26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (3541)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Ólafur Thors:

Ég tel brtt. þær, sem fram hafa komið frá meiri hl. landbn., yfirleitt til umbóta á l., og nái þær því samþykki, má gera sér von um, að það gagn geti orðið að l., sem frá öndverðu var til ætlazt. Þrátt fyrir það, þó að ég telji brtt. þessar til nokkurra bóta frá því, sem nú er, þá er ég samt þeirrar skoðunar, að æskilegt hefði verið að hafa breytingarnar meiri og víðtækari, en þar sem svo er orðið áliðið þings sem nú, þá sé ég ekki tiltækilegt að bera slíkar breyt. fram, því að þá gæti svo farið, að frv. næði ekki fram að ganga áður en þingi verður frestað. Ég mun því ekki gera að umræðuefni neitt það, sem ég myndi óska eftir til viðbótar því, sem liggur fyrir í frv. og brtt. hv. meiri hl. landbn. Það má líka vel vera, að ekki sé rétt að fara mörgum orðum um þau mistök, sem orðið hafa á framkvæmd mjólkurlaganna, sem valda því, að nú eru bornar fram þær brtt., sem hér liggja fyrir. Væri farið að ræða slíkt hér, myndi það vekja deilur, sem ekki eru æskilegar, því að það geta allir án efa verið sammála um, að það væri bezt fyrir bændur og alla þá, sem mjólk framleiða, að sem mestur friður mætti ríkja um þetta mál, - þó hinsvegar allir hljóti líka að geta verið sammála um það, að sá nauðsynlegi friður hafi ekki ríkt um málið. Út í það, hverjir valdið hafa þeim ófriði, sem um málið hefir staðið, skal ég heldur ekkert fara nú.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að það gegndi nokkuð öðru máli með sölu á fiski og síld út úr landinu en um sölu á mjólk í landinu sjálfu. Þetta er rétt, en það raskar ekkert þeim skoðunum mínum, að bændur eigi sjálfir að ráða öllu sölufyrirkomulagi mjólkurinnar. Þar eiga þeir mest í húfi sjálfir, og má því ætla, að þeir leggi sig alla fram um að fá mjólkursöluna í sem bezt horf.

Reynslan hefir nú sýnt það, að þeir, sem með mál þessi hafa farið, hafa ekki borið gæfu til þess að halda um þau þeim friði, sem nauðsynlegur var til þess að vel gæti farið. Í sambandi við þetta vil ég benda hv. þm. Hafnf. á, að það stendur eins á um vinnuna hér á landi og mjólkina, að hvorttveggja er selt á innlendum markaði. Verð vinnunnar ákveða þeir sjálfir, sem vinnuna selja, og taka því um leið á sig ábyrgðina og afleiðingarnar af því, hvort kaupið er sett svo hátt, að það dragi úr kaupum á vinnunni.

Þá skopaðist þessi hv. þm. að kröfum manna um ógerilsneydda mjólk. Ég best nú við, að allir, sem vörur selja, geti verið á einu máli um það, að vörurnar eigi að vera í sem mestu samræmi við vilja og kröfur þeirra, sem vörurnar kaupa. Um það er óneitanlega kapphlaupið. Hún hljómar því óneitanlega nokkuð undarlega rödd þessa hv. þm. og samherja hans, sem halda því fram, að kröfur kaupendanna skuli hafa að engu.

Ég hefi heyrt menn úr mjólkursölunefnd halda því fram, að sala á ógerilsneyddri mjólk væri óheimil samkv. lögunum, nema til sjúkra manna, og ég fyrir mitt leyti aðhyllist þessa skoðun. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hann líti svo á, eins og hv. þm. Hafnf, að framkvæma megi lögin á annan veg. Sé það ekki leyfilegt, eins og ég fyrir mitt leyti hallast helzt að, þá er nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði l., því að kröfur neytendanna eru orðnar svo háværar, að það er með öllu óhugsandi annað en að taka verði tillit til þeirra. Að því er snertir velhreinsaða og stassaniseraða mjólk, þá er ég þeirrar skoðunar, að vélhreinsaða mjólkin sé betri, ef hinum ströngustu hreinlætiskröfum er fylgt. Hitt er rétt, að hún er ekki eins örugg fyrir gerlum og sóttkveikjum og sú, sem er gerilsneydd. Mér virðist því, að menn verði alveg að fá að gera það upp við sjálfa sig, hvort þeir kjósa frekar.

