21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

1. mál, fjárlög 1936

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vil margt til vinna, að þessari umr. verði lokið fyrir mat, og mun vinna það til að svara engu af því, sem til mín hefir verið beint.

Hv. 1. þm. Reykv. þarf ég engu að svara og vísa til þess, sem ég sagði í síðustu ræðu minni, en vil víkja örfáum orðum að hv. 10. landsk., sem gaf tilefni til þess með ræðu sinni, þó ekki vegna þess, hve merkileg hún var, heldur miklu fremur vegna hins, hve fráleit og ómerkileg hún var. Hann lagði mikið upp úr því, að ég hefði borið saman Þýzkalandsmarkaðinn á árunum 1933 og 1934 við 1935. Hann lagði mikið upp úr því, að þetta væri ekki réttmætt, því verðlag á ísl. afurðum í Þýzkalandi hefði ekki verið eins hátt og í öðrum löndum árið 1933, en hann gekk framhjá því, að ég lagði ekki höfuðáherzluna á árið 1933, heldur á 1934, því þá stóð svipað á og nú og verðlag var þá hærra í Þýzkalandi heldur en annarsstaður. En bændur gátu þá ekki notað markaðinn af því að þeir gátu ekki losað þau mörk, sem þeir fengu fyrir vöru sína. Eða m. ö. o.: Þótt þeir væru frjálsir að því að nota þýzkan markað, þá gátu þeir það ekki vegna skipulagsleysis á viðskiptunum framan af árinu. Ef bændur áttu að geta notað Þýzkalandsmarkaðinn á árinu 1934 eins og í ár, þá hefði þurft að skipuleggja viðskiptin fyrri hluta ársins á þann hátt, að það, sem flutt væri inn frá Þýzkalandi á fyrri hluta ársins, þyrfti ekki að greiða fyrr en á síðari hluta ársins og mætti þá greiðast með andvirði útfluttrar vöru; en þetta var ekki gert, og þess vegna var á fyrri hluta ársins keypt allmikið af vörum frá Þýzkalandi og þær greiddar með frjálsri valutu.

Aðalatriðið í ræðu hv. 10. landsk. var það, að ríkisstj. hefði staðið á móti því, að bændur fengju að njóta bezta verðs fyrir vöru sína, og hefði skapað sér skaðabótaskydu með aðgerðum sínum. Þetta er svo fjarri sanni, að þvert á móti hefir verið þannig á haldið með Þýzkalandsmarkaðinn, að bændum hafa verið skapaðir meiri möguleikar á því að nota hann nú í ár heldur en þeir höfðu á árinu 1934, þegar hann var frjáls að nafninu til.

Annað höfuðatriðið í þessu máli er það, að sú þátttaka, sem bændum hefir hlotnazt í Þýzkalandsmarkaðinum á þessu ári, er sízt minni heldur en sú þátttaka, sem öðrum atvinnugreinum hefir hlotnazt, miðað við það útflutningsmagn, sem þær atvinnugreinar hafa. Ég geri ráð fyrir, að í blöðum stj. verði gerð grein fyrir gerðum hennar í þessu máli, og tel ég það réttmætt, að málið verði sem ljósast fyrir öllum almenningi, því ég veit, að þessi till. er ekki borin fram sem þingmál, heldur til þess að geta skrafað um, hve mikið þessir hv. flm. hafi viljað gera fyrir bændur, en það hafi ekki fengizt samþykkt af ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.