02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (3596)

148. mál, útflutningsgjald

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég býst varla við því að geta sannfært hv. 3. þm. Reykv. um réttmæti þess, að eigi sé svo freklega gengið til verks sem hér er gert í því að skattleggja fiskimenn hér á landi. Ég býst við, að það sé búið að undirbúa hans skoðun í þessu máli af þeim aðilum, sem hafa komið þessu máli inn á þá braut hér á þingi, sem gerir það að verkum, að allar velsæmisreglur í skattálagningu á framleiðendur landsins hafa verið brotnar, þar sem í þessu eina tilfelli hefir verið svo langt gengið, að skatturinn af þessari vöru nemur allt að því 1/3 af raunverulegu andvirði vörunnar. Og þótt þetta sé gert í þeim lofsverða tilgangi að styðja innlendan iðnað í þessari grein, sem sé vinnslu úr beinamjöli, þá eru samt takmörk fyrir því, hversu langt er hægt að ganga í því að skipta afla þeirra manna, sem hér um ræðir, og taka af honum svo og svo mikinn hluta og rétta hann að þeim mönnum, sem standa fyrir þessari innlendu starfsemi. Nú hefir verið gerð grein fyrir því hér áður, að því fer fjarri, að svo mikið fáist upp úr vinnslu þessara afurða í landinu sjálfu, að það nemi þeim mismun, sem reynsla þessa árs hefir sýnt, að sjómenn áttu kost á að fá upp úr þessum afurðum, ef þeir væru óbundnir af þessu ákvæði löggjafarinnar, sem sé ef ekki hefði verið lögverndað að taka svo og svo mikinn hluta inn í ríkissjóðinn af réttmætum afla þeirra, sem er svo varið til verndunar þessa iðnrekstrar í landinu. Ég get að sjálfsögðu tekið undir með þeim mönnum, sem vilja styðja innlendan iðnrekstur, en það eru þó takmörk fyrir því, hvað langt er hægt að ganga í því að færa á milli manna eignarheimild verðmætanna, og mér virðist vera gengið út fyrir þau takmörk í þessu tilfelli. Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram í áframhaldi af því, sem fram kom hjá hv. 6. landsk., fyrsta höfundi þessarar tollalöggjafar, að þetta væri nauðsynleg og óhjákvæmileg ráðstöfun til þess að halda við þessum atvinnurekstri hér á landi, og með því að leggja niður þennan toll mundi þessi verksmiðjurekstur alveg leggjast niður. Hv. 6. landsk. hélt því fram, að við það minnkaði sú samkeppni, sem átt hefir sér stað um innkaup á þessum vörum, og ef ekki væri um slíka samkeppni að ræða innanlands, þá væri þar með öll samkeppni fallin niður um kaup á þessari vöru. Út frá þessum forsendum komst hv. 3. þm. Reykv. að þeirri niðurstöðu, að það væri sama og að gefa útlendingum þennan mun, sem hér um ræðir, og til þess að bjarga landsmönnum frá þessum voða væri nauðsynlegt að leggja háan toll á þessar sérstöku afurðir sjávarútvegsmanna, sem nemur 1/3 af verðgildi þessara afurða. Nú hefir reynsla þessa árs greinilega sýnt, að það er samkeppni um þessa vöru milli hinna erlendu kaupenda, og nú er það yfirleitt svo, að verðlag á útflutningsvörum byggist á þeirri þörf, fyrst og fremst, sem er fyrir vörurnar á heimsmarkaðinum, og á þeirri samkeppni, sem á sér stað um kaup á þessum vörum. Að því er þessa vörutegund, sem hér um ræðir, snertir, er engin undantekning í þessu efni. Það er líka samkeppni um kaup á þessari vöru, og markaðurinn fyrir hana er töluvert rúmur erlendis, ekki síður en markaðurinn fyrir ýmsar aðrar afurðir okkar, og rýmri t. d., ef við miðum við sölumöguleikana fyrir saltkjötið okkar, sem við seljum aðallega til eins lands, og þó að kaupendur beinanna séu aðallega í sama landi, þá er markaðurinn fyrir þá vöru samt miklu rýmri og nær langt út fyrir Noreg. Þar sem markaðurinn fyrir þessa vöru er yfirleitt nokkuð rúmur, þá verðum við í þessu efni að byggja á þeirri frjálsu samkeppni, sem skapast við sölu slíkra vara, og þeirri tryggingu, sem sú frjálsa samkeppni veitir fyrir því, að við fáum eðlilegt verð fyrir vöruna. Það ber allt að sama brunni með það, að í þessu tilfelli gildir það sama og með aðrar vörur okkar. Sé það tilfinnanlegt - sem það náttúrlega er -, að útflytjendur þessa lands greiði 15/8% af verði á öðrum sjávarafurðum, því skyldi það þá ekki vera tilfinnanlegt fyrir þá, sem þessa vöru eiga, að verða að borga um 30% af verði þessarar sérstöku vöru? Þetta er það, sem hér skilur á milli og óánægjan hefir risið út af, að hér í þessu tilfelli er seilzt með miklu tilfinnanlegri ágengni ofan í vasa sjómanna en nokkur dæmi eru til, bæði að því er snertir þá sjálfa og framleiðendur þessa lands. Það er þetta, sem farið er fram á, að verði leiðrétt með þessu frv., sem hér hefir verið flutt, og á þeim grundvelli er það, að minni hl. sjútvn. hefir lagt til, að haldið verði eftir a. m. k. 10 króna tolli á hverju tonni, sem yrði til verndar þessum innlenda iðnrekstri.