Eins og ég hefi tekið fram, eru kröfurnar um ógerilsneydda mjólk alltaf að verða háværari og háværari erlendis, eins og hér virðist stefna að líka. Þegar nú þetta fer saman, kröfur neytenda og óskir framleiðenda, þá virðist óþarfi fyrir þriðja aðilann að grípa fram í.

Það hefir heyrzt, að einn einstakur bóndi, bóndinn á Korpúlfsstöðum, hefði einhverja sérstaka hagsmuni af sölu á vélhreinsaðri mjólk. En þetta er ekki rétt. Hann eins og aðrir bændur fá greitt eftir þeirri heildarútkomu, sem verður á sölu mjólkurinnar, alveg án hliðsjónar af því, hvort hans mjólk selst sérstaklega eða ekki. Það veltur að sjálfsögðu á töluverðu fyrir hann eins og aðra bændur, að sem mest seljist af mjólkinni, svo að sem allra minnst af henni þurfi að nota til vinnslu. Umfram þetta getur þessi bóndi ekki haft hagsmuna að gæta hvað þetta snertir, eða m. ö. o., hann hefir alveg nákvæmlega sömu hagsmuni í þessu máli sem aðrir bændur í verðlagssvæðinu. Ég vona, að hv. dm. geti undantekningarlaust viðurkennt þetta tvennt, að bændur eigi þar allt undir, að niður falli öll óánægja, sem ríkt hefir í þessu máli á milli neytenda og framleiðenda, og annað hitt, að nú ríki óánægja á milli þessara aðilja, og því beri að breyta til frá því, sem nú er. Það er aldrei nema virðingarvert að halda fast við sína skoðun, en hitt er engu síður virðingarvert, að viðurkenna, þegar maður sér, að maður hefir haft rangt fyrir sér. Þetta bið ég þá góðu menn að athuga, sem fastast standa á móti breyt. í mjólkursölulögunum nú. Þeir hljóta að sjá, að lögin geta ekki náð tilgangi sínum eins og þau eru nú.

Þá vil ég og sérstaklega leiða athygli að því, að ef núv. mjólkursölunefnd hefir völdin áfram, og mjólkurverkfallið lognast út af, þá verður það til langvarandi bölvunar fyrir bændur, samanborið við það, ef málið yrði leyst á friðsamlegan hátt. Að ekki hefir dregið meira úr mjólkursölunni við mjólkurverkfallið en skýrslur sýna, stafar af því, að margir hafa aukið mjólkurkaup sín fram yfir það, sem áður var. Verði það því úr, að mjólkurverkfallið lognist út af án þess að samkomulag náist, þá verður sá endirinn á, að þeir, sem hafa aukið mjólkurkaup sín, minnka þau smátt og smátt aftur, þar til þeir eru komnir ofan í það, sem þeir keyptu áður. Hinir aftur, sem ekki keyptu nema lítið, auka aldrei við sig, svo þeir kaupi eins mikið og þeir keyptu iðnr. Þeir hafa komizt upp á lag með að nota minni mjólk en þeir gerðu. Hlýtur mjólkurneyzlan því óhjákvæmilega að minnka að nokkrum mun. Takist aftur fullar sættir, þá mun mjólkurneyzlan aukast á ný, svo hún verði svipuð því, sem hún var áður. Þetta er alvarlegasta hliðin á þessu máli, sem ég tel öllum skylt að athuga, sem telja sig bera hag bændanna fyrir brjósti.

Skal ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni. Ég tel breytt til hins betra frá því ástandi, sem nú er, ef frv. nær fram að ganga með brtt. hv. meiri hl. landbn.