27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (3551)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það hafa komið fram nokkur atriði í umr. um þetta mál, sem mér þykir ástæta til að minnast á nokkrum orðum. það, sem kom mér sérstaklega til þess að standa upp, voru ummæli hv. 5. þm. Reykv. um mjólkurmálið almennt í svari hans til hv. þm. Hafnf.

Ummæli hv. 5. þm. Reykv. voru þau, að mjólkurlögin hefðu verið sett eingöngu - eins og þessi hv. þm. undirstrikaði - til hagsmuna fyrir mjólkurframleiðendur. Þessi skýring hv. þm. er ekki rétt. Í málefnasamningi þeim, sem á sínum tíma var gerður milli stjórnarflokkanna, var það tekið fram, að skipulögð skyldi sala innlendra afurða, m. a. sala mjólkur, með það fyrir augum, að efldir skyldu hagsmunir bæði framleiðenda og neytenda. Þetta getur vel farið saman og á að gera það, ef vel á að fara. Þess vegna var þessi löggjöf um mjólkursöluna ekki einungis sett með það fyrir augum að gæta hagsmuna framleiðendanna, heldur einnig neytendanna. Það er flestum vitanlegt, að neytendur mjólkur hafa mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við sölu, skipulagningu og dreifingu mjólkurinnar meðal neytenda, þar sem bæjarbúar eiga mikið undir því, að verði þessarar vöru sé stillt svo í hóf, að fátæk heimili geti keypt hana. Neytendur hafa einnig þeirra hagsmuna að gæta, að mjólkin, sem þeir kaupa, sé góð og heilnæm vara og að ekki stafi hætta af því, að með mjólkinni berist sýklar, sem óhollusta getur stafað af fyrir neytendur. Verð og vörugæti eru þau tvö atriði, sem neytendur sérstaklega hljóta að hugsa um í sambandi við þá hagsmuni, sem þeir hafa að gæta, þegar rætt er um mjólkursölu og mjólkurafurðir. Þess vegna er ekki rétt að hugsa einungis um einhliða hagsmuni þeirra manna, sem atvinnu hafa af mjólkurframleiðslu, heldur hér einnig að hugsa um hagsmuni þeirra, sem þurfa og vilja kaupa mjólk. Þess vegna var það næsta eðlilegt, a. m. k. frá sjónarmiði Alþfl., sem hefir innan sinna vébanda fjölda af neytendum íslenzkra afurða, að það yrti líka lítið á hagsmuni neytenda, þegar sett yrði löggjöf um þetta efni. Það er að vísu svo, að Alþfl. viðurkennir vitanlega, að það er fullkomin þörf á því, að bændur landsins séu studdir í þeirri þungu baráttu, sem þeir eiga nú við að stríða, vegna óárunar. M. a. þess vegna gekk Alþfl. að stjórnarmyndun með það fyrir augum, að bezt væri að efla hag bæði bændanna úti um byggðir landsins og einnig alþýðunnar við sjávarsíðuna, því að Alþfl. er þess fullviss, að hagsmunir alþýðunnar til sjávar og sveita fari saman í flestum megin-landsmálum. það er því engin furða, þótt Alþfl. líti með tortryggnisaugum á þau vígorð sjálfstæðismanna um það, að það beri að fá framleiðendum eingöngu í hendur yfirráðin yfir mjólkursamsölunni.

