27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (3557)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það er ekki mikið, sem ég þarf að segja, en ég vil samt ekki láta hjá líða að segja nokkur orð um sumt það, sem sagt hefir verið hér í þessari hv. deild.

Hv. þm. G.-K. sagði, að menn gerðust ófeimnir nú á dögum. Þetta er satt um hann sjálfan. Það þarf mikla ófeimni til þess að segja af fundi í mjólkurverðlagsnefnd, sem þessum hv. þm. var boðið á og hann lézt ætla að koma á, en kom ekki, og ætla sér á þennan hátt að seilast til Sveinbjörns Högnasonar til að reyna að hnífla í hann og segja, að hann hafi greitt þarna atkv., þó að hann eigi ekki sæti í n., og vitanlega þá ekki heldur atkvæðisrétt. Það þarf sannarlega ófeiminn mann til þess, þegar hann veit, að form. verðlagsnefndarinnar er í d. og veit, hvað fram fór, að skrökva þá frá rótum, búa blátt áfram til heila sögu, til að reyna að ná sér niðri á andstæðing. Til þessa þarf ófeimni og óskammfeilni á háu stigi, hv. þm. G.-K.

Einkennileg kenning kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. Ég benti á, að mér þætti líklegt, að treysta mætti betur bæjarlækni til að semja reglugerð um meðferð mjólkur heldur en bæjarstj. Rvíkur. Ég byggði þetta á því, að bæjarstj. Rvíkur hefir látið vera í gildi reglugerð frá 1917, og hún hefir alltaf verið þverbrotin. Ég benti á í það sinn, að greinar þessarar reglugerðar eru 23 að tölu og þær hafa allar verið brotnar. Ég tók dæmi af 9. gr., sem ákveður það, að búðir megi ekki vera færri en 7 og ekki fleiri en 12, og varði brot á þessu þús. kr. sekt. Þá grein hefir nú bæjarstjórnin sjálf brotið 60-70 sinnum. En þá segir hv. 3. þm. Reykv., að af því bæjarstj. hafi sett reglugerðina, þá megi hún líka brjóta hana. Bæjarstj. á þá að hafa einkarétt á því að brjóta þær reglur, sem hún sjálf setur. Eftir því ættum við þm. að hafa leyfi til að brjóta lög, ef við brjótum ekki önnur lög en þau, sem við setjum sjálfir. Hv. 5. þm. Reykv. var að taka undir þetta með honum, en ég kann ekki við þessa sérfræðikenningu; hún á ekki heima í mínum flokki, og ekki við mína siðfræðihugsun. (JakM: Breytir ekki Alþ. lögum?). Jú, en þá er lögunum breytt, en bæjarstj. Rvíkur hefir aldrei séð ástæðu til að breyta þessari reglugerð. (JakM: Það hefir verið gert með þessum samþykktum). Einmitt, gert með því að brjóta hana. Kannske þjófar séu þá að breyta hegningarlögunum en ekki brjóta þau, þá þeir stela? Enginn mátti setja hér upp mjólkurbúð nema hann hefði til þess leyfi, en 23 mjólkurbúðir voru hér til, þegar samsalan hóf starf sitt, sem aldrei höfðu fengið leyfi. Svona dæmi gæti ég tekið í hvaða grein sem væri, og þess vegna er ekki von, að ég treysti bæjarstj. betur en bæjarlækni.

Þá var hv. 5. þm. Reykv. búinn að koma auga á það, sem hann hefði átt að vera búinn að sjá áður, að munur er á því verði, sem Reykvíkingar fá fyrir sína mjólk, þegar þeir eru í samsölunni, og því, sem þeir fá, sem fyrir utan bæinn búa.

Þá var hann að tala um, að mjólkin væri einokuð og nefndi sem dæmi því til sönnunar eitt með öðru, að mjólkin hefði hækkað í verði. Hann hefir þá verið búinn að gleyma því, sem hann sagði áður í kvöld, en ég þá leiðrétti hjá honum, að mjólkin hefði lækkað um 1 eyri, sem raunar er 12/3.

Ég vil benda á það, að þeir hv. þm., sem eru sama sinnis eins og hv. 6. þm. Reykv., að allir gallar hverfi, ef stjórn mjólkursölunnar sé látin í hendur framleiðenda sjálfra, og allir þeir hv. þm. í þessari hv. d., sem eru þeirrar skoðunar, að það sé rétt að hafa í búðum samsölunnar ógerilsneydda mjólk, þeir ættu að styðja að því, að þetta náist, með því að samþ. rökst. dagskrána, nema þeir beri svo gott traust til hæstv. landbúnaðarráðh., að hann geri þetta án þess. Ég gæti gert hvort sem heldur væri, en til tryggingar vil ég heldur, að rökst. dagskráin sé samþ.