27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (3556)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Gunnar Thoroddsen:

Þetta frv. um breyt. á mjólkurlögunum svokölluðu fer fram á þá aðalbreyt., að stjórn samsölunnar sé fengin í hendur framleiðendunum sjálfum. Ég hafði hugsað mér að segja nokkur orð um þetta frv., en get þó verið fáorður, vegna þess að ýtarleg grein hefir verið gerð fyrir því áður.

Tillögur meiri hl. landbn. eru allmikið ólíkar frv. að formi, en að efni til falla þær að mestu saman við frv. það, sem við hv. þm. Borgf., hv. þm. G.-K. og ég flytjum. Og ég get lýst því yfir, að ég er þeim till. samþykkur í aðalatriðunum og mun greiða þeim atkv.

Hv. þm. Mýr. gerði í gær ýtarlega grein fyrir till. meiri hl. landbn., og var þá ekki annað á honum að skilja en að hann teldi það nauðsynlega úrlausn málsins að samþ. þessar tillögur. Það kom mér þess vegna undarlega fyrir sjónir, að hann skyldi segja það í síðustu ræðu sinni, að hann myndi falla frá þessum till. og greiða atkv. með rökst. dagskránni.

Ég verð nú að segja um hv. þm. Mýr., að svo bregðast krosstré sem önnur tré. Þessi hv. þm. hefir á undanförnum árum oft verið hálfgerður krossberi, hann hefir haft þann þunga kross að bera, sem er hans eigin sannfæring, og hann virðist nú ætla, eins og svo oft fyrr, að sligast undan þeim þunga krossi.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um brtt., en víkja fáeinum orðum að frv. sjálfu. Meginatriðið er það, að stjórn samsölunnar sé þegar tekin úr höndum mjólkursölunefndar og fengin framleiðendum sjálfum í hendur, en í mjólkurlögunum er gert ráð fyrir því, að framleiðendur fari sjálfir með stjórn samsölunnar eftir 1. maí, ef samkomulag næst milli mjólkurbúanna og ráðherra leyfir.

Í þessu máli á fyrst og fremst að fara eftir kröfum þeirra aðilja, sem þetta skiptir mestu máli, og þeir eru tveir: Annarsvegar bændur og hinsvegar neytendur. Það er nú upplýst og er ómótmælanlegt, að framleiðendur óska þess eindregið, að stjórn mjólkursamsölunnar sé fengin í hendur þeim sjálfum. Á fundum bænda hafa verið samþ. tillögur, þar sem þess er einróma óskað, að stjórn sölunnar yrði fengin þeim í hendur. Aðeins eitt mjólkurbú hefir ekki tekið þessa afstöðu, og það er Mjólkurbú Flóam. Það má í fáum orðum segja, að mikill meiri hl. bænda hafi verið sameinaður um þessa ósk. Auk þessa hafa verið haldnir nokkrir þingmálafundir, sem hafa borið fram þessa sömu ósk, og vil ég í því sambandi minna á fund, sem haldinn var í Borgarnesi 13. febr. Það mætti nú kannske segja; að ekki væri rétt að fara eftir óskum, sem bornar væru fram af öðrum aðilanum, ef hinn aðilinn, sem er neytendur í Reykjavík og Hafnarfirði, væri þeim ósamþykkur. En nú vill svo til, að sá aðilinn hefir gert sömu kröfu og bændur. Húsmæðrafélagið í Reykjavík hefir gert einróma kröfu um það, að fyrirkomulaginu yrði breytt í það horf, að stjórn samsölunnar yrði fengin í hendur framleiðendum sjálfum. M. ö. o., bæði bændur og neytendur hafa óskað þess nær eindregið, að þær breyt. séu gerðar, að stjórn samsölunnar sé í höndum framleiðendanna sjálfra. - Hvaða ástæðu getur þá hæstv. landbrh., hæstv. ríkisstj. og hv. þingmeirihl. haft til að leggjast á móti þessari kröfu? Hæstv. landbrh. hefir gefið yfirlýsingu um það, að hann muni beita sér eindregið á móti þessu frv. og segir, að það þýði ekki að samþ. þessar breyt. hér í þessari hv. d., því hann muni beita sér á móti þeim í Ed. og fá þær felldar. Ástæðan til þessa getur ekki verið umhyggja fyrir hagsmunum framleiðenda, og ekki heldur fyrir hagsmunum neytenda, því báðir þessir aðilar hafa óskað eftir breytingunni. En hvaða hagsmunir eru það þá, sem hæstv. ráðh. ber fyrir brjósti? Það eru eingöngu pólitískir hagsmunir. Hæstv. ráðh. og þingmeirihl. sjá það, að með því að gefa eftir í þessu máli, þá er gefið eftir á pólitísku einræði. Hæstv. ráðh. hefir lýst því yfir, að hann muni segja af sér, ef breytt verði í það horf, sem við óskum. Það er augljóst, að verið er að vernda pólitíska hagsmuni, hæstv. ráðh. sjálfs, en ekkert verið að hugsa um hagsmuni framleiðenda eða neytenda.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum að þessu sinni, en mér þótti rétt, að ég sem flm. segði nokkur orð við þessa umr.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því, að ég hefi þá trú, að sá ráðh. verði ekki langlífur í ráðherrastóli, sem setur pólitíska hagsmuni ofar hagsmunum bæði framleiðenda og neytenda í landinu.