21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

1. mál, fjárlög 1936

Eiríkur Einarsson:

Ég hefi áður gert grein fyrir till. mínum og skal vera fáorður, en að ég stend upp úr sæti mínu, er vegna þess, að sumt af því, sem tekið hefir verið fram í umr., gefur mér tilefni til þess að hreyfa nokkrum atriðum aftur.

Hæstv. landbrh. og hæstv. atvmrh. hafa báðir minnzt á aðaltill. mína um framlag af atvinnubótafé til Hellisheiðarvegar. Ég vil lýsa því yfir, að það gladdi mig að heyra, að þeir tóku báðir þessu máli hljóðlega og játuðu, eins og vita mátti, aðkallandi nauðsyn þess og lofuðu stuðningi við það, svo sem við yrði komið. Ég fer ekki út í þá sálma, að tala um þau ummæli hæstv. forsrh., að áhuginn væri meiri með að atvinnubótaféð gengi til framleiðslunnar en benzínskatturinn yrði látinn fara til þessara aðgerða. Því hefir verið lýst yfir áður og þingheimi er það kunnugt, að þarna er tekið fé úr réttri hirzlu, en benzínskatturinn er neyðarúrræði. Hin rétta leið er sú, að atvinnubótafénu sé varið til þessara framkvæmda, en ekki sú, að leggja á nýja skatta, svo sem benzínskattinn. Og þetta sannast því betur sem lengra líður frá.

Jafnframt því, sem hæstv. forsrh. lýsti yfir því, að hann væri því hlynntur og vildi styðja að því, að fé yrði varið, eftir því sem föng væru á, af atvinnubótafénu til Hellisheiðarvegarins, þá lýsti hann því yfir, að hann vildi ekki lögfesta ákveðna upphæð til þessara aðgerða. Þetta skil ég ekki. Ef hæstv. ráðh. segir það af heilum huga, að honum sé hugleikið að koma þessu máli í framkvæmd, því þá ekki að leita álits Alþ., hve mikið því finnist sanngjarnt að leggja fram í því skyni? Það er ekki hundrað í hættunni, þótt heimilað sé að verja 150 þús. kr. af atvinnubótafénu til þessara athafna, því hér er ekki talað um annað en það, að ríkisstj. sé heimilt (það er ekki skuldbindandi) að verja þessu fé á þennan hátt, ef ástaður leyfa. En þótt slík heimild sé ekki bindandi, þá er hún mikil hvöt og siðferðislegur stuðningur við framkvæmd málsins og engin ástæða til þess fyrir ríkisstj. að færast undan því, að hún verði veitt með ákveðinni fjárhæð. Ríkisstj. virðist ekki heldur andæfa tilmælum um, að ákveðinni upphæð af atvinnubótafé sé varið í öðru skyni, samkv. þeim viðtökum, sem till. hv. fjvn. hefir fengið, um að 100 þús. kr. skuli varið til nýbýla. Og er þá engin ástæða til að hika fremur við að nefna ákveðna upphæð til vegagerðar á Hellisheiði. Þessi ákvæði væru algerlega hliðstæð, því hvorugt þeirra er bindandi skylda, heldur aðeins heimildarákvæði.

Ég legg áherzlu á þá velvild hæstv. ríkisstj. fyrir málinu, sem kom fram í yfirlýsingu hæstv. ráðh., og sú velvild þakkast bezt þegar hún er orðin reynd í verkunum; en það er ástæðulaust að lögfesta ekki upphæðina, og ég vona, að hún verði lögfest.

Þá var eitt atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem mun stafa af misskilningi. Hann taldi, að það mundi vera til hagræðis að byrja veginn nálægt Reykjavík, en samkv. lögum um Hellisheiðarveg er mælt svo fyrir, að það skuli byrja á honum að austan, og þyrfti því lagabreyt. til þess að byrja á hinum enda vegarins.

Þá var eitt atriði í sambandi við ræðu hæstv. atvmrh. Hann mælti mjög í sama anda og hæstv. forsrh., en hann sagði, að það kæmi til greina, hvernig þessu yrði komið við eftir árum. Ég held, að höfuðatriðið sé að haga atvinnubótavinnu eins og öðrum vinnubrögðum, að það þurfi að sæta lagi eftir veðurfari og öðrum ástæðum, eins og við hver önnur útiverk. Atvinnubótavinna mun tæpast hugsuð, enn sem komið er, öðruvísi en útiverk. Það þarf því að efla starfsmöguleika á þeim árstíðum, þegar bezt er að vinna. Dauður starfstími á jafnt við um atvinnubætur sem önnur störf, og af þessum ástæðum á sá lifandi starfstími á sama hátt við um vegagerð og nýbýlaframkvæmdir, og engin ástæða til að greina þar á milli.

