27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (3583)

148. mál, útflutningsgjald

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. hefir athugað þetta frv. og leitaði m. a. umsagnar bæði Fiskifél. og eins íslenzkra fiskmjölsframleiðenda, en áður höfðu n. borizt ýtarlegar umsagnir frá ýmsum sjávarútvegsmönnum í grennd við Faxaflóa.

Ekki varð samkomulag um afgreiðslu málsins. Minni hl. n., hv. þm. Vestm. og hv. 3. landsk., vildi láta færa tollinn af skreið niður í 10 kr. á tonnið, eins og hann var áður en l. um þennan útflutningstoll var breytt á síðasta þingi. Enginn nm. lagði til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Hinsvegar lítur meiri hl. n. svo á, að fyrir þessum l., sem voru sett á síðasta þingi, sé ekki enn fengin sú reynsla, að rétt sé að breyta þeim nú þegar. Það hefir ekkert komið enn í ljós, sem bendir til þess, að sú tollhækkun, sem gerð var á skreið á síðasta þingi, hafi sett beinaverðið óhæfilega niður í hlutfalli við fiskimjölsverð á erlendum markaði. En ef það kynni að sýna sig fyrir næstu vertíð, að verð á skreiðindi yrði of lágt, miðað við fiskimjölsverð á erlendum markaði, þá ætti að vera nógur tími á næsta þingi að breyta lögunum.

Umsagnir þær, sem n. bárust, voru ekki allar á einn veg, eins og gefur að skilja. Í fyrsta lagi kom áskorun frá útgerðarmönnum að færa útflutningsgjald af skreið niður í það, sem farið er fram á í frv. Í öðru lagi kom umsögn frá Fiskifél., sem fer í raun og veru í sömu átt, en þó segir í því áliti, að síðan íslenzkar fiskmjölsverksmiðjur hafi tekið til starfa hér á landi, hafi beinaverðið hækkað mikið. Ef þessar verksmiðjur yrðu að hætta vegna lækkunar á þessum tolli, þá gæti það orðið til þess, að verðið lækkaði að mun, sjávarútveginum til tjóns.

Ég álít þessa umsögn Fiskifél. mjög athyglisverða. Þar er bent á það höfuðatriði málsins, að beinaverðið fari fyrst verulega hækkandi, þegar íslenzkar fiskmjölsverksmiðjur voru settar upp. Það er aðeins vegna samkeppni þeirra við erlenda kaupendur, að beinaverðið hefir farið upp í það, sem það hefir verið á undanförnum árum.

Að því athuguðu, að mjög stutt reynsla er fengin fyrir l. þessum og meiri hl. sjútvn. telur, að ekki hafi komið fram sannanir um, að beinaverð hafi lækkað svo, að það sé ekki í réttu hlutfalli við fiskmjölsverð á erlendum markaði, ennfremur að því athuguðu, að litlar líkur eru til, að beinamjölsverksmiðjur hér á landi gætu staðizt samkeppnina, ef tollurinn yrði lækkaður eins og hér er farið fram á, þá leggur meiri hl. n., hv. þm. N.-Þ., hv. 6. þm. Reykv. og ég, til, að frv. verði afgr. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem borin er fram á þskj. 609.

Læt ég svo útrætt um þetta mál, en ég geri ráð fyrir, að hv. flm., sem hefir ekki fengið neina áheyrn hjá n., og eins minni hl. n., geri grein fyrir sinni skoðun í þessu máli.