28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (3591)

148. mál, útflutningsgjald

Jónas Guðmundsson:

Mér finnst á þessum umr., sem hér hafa farið fram, sérstaklega á ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Borgf., að þar kenna ógurlegs misskilnings og ósamræmis við það, sem þessi hv. þm. hefir haldið hér fram á þingi áður. Hann vill nú láta gera hér tilraun til að ganga af einni efnilegustu iðngrein landsins dauðri, með því að neita henni um svipaðan stuðning eins og aðrar iðngreinar landsins njóta, og hans eiginn atvinnuvegur nýtur í ríkara mæli heldur en nokkur önnur atvinnugrein. Þessi hv. þm. hefir ekkert á móti því, þó kaupstaðarbúar séu skattlagðir með mjólkurlögum og kjötlögum o. fl. til stuðnings landbúnaðinum, og hann hefir ekki haft á móti því, þó varið væri stórfé úr ríkissjóði honum til styrktar. En þeim unga atvinnuvegi, sem sýnist geta orðið þjóðinni til mikilla hagsbóta í framtíðinni, fiskiðnaðinum, vill hann vega að með því að svipta hann þeirri ívilnun, sem honum var veitt á síðasta þingi, til þess að gera honum mögulegt að blómgast í landinu, þrátt fyrir ógurlega harða baráttu við norska keppinauta.

Það hefir legið fyrir sjútvn. skýr og greinileg skýrsla frá stjórn félags fiskmjölsframleiðenda í landinu. Í þeirri skýrslu votta flestar verksmiðjurnar, að ef þær geti ekki fengið að njóta neinnar ívilnunar af hálfu þess opinbera í framtíðinni, þá sjái þær sér ekki fært annað en stöðva rekstur sinn. Og þetta er rétt. Það hefir ýmsu verið blandað inn í þessar umr., sem ég vil ekki minnast á. En ég vil biðja menn að athuga það, að ef ríkisvaldið neitar verksmiðjunum um þennan stuðning, sem sjálfsagt er að veita þeim, þá er allt útlit fyrir, að þær hætti að keppa við útlendinga um kaup á beinunum. Hvernig hugsar hv. þm. Borgf. sér ástandið þá, þegar Norðmenn eru orðnir einir um að bjóða í þessa framleiðslu? Er hann búinn að gleyma, hvernig fór árið 1932? Þá keyptu íslenzku verksmiðjurnar ekki bein og þau féllu niður í 60 kr. tonnið hæst. Norðmenn létu meira að segja umboðsmenn sína hér liggja með vöruna fram á árið 1933, svo mikil þröng var á markaðinum; sumir þeirra, sem voru félausir menn, urðu gjaldþrota af þessum sökum og hafa ekki verzlað með þessa vöru síðan. Svipað mundi verða uppi á teningnum aftur, ef gengið væri inn á þá braut að gera íslenzku verksmiðjunum ómögulegt að starfa.

Samkv. skýrslum, sem fyrir liggja um útflutning á beinum og fiskmjöli, þá hefir verið flutt út nú 3428 tonn af fiskmjöli, en ekki nema 2646 tonn í fyrra á sama tíma. Þetta sýnir, að íslenzku verksmiðjurnar fá allmikið af beinaframleiðslunni, þrátt fyrir það háa verð, sem sagt er, að Norðmenn bjóði. Er það af því, að íslenzkir framleiðendur vilja ekki selja Norðmönnum? Nei, það er vitanlega af því, að þeir kaupa beinin ekkert hærra verði. Af beinum óunnum er aftur á móti flutt út 1242 tonn, og á því tapar þjóðin 113 þús. kr., samanborið við að vinna þau og flytja út mjölið. Ef hún hefði flutt þetta út sem mjöl, þá hefði fengizt fyrir það 113 þús. meira en að flytja það út sem hráefni. Og þetta er ágætt dæmi til skýringar þess, hvernig mönnum eins og hv. þm. Borgf. getur missýnzt, þegar grípur þá æsing út af slíkum málum eins og þetta frv. flytur.

Ég sé ekki, að það sé rétt að þreyta hv. d. á því að ræða þetta lengur, og sízt þar sem málið verður tekið fyrir aftur á morgun, og hv. þm. Borgf. er ekki enn búinn að ausa úr sér öllu, sem hann ætlar sér. En ég hefi hugsað mér, ef þessu á fram að ganga, að koma með till. um að svipta aðra atvinnuvegi líka þeim styrk, sem þeir eiga að fá. Vænti ég þá góðs stuðnings frá hv. þm. Borgf., sérstaklega hvað landbúnaðinn snertir.