22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (3496)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Gísli Guðmundsson:

Ég skal ekki vera langorður, enda hefi ég aðeins rétt til að gera stutta aths., en ég vil endurtaka þá ósk, að frv. verði tekið af dagskrá nú og umr. frestað, en þeir hv. þm., sem borið hafa fram brtt., taki þær aftur til 3. umr.

Annars var það út af ræðu hv. þm Vestm., að ég kvaddi mér hljóðs, vegna þess að hann var að draga afnám útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum inn í þessar umr. Það hefir komið fram oftar, að sjálfstæðismenn hafa gert mjög mikið úr því, að það væri órétt að afnema ekki útflutningsgjald af sjávarafurðum, fyrst afnumið hefði verið útflutningsgjaldið af landbúnaðarafurðum. Mér virtist, að hér gæti allmikils misskilnings. Í fyrsta lagi er það að segja, eins og hv. þm. Ísaf. líka upplýsti, að um leið og útflutningsgjald af landbúnaðarvörum var afnumið, þá var létt af sjávarafurðum, sem nam talsvert hærri upphæð en gjaldinu af landbúnaðarafurðum.

Í öðru lagi er það að segja, að útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum kom óréttlátlega niður, því að það kom eingöngu í þann hluta landbúnaðarafurða, sem út var fluttur. Hér var því um ósamræmi að ræða, sem orsakaði misrétti innan sjálfs landbúnaðarins.

Svo má benda á það að lokum, að það er ákaflega hlálegt, ef ríkissjóður ætti að leggja gjald á t. d. útflutt saltkjöt og freðkjöt á sama tíma og veitt er fé úr ríkissjóði til að bæta upp verð á þessu kjöti. Þetta tal hv. þm. er því mjög úr lausu lofti gripið, og ég er satt að segja hissa á því, að hv. þm. skuli bera fram þvílíkar röksemdir.