Ég ætla svo að víkja frá þessu og svara nokkru því, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, er hann hafði framsögu að 2. kafla fjárl. af hálfu n. Hann minntist á framlag til símalínu frá Ásum í Gnúpverjahreppi að Ásólfsstöðum og sagði, að orðið hefði að samkomulagi að fresta því til næsta árs fjárlaga. Nú er það svo, að Páll Stefánsson á Ásólfsstöðum hefir verið vonbiðill um síma í mörg undanfarin ár, og nú síðast kom hann hingað suður og bað mig að gera tilraun til að koma þessu máli fram. Póst- og símamálastjóri hefir skýrt mér frá, að Páll hafi komið til sín og talað um þetta mál, og játar símamálastjóri sig hafa viðurkennt nauðsyn málsins, en segist ekki hafa lofað neinum framkvæmdum á því án sérstakrar heimildar fyrr en að ári liðnu. Hefir símalagning þessi nógu lengi verið vanrækt, þótt nú verði bætt úr og síminn lagður að fyrirlagi þingsins.

Þar sem hv. 2. þm. Árn. minntist á till. mína um framlag til lendingarbóta á Stokkseyri, óð hann svo reyk, að hann talaði um, að Stokkseyrarhreppur mundi standa í óbættri sök um framlag á móti ríkissjóðsstyrk. En því er þar til að svara um það fé, sem veitt hefir verið af Alþ. til lendingarbóta á Stokkseyri gegn framlagi, sem áskilið hefir verið á móti, að það framlag hefir verið greitt af hálfu hlutaðeigenda með fullum skilum til þessa dags. Vil ég máli mínu til sönnunar lesa hér bréf frá vitamalástjóra, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar þannig:

„Að gefnu tilefni vil ég lýsa því yfir, að framlag það, sem áskilið hefir verið á móti ríkissjóðsstyrk til dýpkunar og annara umbóta á Snepilrás o. fl. í Stokkseyrarsundi undanfarin ár, hefir fram að þessu verið greitt að fullu frá hlutaðeigendum á Stokkseyri“. (BB: En það, sem hefir verið veitt til bryggjugerðar?). Já, það er einmitt það, sem að er. Hv. þm. blandar saman tveimur alveg óskyldum fyrirtækjum, sem ekkert koma hvort öðru við fjárhagslega. Annað er dýpkun á Snepilsrás, en hitt er bryggjan, og hefir það mál allt aðra forystumenn. Og það mun vera rétt, að bryggjan, eða félag bátaeigenda á Stokkseyri, sem þar á hlut að máli, standi í óbættum sökum um greiðslur. Þar sá hv. fjvn. sér fært að hjálpa, en þeir aðilar, sem að lendingarbótunum standa, eiga engar óbættar sakir og hafa samkv. yfirlýstum vitnisburði staðið í beztu skilum. Er engu líkara en að þeir eigi nú að gjalda þeirrar skilsemi sinnar. ég veit, að hv. 2. þm. Árn. muni vinna að því meðal samstarfsmanna sinna í fjvn. að fá þetta leiðrétt, og treysti því, að þessu athuguðu, að till. mín fái framgang.

Það síðasta, sem hv. 2. þm. Árn. vek að, var um Hellisheiðarveginn, og fannst mér satt að segja, eftir ræðu hæstv. ráðh., að sá góði Árnesingur færi nokkuð hjá sér. Hann talaði ekki um vegagerð heldur um pólitíska vegfarendur og hverjir hafi vanrækt að nota aðstöðu sína til að koma málinu í framkvæmd. Ég hygg, að það skipti minnstu máli, hvað þessir pólitísku vegfarendur heita, og víst er um það, að enginn okkar hefir gert meira en skyldan býður, og þótt við sennilega viljum allir vel, þá er alltaf verið að barma sér yfir því, og ekki að ástæðulausu, að minna sé gert en skyldi. Hv. 2. þm. Árn. gaf það í skyn, að nú værum við gleiðir að biðja um framlag til þessara framkvæmda, en hefðum ekki notað aðstöðu okkar til þess á fyrri tíma. Ég mun ekki svara þessu mikið, en vil þó minnast á eitt atriði, því hver er sjálfum sér næstur.

Ég sat á þingi á árunum 1920 —1923, og á því tímabili var samþ. till. um að láta rannsaka brautarstæði austur. Það var þá ákveðið að fá norska verkfræðinga til að rannsaka, hvaða leið væri tiltækilegust til framkvæmda. Áður hafði verið hin mesta ringulreið á því, hvort ætti að vinna að því að fá járnbraut austur eða ekki. Þetta var það spor, sem fyrst var stigið í áttina til framkvæmda í málinu; eftir þá rannsókn voru svo loks sett lög um þessar vegabætur. Svo fór ég af Alþ. og hefi ekki síðan komið á þá háu samkomu nema á aukaþinginu 1933. Nú kem ég fyrst aftur og vil þá gera mitt til að hreyfa málinn á ný.

Hv. þm. var að tala um meðflm. mína og efaði, að þetta væri veruleikaskoðun þeirra, en ég held, að það hafi komið fram í till. í fyrra, að þeir væru einlægir til þessara aðgerða. En hv. 2. þm. Árn. verður að svara því sjálfur, hvort hann studdi till. þeirra þá eða ekki.

Að síðustu vil ég benda á nauðsyn þess að láta hér gott málefni ráða í stað flokkskergju, og er þess þar fyrst að vænta, að þeir höggvi ekki, er hlífa skyldu. Og hvað sem öllu þessu líður, hafa nú till. okkar flm. orðið til þess, að fyrst að þeim framkomnum er eins og nýtt líf að færast í málið, og er gott verk að hafa orðið til þeirrar vakningar.