30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (3512)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Páll Zóphóníasson:

Það eru tvö atriði, sem mig langar til þess að vekja athygli á. Annarsvegar vil ég benda þeim mönnum, sem eins er ástatt fyrir og hv. þm. Ísaf., að þeir líta svo á, að mín till. sé aðgengilegri en eins og það er í frv., að gá að sér við atkvgr., að það fari ekki svo fyrir þeim, að þeir felli það, sem þeir álíta aðgengilegra en það, sem er í frv., í von um að fá það, sem þeir álíta aðgengilegast, en er kannske ekki hægt að fá.

Hinsvegar vil ég benda hv. 8. landsk. á það, að mér hefir skilizt í þessari hv. d. og af blöðum sjálfstæðismanna, að það væri samhljóma heróp þeirra að afnema öll gjöld af útflutningsvörum. Er þetta ekki rétt hjá mér? Eða er hv. þm. í ósamræmi við vilja Sjálfstfl.? En ef svo er ekki, þá geri ég ráð fyrir, að hann verði með brtt. minni og vilji ekki leggja gjöld á útflutningsvörur. Og mig minnir líka, að Sjálfstfl. sé með frv. um að afnema útflutningsgjald af sjávarafurðum í ríkissjóð, - en er þá betra að leggja það á þær útflutningsvörur, sem framleiddar eru á vissum stöðum, og það töluvert hærra en það nú er í ríkissjóð? Ætla þeir sér að ná réttlæti í því að láta suma framleiðendur gjalda það, en aðra ekki? Eða er réttlætiskenndin lítil?