11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (3518)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég sé ekki ástæðu til, a. m. k. að svo vöxnu máli, að fara mjög mörgum orðum um það frv., er við þrír þdm. berum hér fram til breyt. á mjólkursölulögunum frá síðasta þingi, en ég vil þó byrja á því að rifja það upp fyrir hv. dm. og öðrum, sem öllum var ljóst í upphafi, er lög þessi voru sett, að árangur af afskiptum þess opinbera af afurðasölumálum bænda væri langsamlega mest undir því kominn, hvernig tækist með framkvæmd þessarar löggjafar. Þá var þess vegna höfuðatriðið fyrir bændur, sem fyrst og fremst áttu að njóta góðs af þessari löggjöf, að vel og giftusamlega tækist um framkvæmd hennar, þannig að notaðir væru allir þeir möguleikar, sem löggjöfin fól í sér, til þess að draga sem mest úr kostnaði við dreifingu og sölu mjólkur og mjólkurafurða, án þess þó að nokkuð væru skertir þeir markaðsmöguleikar, sem voru í landinu fyrir þessa vöru, og aura sízt að heft yrði með framkvæmdunum eðlileg þróun markaðarins.

Það er svo um slíka löggjöf sem þessa, að hún getur aldrei orðið annað en nokkurskonar rammi, sem markar höfuðstefnuna í málinu. Með l. út af fyrir sig vans því ekki annað gert en að skapa sem bezt skilyrði til þess að vinna megi bug á þeim erfiðleikum og torfærum á sviði þessa máls, sem framleiðendum sjálfum hefði ekki tekizt til fulls að brúa með frjálsum samtökum. Vitanlega er það annað höfuðatriði málsins, að löggjöfin sé í þessum skilningi sem fullkomnastur rammi fyrir framkvæmdina, en hitt er engu síður þýðingarmikið, að framkvæmdin takist vel, því undir henni er árangurinn að langsamlega mestu leyti kominn. Ég held, að engum blandist hugur um það, að mjólkursölulögin feli í sér mikla möguleika til þess að dregið væri mjög úr kostnaði við mjólkursölu hér í Reykjavík og dreifingu á mjólkinni, og ég held, að það ætti einnig að vera öllum ljóst, að það átti að vera hægt að ná þessum tilgangi löggjafarinnar til hlítar, án þess að til nokkurs ágreinings kæmi milli seljenda og neytenda, ef framkvæmdanefndin hefði haft hag framleiðenda fyrir augum fyrst og fremst, eins og löggjöfin ætlast til.

Ég skal ekki að þessu sinni fara langt út í að lýsa því, hvernig tekizt hefir með framkvæmd mjólkursölunnar hér í Reykjavík, en ég ætla, að það sé skemmst af þeim málum að segja, að svo er komið, að aldrei hafi áður dregið upp jafnískyggilega bliku og nú í því máli gegn hagsmunum bænda. Það er því ekki ófyrirsynju, að bændur hafa nú gert sér grein fyrir því, hvílík vá er fyrir dyrum, og að þeim er það nú nokkurt áhyggjuefni, hvert stefnir í þessu máli. Bændur eiga svo hundruðum skiptir afkomu sína undir því, að vel notist mjólkurmarkaðurinn í Reykjavík og að hann frekar fari út kvíarnar en þrengist, því á því veltur um atvinnuframtíð bændanna, sem lagt hafa í ærinn kostnað við jarðrækt og annað til þess að auka sína framleiðslu.

Ég sagði áðan, að það hefði tvímælalaust verið hægt að draga úr kostnaði við dreifingu og sölu á mjólkinni án þess að árekstur yrði milli seljenda og neytenda hér í Reykjavík, ef hagsmunir bænda heft fyrst og fremst verið látnir sitja í fyrirrúmi. En það kom í ljós, og það jafnvel við fyrstu framkvæmd l., að þeir, sem að þeirri framkvæmd stóðu, misstu að nokkru leyti sjónar á höfuðtilgangi l., og ég held, að ástæðan hafi verið sú, að mjólkursölunefnd hafi haft önnur sjónarmið en þau, er samræmzt geta höfuðtilgangi l., því í staðinn fyrir að hafa höfuðtilgang laganna sem leiðarstein í málinu, þá hefir brytt á nokkuð sterkri tilhneigingu hjá mjólkursölunefnd til þess að nota þetta mál á óeðlilegan hátt til framdráttar fyrir sérstakan stjórnmálaflokk, eins og m.a. í því, hvernig ákvarðað var um brauðasölu í búðum mjólkursamsölunnar. En það var einmitt þetta, sem fyrst og fremst leiddi málið út á óheillabrautina.