Við Alþfl.menn lítum svo á, að neytendur eigi einnig heimtingu á því að koma nálægt þessu máli, og við teljum, að fulltrúi neytenda hafi vissulega ekki haft ill áhrif á sölu mjólkurinnar í Reykjavík og Hafnarfirði. Ég held, að þetta vígort um það, að mjólkursamsalan eigi að vera undir stjórn framleiðenda, sé ekki annað en fölsk upphrópun, fyrir þá sök, að aðalgagnrýni Sjálfstfl. og þeirra manna annara, sem með honum standa í þessu svokallaða mjólkurstriti, beinist ekki fyrst og fremst að fulltrúum neytenda í stjórn samsölunnar, heldur að fulltrúum framleiðenda í stjórn samsölunnar. Það er þess vegna augljóst mál, að gagnrýni andstæðinga samsölunnar beinist ekki beinlínis að því, að það séu neytendur, sem hafa hönd í bagga með mjólkursölunni, heldur beinist gagnrýnin að vissum mönnum, alveg án tillits til þess, hvort þeir eru fulltrúar neytenda eða framleiðenda; m. ö. o. er þessi gagnrýni miðuð við það, hvernig þessum ákveðnu pólitísku flokkum líkar við þessa menn, og er þá dómurinn fyrst og fremst lagður á þá eftir pólitískum mælikvarta. Ég ætla, að hv. Sjálfstfl. í Reykjavík telji það t. d. engan höfuðgalla á samsölunni, að hv. 3. þm. Reykv. á sæti í stjórn hennar. Ég hygg, að meiri hl. bæjarstj. Rvíkur hefði getað valið einhvern mjólkurframleiðanda, annaðhvort í nágrenni Rvíkur eða einhversstaðar í meiri fjarlægð, til þess að fara með stjórn samsölunnar að sínu leyti, ef þeir hefðu raunverulega viljað halda fast við þá skoðun, að hjá þeim væri atalatriðið, að framleiðendur réðu mjólkurdreifingunni og mjólkursölunni yfirleitt hér í bænum. En það var valinn fulltrúi mjólkurneytenda hér í bæ, hv. 3. þm. Reykv., og til vara annar fulltrúi neytenda hér í bæ, ungfrú María Maack, sem er ein af þessum gunnreifu valkyrjum, sem nú eru komnar fram á sjónarsviðið í þessu mjólkurmáli til þess að bjarga hinum þjökuðu neytendum í Rvík, sem höfðu orðið fyrir „offorsi“ og „óforskömmugheitum“ fulltrúa neytenda í mjólkursamsölunni. En það eru fulltrúar eins og sr. Sveinbjörn Högnason og Egill Thorarensen, sem hafa kannske sett sinn svip á samsöluna ekki síður en aðrir. Undan oki þessara fulltrúa samsölunnar vilja þessar valkyrjur hér í Rvík frelsa neytendahópinn sem allra fyrst. Sumir þessara fulltrúa neytenda, þessir sjálfboðaliðar fyrir neytendur hér í bæ, og á ég þar líka við eina ágæta maddömu í Húsmæðrafélaginu, hafa viljað þvo af sér þá skoðun, að þær meintu nokkuð með baráttu sinni í mjólkurmálinu eða kröfum um lækkun mjólkur hér í bænum. Að vísu var það þannig, að meðan sambandið milli þessara valkyrja og kommúnistanna var sem innilegast, þá gættu þær sín ekki í gleði sinni yfir þessum nýju félögum og samherjum og réttu upp hendurnar með fulltrúum kommúnistanna, sem skilyrðislaust heimtuðu 35 aur. verð á mjólkinni þegar í stað. Síðan hafa þessar ágætu húsmæður séð sig um hönd og kappkosta nú að þvo af sér þann smánarblett, að þær hefðu viljað vera með í því að styðja að mjólkurlækkun í Rvík. Nú kunna menn kannske að segja, að þetta svokallaða, dálítið broslega, en í aðra röndina sorglega mjólkurstríð eigi rót sína að rekja til þess, að stjórn samsölunnar og fyrst og fremst fulltrúar framleiðenda í stjórn samsölunnar hafi ekki viljað taka til greina hinar „hóflegu“ kröfur hinna sjálfboðnu fulltrúa „réttlætisins“ í þessu máli Húsmæðrafélags Reykjavíkur.

