21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

1. mál, fjárlög 1936

Sigurður Kristjánsson:

Ég get orðið við beiðni hæstv. forseta, og mun ég ekki lengja umr. mikið. Ég hefi á þskj. 890 flutt fáeinar brtt., sem ekki eru neitt stórvægilegar, og fara ekki fram á mikla hækkun á útgjaldalið fjárl.

Svo stendur á, að ég á að heita að vera í svokölluðu ráði, sem á að athuga um rekstur vissra ríkisstofnana, svo sem póst og síma, skipaútgerð ríkisins o. fl. við, sem erum í þessu ráði, höfum gert nokkurn samanburð á launum manna við þessar stofnanir. Pósturinn er elzta stofnunin en þar eru lélegust launakjör, þó bætt hafi verið úr að sumu leyti.

Ég vil leyfa mér að skýra hér frá því, að þar eru 4 menn í skrifstofunni auk póstmálastjóra. Voru þeir í fyrra gerðir að fulltrúum, til þess að koma þeim í hærri launastiga. Sömuleiðis hafa bréfberarnir fengið nokkrar bætur á sínum kjörum. En ennþá sitja sumir á lágum launum, sem hafa meira starf.

Magnús Jochumsson hefir setið í skrifstofunni í 16 ár, og hefir hann haft þá sérstöðu, að hann hefir ekki getað sinnt neinum aukastörfum, og eftirvinna hans hefir ekki verið reiknuð með eftirvinnutíma, þó hann hafi unnið ótakmarkaðan tíma. Hann hefir þurft að sjá um prentun ýmsa utan vinnutíma, eftir því sem ég hefi verið upplýstur um í Gutenberg. En hann kemst ekki yfir 4 þús. kr. laun, eða að viðbættri dýrtíðaruppbót 4600 kr., eftir 16 ára þjónustu, og er ómögulegt að telja það nokkur laun eftir að hafa orðið að stunda nám í 10 —20 ár, því þetta starf útheimtir málakunnáttu.

Fyrir skipaútgerðina hefir ráðizt duglegur maður, þetta er ný stofnun, en hann er kominn upp í 9 þús., og aukastörf að auki. Þegar þetta er borið saman, finnst manni ekki sanngjarnt, að sá fyrrnefndi skuli ekki geta hækkað í launum, enda getur farið svo, að menn þreytist með þessi lágu laun og hætti við starfið.

Þá er annar maður við þessa sömu stofnun, sem ég hefi farið fram á, að fengi lítilsháttar launabætur. Það er Guðmundur Bergsson, sem nú er búinn að starfa þarna í 40 ár og er rétt kominn að því að láta af starfi. Hann hefir afarvandasamt verk, þar sem hann er aðalgjaldkeri, og hefir á bendi daglega afgreiðslu, sem er afarþreytandi og heldur taugunum spenntum, þar sem þarf að vera glöggur og vakandi allan vinnutímann. Sýnist það dálítið lagt á mann á hans aldri, og er verðugt að sýna þessum manni, sem hefir starfað þarna á 5. tug ára, á einhvern hátt, að starf hans er virt, þar sem aldrei hafa orðið misfellur á, heldur rækt með stakri kostgæfni alla tíð.

Ég hefi lagt til, að þessum manni yrði veittar 1000 kr. í persónulegar launabætur, og til vara, ef mönnum skyldi finnast það of stórbrotið, þá 600 kr., og vænti ég, að menn geti a. m. k. samþ. þá till.

Þá á ég brtt. við 11. gr. um að hækka skrifstofufé bæjarfógeta. Það er að verða launastigun, þannig að laun þeirra ganga til skrifstofuhalds. Þessi niðurskurður er til sparnaðar, en vitað er, að til þessa gengur miklu meira fé. Veiting þessi er fyrirfram ákveðin, og er sjálfsagt, að ríkið hafi eftirlit með, hvernig skrifstofuhaldið er, og gangi eftir því, að höfð sé góð regla, en það nær engri átt, að bæjarfógetar séu látnir greiða það sjálfir.

