vildi ég minna hann á, að það er hann sjálfur og flokksbræður hans, sem valda því, að vélbátur, sem leggur á land afla samkv. útreikningi þessa hv. þm., eða 2400 tn. til söltunar og 4000 mál í bræðslu, þarf að gjalda í ríkissjóð 5-600 kr. hærra gjald en hann mundi gera, ef till. okkar sjálfstæðismanna um niðurfellingu á útflutningsgjaldi af síldarafurðum hefði ekki verið felld með atkv. hans og flokksbræðra hans. Við bárum fram till. um, að útflutningsgjald af síldarmjöli yrði ekki lengur 10 kr. af tonni, heldur eins og af öðrum vörum 1%%. Þessi munur nemur hvorki meira né minna en 7-8 kr. á smálest af síldarmjöli. Nú lætur nærri, að úr 4000 málum fáist a. m. k. 80 smál. af síldarmjöli, og nemur þá tollalækkunin 560-640 kr. Og þessi atkvgr. fór fram rétt eftir að þessir sömu menn höfðu greitt atkv. með niðurfellingu útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum. Ég fæ ekki séð, hvaða samræmi er í því að létta algerlega öllum þessum gjöldum af landbúnaðinum, en neita sjómönnum um sama rétt eða sömu hlunnindi. Það er a. m. k. alveg tvímælalaust og áreiðanlegt, að þessir menn geta ekki vegna fortíðar sinnar talað í þessu máli eins og þeir hafa gert hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf. Ég skal ekki blanda mér í persónulegar deilur þeirra hv. 6. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. Ég geri ráð fyrir, að hv. 6. þm. Reykv. hafi sagt eins og honum hefir þótt vera, því að hann er maður einarður og þorir að segja skoðun sína. En af því að mér er vel til hans, vildi ég mega beina til hans vinsamlegum tilmælum um að gæta þess í framtíðinni að óvirða ekki Alþingi með því að lesa upp eða hafa eftir þann óhróður og óþverra, sem prentaður er í Nýja dagblaðinu.