Ég hefi dálítið minnzt á það í þessum umr., og vil undirstrika það betur, í hverju þessar kröfur húsmæðranna voru fólgnar, og er hv. þm. það þó mætavel kunnugt af því merkilega skjali, sem hv. Alþ. barst frá þessum félagsskap kvenna hér í bæ, þar sem settar eru fram kröfur þær, sem samþ. voru á fundi Húsmæðrafélagsins. Að vísu vantaði eina kröfuna, sem samþ. var þó á sínum tíma með shlj. atkv., þá kröfuna, sem ég minntist á áðan, að hefði verið látin falla fyrir ofurborð, þegar tímar liðu fram og eitthvað kann að hafa kólnað vináttan milli samherjanna, fulltrúa sjálfstæðiskvennanna og fulltrúa kommúnista. Það vantaði kröfuna um lækkun mjólkurinnar í þetta ágæta plagg. Hinsvegar vil ég fara fáeinum orðum um þessar 5-6 kröfur, sem þessar ágætu húsfrúr báru fram á sínum tíma og sendu stjórn samsölunnar, sem þær telja, að hafi gert það að verkum, að kröfunum var ekki fullnægt, svo að þær voru neyddar til þess að grípa til róttækra ráða, sem sé að reyna að fá kröfum sínum framgengt með því að stuðla að því, að húsmæður í Reykjavík takmörkuðu við sig mjólkurkaupin almennt. Fyrsta krafan var um það, að bökunarhús í bænum hefðu jafnan rétt til brauðasölu í mjólkurbúðum samsölunnar. Í sambandi við það má minna á það atriði, sem drepið hefir verið á í umr. um mjólkurmálið yfirleitt og einnig í blöðunum, að samsalan hafi beitt sérstöku gerræði, þegar hún ákvað, hverjir skyldu fá að selja brauð í mjólkurbúðum samsölunnar. Að vísu orðaði hv. 5. þm. Reykv. þetta svo hóglátlega, að Alþýðubrauðgerðin hefði fengið einkarétt til þess að selja brauð í öllum búðum samsölunnar, sem væru 38, þar sem mjólk er seld, en að vísu eru búðirnar, þar sem Alþýðubrauðgerðin selur brauð, aðeins 19, en ekki 38. En hitt ætla ég, að flestir hv. þdm. viti, að Alþýðubrauðgerðin, sem er eign alþýðusamtakanna í Reykjavík, hefir fjölmörg undanfarin ár haldið niðri brauðaverðinu í bænum og hefir lengstan tímann haft verð á almennri brauðavöru miklu lægri en aðrar brauðasölubúðir hér í bænum. Það kann að vera, að sumum mönnum þyki þetta atriði ekki skipta miklu máli, en frá sjónarmiði neytenda, hvort sem það eru mjólkur- eða brauðaneytendur, er það vissulega ekki lítils virði, að þeir geti keypt neyzluvörur sínar við vægu verði. Þegar þess er einnig gætt, að þessi brauðgerð bauð samsölunni þegar í upphafi sitt lága verð og þar næst mjög mikinn afslátt, áður en nokkurt fast tilboð kom frá öðrum brauðgerðarhúsum í bænum, þá verð ég að segja, að ég tel það enga höfuðsynd, þótt mjólkursamsalan vildi ekki láta þetta brauðgerðarhús, sem sýnt hefir mikla umhyggju fyrir neytendum, standa verr að vígi en önnur, sem hafa brauð á boðstólum í bænum. Ég álít því, að stjórn mjólkursamsölunnar hafi með ákvörðun sinni um það, að láta Alþýðubrauðgerðina annast sölu á brauðum í nokkrum hluta af búðum sínum, ekki gert neitt, sem hægt er að telja ámælisvert, heldur þvert á móti það, sem var rétt og eðlilegt eins og á stóð. Það hefir líka komið á daginn, að hagur mjólkursamsölunnar af brauðasölu í bænum er ekki minni en áætlað var, heldur þvert á móti meiri en stjórn samsölunnar hafði gert sér von um. Ég verð því að líta svo á, að reynslan hafi sýnt það og sannað, að brauðasalan í búðum samsölunnar hafi hvorki orðið til þess, að hagur neytenda í Reykjavík hafi versnað né heldur til þess að hafa fé af öðrum þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, sem sé framleiðendum mjólkur.

Í öðru lagi krefst Húsmæðrafélagið þess, að leyfð verði sala mjólkur í öllum brauðsölubúðum í bænum, enda uppfylli þær settar heilbrigðisreglur.

Eitt af því, sem gera þurfti til þess að dreifing mjólkurinnar yrði sem ódýrust, var að takmarka útsölustaðina, og að sjálfsögðu var það gert með því að fækka mjólkurbúðunum úr rúmlega 105 niður í 38. Þetta var einn nauðsynlegur þáttur í „rationaliseringunni“ - byggingu skipulagsins í þessum efnum, svo að ég noti þetta orð hv. 5. þm. Reykv., sem ekki gat á það minnzt án þess að láta í ljós vanþóknun sína yfir því, að þetta orð skyldi vera til í íslenzkri tungu. Það var því barnalegt að ímynda sér, að stjórn samsölunnar færi eftir þessum kröfum Húsmæðrafélagsins.

