30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (3509)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Páll Zóphóníasson:

Ég á hér brtt. við brtt. á þskj. 315. Mönnum er kunn mín aðstaða til þessara mála, að ég hefi verið á móti því að veita einstökum kauptúnum og kaupstöðum rétt til þess að velta af sér eðlilegum gjöldum yfir á aðra. Nú er það svo, að aðstaðan er misjöfn að því er þetta snertir. Það hefir verið rætt um það hér í d., að Vestmannaeyjar hafi sérstöðu í þessu efni, þar sem þær skipti ekki nema við sjálfar sig. Þar næst eru svo Siglfirðingar, sem lítið selja vörur öðrum en sjálfum sér og þeim, sem þar stunda atvinnu. En til þess þó að milda frv., ef að l. skyldi verða, þá hefi ég í brtt. lagt til, að á eftir orðunum „almennum neyzluvörum“ komi: og útflutningsvörum. Ef heimildin yrði eins mikil og ráð er gert fyrir í frv., þá yrði þetta tilfinnanlegur skattur á þá mörgu menn, sem sækja atvinnu þangað og vinna að framleiðslu þessara vara. Tel ég því, að rangt sé að leggja þetta gjald á. Hv. 8. landsk. talaði um það, að ég mundi geta gengið að sinni brtt. Ég get það ekki, af þeirri ástæðu, að hjá honum er það aðeins heimild fyrir bæjarstj., en í minni till. er það „skal vera undanþegið,“ og það er tvennt ólíkt. Af þessum ástæðum get ég ekki fallizt á brtt. hv. þm., en geri hinsvegar ráð fyrir, að hv. þm., sem hafa flutt brtt. á þskj. 315, geti sætt sig við, að þetta útflutningsgjald sé yfirleitt undanþegið og geti því greitt atkv. með minni till., sem kemur auðvitað á undan til atkv., þar sem hún er fyrr fram komin. Hinsvegar lít ég svo á, að þar sem um jafnstórfelldan atvinnurekstur er að ræða eins og síldarverksmiðjur ríkisins, þá sé ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þær borgi eitthvað í bæjarsjóð, og er ég þar á sama máli og hv. þm. Ísaf., að séu þær reknar á samvinnugrundvelli, þá eigi þær að borga í bæjarsjóð eins og samvinnufélögin. En því miður held ég, að á það bresti, að þær séu reknar eins og samvinnufélög. Ég vildi gjarnan ganga að því að láta koma útsvör á verksmiðjurnar á svipuðum grundvelli og lögð eru á samvinnufélög, en þó því aðeins, að þær séu reknar eins og samvinnufyrirtæki. Ég geri mér því vonir um, að þeir, sem standa að brtt. á þskj. 315, geti fallizt á mína till., því að hún undanskilur, eins og till. þeirra, útflutningsvörur. En það vil ég fá skýrt, en ekki heimild, eins og er í hinni skrifl. brtt. hv. 8. landsk.