Þá er það annað, sem valdið hefir mikilli sundurþykkju milli n. og neytenda, og það var það, að neytendur hafa ekki getað fengið keypta ógerilsneydda mjólk eða óstassaniseraða, sem máske er réttara að nefna það, en í þessu efni var sjálfsagt að láta undan kröfum kaupenda, og var slík eftirlátssemi tvímælalaust til hagsmuna fyrir framleiðendur, því að hún skapaði samsölunni vinsældir og gerði viðskiptin friðsamlegri en raun ber vitni um. Nú horfir það þannig við með þau viðskipti, að breyta verður til í þessu efni, ef koma á málinu út úr þeirri ófæru, sem það er komið í, og eina leiðin til þess virðist sú, að Alþingi taki í taumana með því að breyta lögunum. Þess vegna er það frv. fram komið, sem hér er til umr. Það er komið fram eftir ósk yfirgnæfandi meiri hluta þeirra bænda, sem hér eiga hagsmuna að gæta. Og það er þeirra ósk, að yfirráð mjólkursölunnar verði gefin þeim í hendur og að þeir hafi alla ábyrgð á framkvæmdinni. Við þetta er 1. gr. frv. miðuð, þar sem svo er mælt fyrir, að stjórn samsölunnar falli þegar í hendur bændum, og kveður þar á um þau hlutföll, sem eiga að vera á milli framleiðendafélaganna í stjórninni, og er það sá háttur, sem þeir sjálfir hafa komið sér saman um. Þessi breyt. er líka í samræmi við upphaflegan tilgang l., sem var sá, að bændur önnuðust sjálfir um sölu mjólkurinnar, og vitanlega bæru þá einnig ábyrgð á henni. Væri þá ekki öðrum um að kenna, ef miður færi.

Önnur breytingin, sem frv. felur í sér, er rýmkun á sölu ógerilsneyddrar mjólkur. Það er nú svo, að öll mjólk samsölunnar, að heita má, er gerilsneydd á mjólkurhreinsunarstöð Mjólkurfélags Reykjavíkur, sem samsalan hefir tekið á leigu, og er það þá vitanlega svo, að þar gæti einnig farið fram hreinsun á ógerilsneyddri mjólk. Það hagar svo til á þessari stöð, að þetta ætti ekkert að íþyngja samsölunni með sérstökum kostnaði, þar sem hreinsunin á að fara fram á sömu stöð með sama vinnukrafti, sem notaður er við gerilsneyðinguna.

3. gr. felur í sér breyt. á l., sem leiðir af 1. gr., sem sé að e-liður 9. gr. falli niður, þar sem mjólkursölunefnd eru falin yfirráð samsölunnar, og loks er 4. gr. um að fella niður bráðabirgðaákvæðin í löggunum.

Um fyrstu brtt. frv. við l. voru þeir fulltrúar bandanna, sem fengu okkur til að flytja þetta frv., alveg sammála, sem sé að þeim sjálfum verði fengin framkvæmdin í hendur, og það er eina úrlausnin, sem til er í málinu. Þeir telja, að í því efni hafi verið stórt óheillaspor stigið, jafnvel þó það fyrirkomulag, sem er, ætti ekki að vera nema til bráðabirgða. Ennfremur eru bændurnir sannfærðir um það, að ef þeir fái stjórnina í hendur, takist þeim að ná þeim tilgangi, sem löggjöfin ætlast til með því að draga úr kostnaði við dreifingu og sölu á nýmjólkinni, jafnframt því sem sættir geti komizt á og friðsamlegt samstarf við neytendurna. Þeir álíta þetta hvorttveggja samrýmanlegt og að hér hafi orðið árekstur, sem stafi af slysum, enda er það svo, að löggjöfin átti að verða bændum til hagsbóta, og má því í framkvæmdinni engan veginn snúast gegn þeirra hagsmunum.

Ég get í þessu sambandi bent á það, að á fulltrúafundi Mjólkurbandalags Suðurlands og Mjólkurfél. hér var það einróma álit allra fulltrúanna, að yfirráðin ættu að komast í hendur bændum sjálfum. Og ennfremur skal ég geta þess, að í aðalfundum þessara félaga var till.

í þessa átt samþ. í einu hljóði, að undanteknum aðalfundi eins félagsins. Loks skal ég geta þess, að fyrir rúmri viku var haldinn fundur með fulltrúum af félagssvæði Mjólkurfél. Rvíkur, þar sem mættir voru tveir menn úr hverjum hreppi, og var þar samþ. einum rómi, að einum fulltrúa undanskildum, að bændur ættu að taka að sér framkvæmd mjólkursölunnar. Og sú samþykkt var gerð með það fyrir augum, að málið yrði tekið fyrir nú á þessu þingi og sú breyt. gerð á l., sem til þyrfti. Sá eini fulltrúi, sem greiddi atkv. gegn þessari ályktun, var sammála um það, að bændur ættu að hafa framkvæmdina, en gat sætt sig við, að á því yrði nokkur dráttur, að þeir fengju hana í hendur.

Mér þykir ekki ástæða til að fara um þetta miklu fleiri orðum að þessu sinni. Ég vænti þess, að allir velunnarar bænda og landbúnaðar og yfirleitt allir, sem vilja, að gott samkomulag fáist í þessu máli, geti orðið sammála um að kippa því í þann farveg, sem löggjöfin upphaflega ætlaðist til, að það felli l.

Ég vil að lokum leggja til, að frv. þessu verði vísað til hv. landbn. þessarar d. og jafnframt leggja mjög ríka áherzlu á það við þá hv. n., og þá fyrst og fremst við form. hennar, hv. þm. Mýr., sem ég sé þarna inni í ráðherraherberginu, að frv. fái mjög fljóta afgreiðslu í n. Því þessu þingi má engan veginn ljúka svo, að það geri enga tilraun til lagfæringar á því óstandi, sem ríkir í þessu efni. Vænti ég, að hv. landbn. verði við þessari ósk okkar flm. Veit ég það af samtali mínu við hv. form. n., þm. Mýr., að hann er okkur sammála um það, að fljótra og skjótra aðgerða sé þörf til þess að leiða málið til góðra úrslita á þessu þingi.