Í þriðja lagi var þess krafizt, að heimsend mjólk væri komin til neytenda eigi síður en kl. 8 að morgni. Í því hverfi, sem ég bý í, hefir heimsending mjólkurinnar ávallt verið í bezta lagi síðan samsalan tók til starfa, meira að segja betri en hún var áður en samsalan hóf starfsemi sína.

En sumum neytendum mjólkur þótti það nokkur galli, að mjólkin kom kl. 8 á morgnana. Það þótti ýmsum heimilum of snemmt. Ég held því, að þessi krafa Húsmæðrafélagsins sé ekki sérlega vel grundvölluð. Ef gengið væri um á heimilum hér í Reykjavík með þessa kröfu, myndu margir brosa að henni. (JakM: Í hvaða burgeisahverfum er það?). Það er mjög nálægt bústað hv. 3. þm. Reykv. að vísu er það ekki beinlínis burgeisahverfi, því að þar eru fremur ódýrar íbúðir.

Þá var talað um það að gefa skilvísum kaupendum kost á að fá greiðslufrest á mjólkinni. Ég skal játa, að slíkt gæti verið æskilegt, en mjólkursamsölunni var upphaflega ætlað að draga úr öllum aukakostnaði, og staðgreiðslan er einmitt eitt af róttækustu ráðunum til þess. Þetta getur að vísu hitt suma illa, en það hittir þá a. m. k. sízt þá, sem fátækastir eru, því að þeir fá yfirleitt hvergi greiðslufrest, hvorki á þessu né öðru. þeir geta hvort sem er ekki staðið í skilum. Greiðslufresturinn væri því ekki til hagsbóta fyrir þá, sem sárfátækastir eru, heldur þægindi fyrir hina.

Þó ætla ég, að mönnum finnist þessi greiðsluaðferð ekki óþægileg aðeins um stund. Í öllum stærri bæjum í nágrannalöndunum er ekki minnzt á annað en staðgreiðslu mjólkur, og kvartar þar enginn undan. Eftir lítinn tíma verður þetta atriði gleymt. En um það verður ekki deilt, að það verður til stórhagnaður samsölunni. Að öllu athuguðu er þetta því sjálfsagt fyrirkomulag, nema þá ef reka ætti samsöluna eftir þeirri reglu, að séð væri um, að allir fengju mjólk, hvort sem þeir gætu greitt hana eða ekki. En ég geri ekki ráð fyrir, að fulltrúar húsmæðranna hafi haft þetta í huga.

Um gerilsneyðingu og sölu í vélhreinsaðri eða kaldhreinsaðri mjólk er það að segja, að smekkur manna er hér misjafn. Sumir vilja heldur óhreinsaða mjólk, en sumir kjósa gerilsneydda mjólk. Sumir vilja helzt spenvolga mjólk, en aðrir geta ekki bragðað hana. En það er mikilvægt atriði í þessu sambandi, hvaða aðferð hafa verður um vöndun í mjólkurmeðferð, til þess að tryggja, að varan verði góð og heilnæm. Ég ætla, að menn muni vera sammála um það, að það eina, sem þekkt er í þessum efnum, sé gerilsneyðingin.

Það er áreiðanlega engin tilviljun, að í flestum stærri borgum erlendis er ekki hægt að fá dropa af ógerilsneyddri mjólk. En það er ekki einu sinni svo langt gengið í Reykjavík. Hér eiga menn kost í að fá ógerilsneydda mjólk frá mönnum innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Samsalan hefir gert ráðstafanir til þess, að sjúkir menn og börn gætu fengið ógerilsneydda mjólk. En þessu var tekið hér eins og kunnugt er, og var gefið í skyn, að af þessu gæti stafað smitun á hættulegum sjúkdómi, og varð það auðvitað ekki til að ýta undir menn um kaupi þessari mjólk.

Ég hefi þá lýst í fáum orðum afstöðu húsmæðranna, og þó að mjólkursölunefnd tæki þeim ekki eins og hún gerði ráð fyrir, að himinn og jörð myndu forganga, ef þær væru ekki uppfylltar, þá skal ég ekki lá mjólkursölunefnd það.

