28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (3589)

148. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Páll Þorbjörnsson):

Ég hefi litlu við að bæta það, sem ég sagði um þetta mál áður, þegar það var hér á dagskrá.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ég hefði sagt, að Norðmenn hefðu samið við íslenzka fiskmjölsframleiðendur um sameiginlegt verð á beinum; vildi hann draga þá ályktun, að þetta stangaðist við það, sem hv. þm. Borgf. sagði um sama efni. Ég hélt fram í minni ræðu, að þegar búið var að leggja þennan mjög svo ósanngjarna verndartoll á beinin, þá hefðu Norðmenn farið að sjá sér hag í því að semja við íslenzku beinamjölsframleiðendurna um að ganga inn á samkomulag við þá um visst verð á beinunum. Ég skal ekki segja, hvort svo hefir verið gengið frá þessu á einstökum stöðum, að verðið hafi verið jafnt. En maður veit það, sem er aðalatriðið, að ísl. verksmiðjueigendurnir hafa ekki borgað hærra verð en Norðmenn, og sýnist þó svo, að þegar kominn er 30 kr. verndartollur á beinin, þá hefði þeim átt að vera í lófa lagið að útiloka Norðmenn frá því að kaupa hér nokkur bein, með því að borga þau hærra verði. En þeir gerðu það ekki, enda er á allra vitorði, að það var samkomulag um það fyrir síðustu vertíð milli íslenzku og norsku beinakaupendanna að kaupa beinin sama verði.

Ég hygg, að ekki hafi komið hér fram í umr. áður eitt atriði, sem útvegsmenn hér hafa bent mér á, og það er það, að þegar beinin féllu svo mjög í verði eins og þau gerðu á síðasta ári, sem áreiðanlega má að miklu leyti rekja til hins háa útflutningsgjalds, þá datt nokkrum útgerðarmönnum, sem áttu bein, í hug að fara fram á það við eigendur fiskmjölsverksmiðjanna, að þeir möluðu beinin fyrir þá fyrir kostnaðarverð. Þeir segjast hafa búizt við, að þeir yrðu fúsir til þess, þar sem þeir hafa undanfarið verið að klifa á því, að verksmiðjurnar væru reknar með tapi. En það brá svo einkennilega við, að þeir voru ófáanlegir til þess að mala beinin fyrir kostnaðarverð, þ. e. a. s. gera eigendum beinanna reikning fyrir raunverulegum kostnaði við mölunina og tryggja þannig, að þeir sköðuðust ekki á rekstrinum. Ég hygg, að af þessu megi draga þá ályktun, að ekki sé allt sannleikanum samkvæmt, sem sagt hefir verið um hina mjög svo bágu afkomu þessarar iðju og þörf hennar fyrir þennan óheyrilega verndartoll, sem hvergi mun eiga sinn líka.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en get þó ekki látið hjá liða, áður en ég sezt niður, að mótmæla því, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., er hann vildi halda fram, að sín afstaða væri að fella niður gjaldið að öllu leyti. Þegar málið lá fyrir sjútvn. í því formi, að það átti ekkert útflutningsgjald að hafa af þessari vöru, en þannig kom það frá hv. þm. Borgf., man ég ekki til, að hv. 6. þm. Reykv. téði sig því samþykkan; hefir hann þó ekkert skirrzt við að skera sig út úr í n., og var því í lófa lagið að mæla með frv. óbreyttu.