27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (3564)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr. mikið, en þó vil ég svara hv. síðast ræðumanni. Rök sín, sem hann reyndi að færa fram fyrir því, að mjólkurneyzlan hefði minnkað, byggði hann aðallega á því, að svo mikið ólag hefði verið á mjólkursölunni fyrstu dagana, að þótt mjólkurneyzlan sé svipuð nú og hún var þá, sanni það ekki, að sama neyzla sé nú og hafi verið áður en samsalan byrjaði. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að þótt dálítið ólag væri á heimsendingu mjólkurinnar fyrstu dagana, þá var samt engin tregða á því að senda mjólkina út eða á eftirspurn eftir mjólk þessa daga, því að engin samtök voru um það, að menn keyptu ekki sína mjólk og fengju hana senda, jafnvel þótt hún kæmi seinna en áður. Um þetta hafa menn fengið skýrslu frá mjólkurbúunum, því að hvert bú um sig veit, hvað það hefir selt mikið, bæði Mjólkurfélag Reykjavíkur, búið í Borgarnesi, Ölfusbúið, Mjólkurbú Flóamanna og Korpúlfsstaðabúið, svo að það er bezt að reikna út, hve mikið hefir verið framleitt í Reykjavík. Þetta gerði mjólkurn. í viðurvist hr. Eyjólfs Jóhannssonar, og skal ég taka það fram, að hann gat ekki mótmælt þessum tölum, sem gefnar voru upp áður en þessi þræta reis upp. Það sýndi sig, að samkv. þessum tölum er mjólkurneyzlan sú sama og áður. Þetta er ekki hægt að hrekja með öðru móti en því, að gera ráð fyrir, að gefnar hafi verið upp falskar tölur. Skýrslan um þetta liggur fyrir og hefir verið birt.

Hvað hitt atriðið snertir, þá skal ég ekki vera langorður. Það stendur í l., að framleiða megi mjólk handa ungbörnum og sjúklingum, og að um það skuli sett ákvæði í reglugerð. En svo býr hv. 3. þm. Reykv. til setningu, sem eftir hans dómi á að standa í lögunum, sem sé, að framleiða megi þessa mjólk banda börnum og sjúklingum, og að ekki megi afhenda hana nema gegn læknisvottorði. En þetta stendur bara ekki í l., en það þyrfti að standa þar í augum hv. 3. þm. Reykv.

Það hefir oft komið fram í þessum umr., og síðast í hv. Ed., að það væri aðeins eintóm þröngsýni að vera að gera kröfu um læknisvottorð, þar sem nú væri engin þörf fyrir það, hvorki í l. né annarsstaðar, vegna þess að það væri vitanlegt, að selja mætti þessa mjólk ekki síður þeim, sem ekkert læknisvottorð hefðu, heldur en öðrum. Það má ennfremur benda á, að það hefir mikið verið vikið frá þessari reglugerð, vegna þess að þeir, sem framleiða mjólk í Reykjavík, mega selja ógerilsneydda mjólk.