Hv. þm. G.-K. sagði, að það væri æskilegt fyrir bændur, að friður ríkti í mjólkursölumálinu. Ég er honum sammála um það, að til þess að góður árangur geti orðið af framkvæmd mjólkursölul., væri æskilegt, að friður gæti orðið um málið. En þetta hefir ekki getað orðið, og ég held, að það liggi í augum uppi, hverjir hafa byrjað í ófriðinum. Það voru blöð sjálfstæðismanna hér í bæ og einstakir menn, er þeim fylgdu, þó að ég sé viss um, að margir sjálfstæðismenn hér í bæ hafa ekki tekið þátt í þessum gauragangi og þeim ósanngjörnu og órökstuddu ádeilum, sem fram hafa komið í mjólkursölun. Þessir menn fengust ekki til að taka undir ádeilurnar, þó að aðalmálgagn sjálfstæðismanna hér í bæ og þessi alkunni félagsskapur „húsmæðra“ beitti sér fyrir þessum ófriði.

Ég held því ekki fram, að stj. samsölunnar hafi verið þannig, að ekki hafi verið þörf á að gagnrýna hana. Hefði enginn getað framkvæmt þetta verk svo, að ekki hefði verið hægt að gagnrýna. Mjólkursölun. hefir í nokkrum atriðum gert skyssur, og var það ekki nema eðlilegt, með an hún var að þreifa sig áfram, eins og ástandið var í þessum málum. En það dylst engum, sem til þekkir, að gagnrýni þessara sjálfstæðisblaða og sjálfstæðishúsfreyja var allt annað en vinsamleg. Þessir aðiljar töldu, að með málið færu menn, sem ekki væru sammála þeim í stjórnmálum, og sögðu, að verið væri að hleypa inn í það pólitík. En það segja sjálfstæðismenn um öll þau mál, sem andstæðingar þeirra fara með. Aftur segja þeir, að þau mál, sem þeir fara sjálfir með, séu rekin ópólitískt. Málin eru sem sé rekin ópólitískt, ef þeim er stjórnað eftir grundvallarreglum íhaldsins, en annars pólitískt. Það er viðtekið hjá þeim, að þau mál séu ópólitísk, sem stjórnað er eftir lífsskoðunum þeirra. (PHalld: Vill ekki hv. þm. sýna, hvernig hægt er að stjórna mjólkursölunni eftir lífsskoðunum?). Þannig t. d., að ákveðnir menn geti fengið krít, hvenær sem er. Það er lífsskoðun út af fyrir sig. Og að þeir geti fengið að verzla við sína pólitísku samherja, en ekki andstæðingana. Þetta er lífsskoðun, sem ég ætla, að hv. 5. þm. Reykv. kannist við og hegði sér eftir. (PHalld: Já, þetta er praksís sósíalista). Annars vil ég minna á, að það kom fyrir í sambandi við umgetna gagnrýni, að sagt var, að menn yrðu að kaupa pólitískt brauð, sem sé frá Alþýðubrauðgerðinni. Þetta þótti sumum alveg voðalegt, að þurfa að kaupa slík brauð.

Til samanburðar skal ég geta um atburð, sem kom fyrir í Danmörku nýlega. Í Gentofte klofnaði íhaldsflokkurinn, og önnur álman sendi meðlimunum bréf þess efnis, að ef þeir ekki kysu með sér, yrðu ekki höfð verzlunarviðskipti við þá. Þá skrifaði Christmas Möller opið bréf til meðalmanna og sagði, að íhaldsflokkurinn ætti ekki að vera á svo lágu menningarstigi að ætlast til, að flokksmennirnir verzluðu ekki við pólitíska andstæðinga. - Þetta ættu íhaldsmenn hér að taka sér til fyrirmyndar.

Þungamiðjan í öllum þeim deilum, sem átt hafa sér stað um mjólkurmálið, hefir verið vígorðið: Yfirráðin til framleiðenda! Ég hefi fært rök að því, að þetta vígorð er ekki meint eftir orðanna hljóðan. Það eru ekki framleiðendur yfirleitt, sem þessir menn vilja fá stjórn mjólkursölunnar í hendur, heldur aðeins vissir menn, vissir framleiðendur, sem ekki eru andstæðingar Sjálfstfl. Ef þeir væru hreinskilnir, myndu þeir segja: Yfirráðin til framleiðenda í Sjálfstfl.!