26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (3539)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Emil Jónsson:

Eins og tekið hefir verið fram og greinir í nál., er ég frv. þessu ósamþykkur, og vil ég gera grein fyrir minni afstöðu sérstaklega.

þetta frv. fer fram á tvær aðalbreyt. á núgildandi l. um sölu mjólkur. Í fyrsta lagi, að stj. samsölunnar verði breytt frá því, sem nú er, og þegar í stað gefin framleiðendum einum í hendur. Í öðru lagi að rýmka sölu á vélhreinsaðri mjólk samhliða gerilsneyddri.

Það er nú svo, að í l., sem nú gilda, er gert ráð fyrir, að núv. ástand þessa máls sé bráðabirgðaástand eingöngu, sem gildi til 1. maí næstk. En þá eiga mjólkurframleiðendur sjálfir eftir l. að taka málið í sínar hendur. Svo að það mætti ætla, að það þyrfti ekki um þetta sérstaka lagasetningu nú.

Ég er ósammála hv. þm. Mýr. og meiri hl. n. um það, að það eigi algerlega að útiloka neytendurna frá því að hafa ítök um sölufyrirkomulagið. Hv. þm. tók til dæmis, til þess að sanna mál sitt, að fiskframleiðendur og síldarframleiðendur réðu einir um söluskipulag sinna vara. En það er nokkuð annað, því að síld og þorskur er hvorttveggja að mestu leyti selt út, þannig að sölumarkaður fyrir þær afurðir liggur svo langt frá okkur, að við getum ekki haft bein sambönd við neytendur um sölufyrirkomulag þessara vara, eins og hægt er um mjólkina. Og ég hygg líka, að Spánverjar og Þjóðverjar myndu þakka fyrir, ef íslenzkir framleiðendur færu að leggja þeim lífsreglur um sölu fisks og síldar. Það eru neytendur í þessum löndum, sem hafa hér hönd í bagga, eða fulltrúar þeirra, en það er kaupmannastéttin.

Af þessari ástæðu er það, að mér finnst þetta frv. ekki breyta neinu til batnaðar, þannig, að horfi til betri samvinnu neytenda og framleiðenda, sem ég álít nauðsynlegan grundvöll undir samkomulagi og kyrrt í þessu máli. Þar að auki búum við nú - eins og ég tók fram áðan - við bráðabirgðaástand, en eftir 1. maí er ætlazt til, að breyt. megi gera. Þess vegna er í raun og veru ekki hægt að segja um það, hvernig lögin muni endanlega reynast í framkvæmd fyrr en þau ákvæði eru komin til framkvæmda. Og þess tíma er ekki langt að bíða.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að þessi l. verði tekin til allsherjar endurskoðunar eigi síðar en á reglulegu Alþingi 1936 - eða innan eins árs. Þess vegna finnst mér ekki úr vegi að sjá, hverju sú breyt. fær áorkað, sem gert er ráð fyrir eftir 1. maí, en káka ekki við breyt. nú, láta endanlega endurskoðun þeirra bíða næsta hausts eða reglulegs þings 1936, sem er sá síðasti tími, sem taka má þau til endurskoðunar.

Um vélhreinsaða mjólk er það að segja, að ég er út af fyrir sig samþykkur því, að leyft verði að selja hana jafnhliða hinni gerilsneyddu, ef það sýnir sig og sannast, að ekki er heilbrigði manna nein hætta búin af henni, eða ekki meiri hætta en af hinni stassaniseruðu mjólk. En ég hefi fyrir satt, að það sé hægt að fá þetta gert án nýrrar lagasetningar, - að það sé, eins og fleira í sambandi við þessi l., framkvæmdatriði. Mætti þá athuga það á þann hátt, sem óskað er eftir, bæði í Reykjavík og annarsstaðar. Ég hefi minnzt á þetta við hæstv. landbúnaðarráðh., og hefir hann tekið því vel að breyta til um þetta í samráði við heilbrigðisstjórnina.

Í sambandi við þá deilu, sem hefir staðið um þetta mál allt hér í Reykjavík, vil ég taka það fram, að Reykjavík og Hafnarfjörður eru á sama verðjöfnunarsvæði og eru þeir einu bæir, þar sem þessi mjólkurl. hafa komið til framkvæmda. En ég hefi ekki heyrt - það er kannske of mikið að segja ekki eina einustu óánægjurödd úr Hafnarfirði - en það hefir ekki verið nein óánægja að ráði þar. Allt fór fram með prýði og spekt um framkvæmd laganna, að undanteknu því, að þegar menn fengu ekki góða mjólk einstöku sinnum úr stassaniseringarstöðinni, urðu þeir óánægðir, eins og gerist, þegar menn fá skemmda vöru fyrir góða. En þeir hafa fengið í því bætur. Annars hefir verið samkomulag fullt samkomulag - ég vil undirstrika það, með stjórn þessara mála og neytenda í Hafnarfirði. Þetta hefir orðið til þess að leiða mig að þeirri niðurstöðu, að þetta, sem ber í milli, sé í flestum atriðum samkomulagsatriði. Úr því að hægt er að ná samkomulagi í þessu máli í Hafnarfirði, þá efast ég ekki um, að það sé eins hægt í Reykjavík, ef góður vilji er með frá beggja hálfu. En ef ekki er góður vilji frá báðum hliðum, þá þýðir ekki nein ný lagasetning. Því að það má eins fara í kringum hana, þótt sett sé ný gr. inn í frv.

Ég skal ekki segja, hverjum er um að kenna, eða hvort það er einn eða fleiri. En ég undirstrika það, að í öðrum bænum, sem l. ná til, er svo að segja fullt samkomulag, en í hinum bænum mikið stríð um málið. Og þess vegna hefi ég ekki getað skilið annað en að með gaum vilja mætti laga ójöfnurnar án nokkurrar nýrrar lagasetningar. En ég sé ekki, að sú breyt., sem frv. felur í sér, bæti úr neinu, og þess vegna hefi ég lagzt á móti því.