Ég hefi talað við 3 bæjarfógeta, bæði á Akureyri, Ísafirði og Vestmannaeyjum, og hefi því aflað mér upplýsinga um þetta atriði; þess vegna geri ég þá till., að fjárveitingin sé hækkuð úr 112 í 130 þús. kr., en vitanlega verður aldrei borgað meira en eyðist til þessa, enda fylgir sú aths., að skrifstofukostnaður verði greiddur eftir reikningi, sem fjmrh. samþykkir. ég vil, úr því ríkið sjálft rekur þessar skrifstofur í raun og veru, að þær séu teknar upp og greiðslur til þeirra eins og annara embætta eða stofnana. Heldur þessi hv. samkoma, að hún geti verið þekkt fyrir að skapa þessum embættismönnum þá aðstöðu, að þeir eigi ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort draga og trassa sín störf eða stela af ríkisfé.

Ég veit ekki, hvort ríkisvaldinu þykir fært að ganga lengra í því að gera menn að óbótamönnum. Það er vitað, að með því að ganga inn á þessa braut er verið að eyðileggja og hefir verið eyðilagður fjárhagur og mannorð ágætismanna. Er sannarlega athugunarvert fyrir ríkisvaldið að stuðla að því, að þetta ástand haldist. Ég vona því og þykist mega treysta svo þroska hv. þm., að þeir samþ. þessa till., og mér er kunnugt um, að hætsv. ríkisstj. lítur svo á, að þetta geti verið nauðsynlegt.

Þá á ég eina brtt. við 13. gr., á þskj, 929.

Eimskipafélagi Íslands var í fjárl. 1934 veittur 230 þús. kr. styrkur, en í fyrra — eða fyrir árið 1935 — 200 þús. kr. Nú leggur hv. fjvn. til, að styrkur þessi verði lækkaður í 150 þús. kr. Ég hafði ekki athugað það, að í stjfrv. var lagt til, að styrkurinn yrði 200 þús. kr., og kom því með brtt. með þeirri upphæð, en þar sem ekki má koma með brtt. aftur shlj. þeirri, sem felld hefir verið, þá hefi ég farið meðalveginn og legg til að fjárveitingin verði 190 þús. kr. Ég heyrði, að frsm. minni hl. fjvn., hv. 1. þm. Skagf., sagði, að fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. aðhylltust till. hæstv. atvmrh. um 180 þús. kr. Þessi till. hefir alls ekki komið fram, og mér þykir einkennilegt, að þeir geta ekki fylgt sinni till. Ég skal taka það fram, að ég mun gjarnan fylgja till. ráðh., ef mín kemst ekki í gegn. it af þessu get ég ekki látið hjá líða að benda á, að gerð hefir verið rannsókn af ríkisstj. hvað E. Í. legði fram í strandferðir umfram það, sem þær gefa af sér. Liggur fyrir skýrsla frá nefnd þeirri, sem að þessu vann, en í henni voru þeir Jörundur Brynjólfsson, Bernharð Stefánsson og Vigfús Einarsson. Þeir segja í skýrslu þessari, að árið 1929 hafi tap félagsins á strandferðunum numið 518 þús. kr. umfram þann styrk, sem ríkissjóður borgaði. 1930 var tap félagsins, þegar búið er að draga frá styrkinn, 718 þús. kr. Ég held þess vegna, að það sé ekki hægt að neita því, að E. Í. leggur mikið í sölurnar til þess að hægt sé að halda uppi strandferðum, og á þess vegna skilið fulla samúð Alþingis. Ég vil geta þess, að eftir skýrslu þeirri, sem ég hefi í höndum um siglingar félagsins, hafa skip E. I. siglt hér við land 1934 61670 sjómílur, og viðkomustaðir innanlands hafa verið 905. Það er aðgæzluvert í þessu sambandi, að þetta eru stór skip og dýr í siglingum, því að félagið hefir ekkert séstakt skip til innanlandsferða. Hefir það lagt mikið kapp á að koma sem fullkomnustum ferðum á milli landa og fengið til þess stór og góð skip, enda hafa millilandasiglingar þess aukizt stórkostlega. Jafnframt hefir félagið talið sér skylt að halda uppi siglingum innanlands, og sýnir þar aðeins óeigingirni sína að leggja í slíkar ferðir.

Ég á örlitla till. við 16. gr. Ég hefi lagt þar til, að veittar yrðu 400 kr. manni vestur við Ísafjarðardjúp, sem stundar þar dýralækningar, og er þessi till. flutt eftir beiðni frá ýmsum sveitarstjórnum. Eins og menn vita, eru dýralæknar aðeins hér í Rvík, í Stj. og á Akureyri, en að öðru leyti er landið dýralæknislaust. Sjúkdómar í húsdýrum fara mjög í vöxt, og baka bæði einstökum mönnum og landsbúum öllum tilfinnanlegt tjón. Einstaka menn hafa því lagt dýralækningar fyrir sig og gerzt einskonar hómopatar í þessari grein. Þó þeir hafi ekki gert það af bókfræðilegri þekkingu, hafa þeir stuðzt við eigin athuganir og reynslu, og hefir þeim oft heppnazt furðuvel.

Þessi maður hefir verið mikið sóttur, og þykir undraverður læknir, en nú segja héraðsbúar, að þeir geti ekki sótt hann vegna þess, að hann vill ekki taka neitt fyrir þessi verk sín. Þessi maður á heima í Æðey, og það hefir kunnugur og skilgóður maður sagt mér, að hann spari héraðsbúum mörg þús. krónur með lækningum sínum. Ég flyt þessa till. hér eingöngu vegna þess, að mönnum vex þá e. t. v. einurð til að sækja hann, ef honum yrði veitt þessi litla þóknun, sem vitanlega er engin borgun, því oft fer hann 1 —2 dagleiðir í þessum erindum.

Ég vil ekki lengja mál mitt, en get getið þess, að skepnuhöld í Æðey hafa verið með afbrigðum góð, og hygg ég, að hann hafi sett met. T. d. fyrir 2 árum fórst þar engin skepna fullorðin. voru þá 150 ær á fóðrum og af þeim 96 tvílemdar og 3 þrílemdar, en aðeins dóu 2 lömb yfir árið.

Þegar ég kom þar síðast ásamt landlækni, hafði gengið þar garnapest í sauðfénaði og höfðu veikzt 40 —50 fjár, en það var alveg einstakt, að engin skepna dó; svo vel var þeim hjúkrað. Var undravert, hve þessi maður var slyngur, af ekki lærðari manni, sem í rauninni aðeins hefir greind sína eða hyggjuvit og svo reynslu. vænti ég, að till. þess nái afgreiðslu ágreiningslaust.

Það er þá ekki fleira, sem ég hefi, en vildi aðeins aftur víkja að till. um styrk til E. Í. Ég sé, að hv. þm. N.-Þ. vill binda styrkinn því skilyrði, að samræmd verði launakjör E. Í. og skipaútgerðar ríkisins. Ég veit ekki, hvernig ætti að fá slíkan samanburð. Ætti það að vera miðað við ársveltu, sjómílufjölda eða hvað? Rekstur þessara fyrirtækja er að öllu leyti svo afarólíkur, að ég held, að enginn geti leyst þann vanda að samræma launakjör þeirra. Ef ætti að miða við rekstrarveltu E. Í., sem er um 5 millj. kr., þá held ég, að yrðu lítil launin hjá Ríkisskip. E. Í. hefir millilandasiglingar og geysilegar fjárreiður, auk innanlandssiglinganna. En skipaútgerðin hefir aðeins 2 smáskip í förum innanlands.

Ég vonast því til, að þessi till. falli, þegar hv. þm. hafa litið á þetta sjónarmið. Hygg ég, að hv. flm. hafi ekki áttað sig á því, að till. er alveg óframkvæmanleg og óréttmæt og á engu viti byggð.