Hv. 6. landsk., beinaverksmiðjuforstjórinn í Neskaupstað, hélt því þá fram, að það væri sama sem að leggja þessar verksmiðjur gersamlega niður, ef ekki fengist svo hár tollur á þennan útflutning til þess að vernda þennan innlenda iðnað. Mér þykir ástæða til að benda á það, hversu lítil takmörk eru á hóflausum kröfum þessa hv. þm. um aukin hlunnindi fyrir beinaverksmiðjurnar, með því að minna á það, að það var síður en svo, að hann vildi gera sig ánægðan með þessi 30% sem toll á hverja smálest, því hans till. á þinginu var hvorki meira né minna en 40 kr. á smálest. Og þetta lagði hann til eftir að Alþingi var búið að veita þá ívilnun að lækka útflutningsgjaldið af fiskmjöli úr 10 kr. á smálest niður í 15/8% af verði, og mun sú ívilnun hafa numið um 7 kr. á smálest. Þá fer hv. 6. landsk. fram á, að lagður verði á hverja smálest af útfluttum beinum 40 kr. tollur til frekari verndar fyrir verksmiðjurnar. Ég held yfirleitt, að mjög erfitt sé að ofbjóða velsæmistilfinningu Alþingis gagnvart þeim mönnum, sem á miðunum eru að skapa verðmæti þjóðarinnar til öflunar gjaldeyris fyrir lífsnauðsynjar o. fl. Ég held það sé ákaflega erfitt að misbjóða velsæmi Alþingis, ef það er ekki gert með svo hóflausri kröfu sem þessari frá hv. 6. landsk., beinaverksmiðjuforstjóranum á Norðfirði. Og með slíkum skatti, ef hann verður samþ., er beinlínis framið eignarnám.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, að hér væri ekki gengið á rétt framleiðendanna. Hann hélt, að óánægjan með hann stafaði eingöngu frá þeim sárfáu milliliðum, sem keypt hafa þessa vöru fyrir útlenda kaupendur. Það mætti merkilegt heita, ef þessir milliliðir, sem ekki eru nema þrír talsins, ættu svo mikið undir sér, að þeir gætu fengið alla þá sjómenn víðsvegar um land, sem hirða þessa vöru, til þess að taka þátt í þeirri óánægjuöldu, sem risin er hér á landi út af þessum tolli. Það þýðir ekkert fyrir hv. 3. þm. Reykv. að ætla þannig að leiða umr. frá kjarna málsins. Slíkt er ekkert annað en vindhögg, sem hann reynir að bjarga sér á, af því hann getur engin rök fundið fyrir þessari ósanngjörnu kröfu. Nei, frá þeim sjálfum, sem hirða þessi verðmæti, er krafan komin um að færa þetta í skynsamlegra og réttlátara horf. Sú krafa er komin frá öllum framleiðendum hér við Faxaflóa, í Vestmannaeyjum og viðar, þar sem menn hafa hagsmuna að gæta gagnvart þessum ósanngjarna tolli.

Ég sýndi fram á það síðast, þegar ég talaði, og færði fram vottorð, sem ég hefi í höndum frá manni, sem keypti fiskbein til útflutnings og borgaði 130 kr. á bryggju fyrir smálest í öllum flokkum og auk þess útflutningsgjald. Það liggja fyrir upplýsingar um tvo útlenda kaupendur, sem borguðu 105 kr. fyrir smálest á sama tíma og verðið innanlands var 95-100 kr. Þetta sýnir, að það er fullkomin samkeppni um þessa vöru, þar á meðal milli erlendra kaupenda. Það er því mjög eðlilegt, að þeir, sem framleiða þessa vöru, snúi sér til Alþingis með að fá létt af þessum ósanngjarna tolli. Það má undarlegt heita, ef hinir raunverulegu framleiðendur koma ekki til með að greiða tollinn, því ef hann væri ekki, þá mundu þessar 30 kr. á smálest renna beint til framleiðendanna, og það vita þeir bezt, sem að framleiðslunni vinna, að þá munar ekki lítið um að fá þá upphæð, sem nú rennur beint í ríkissjóðinn.

Hv. 6. landsk. minnti á það, að fyrir lægi umsögn allra forstjóra fiskmjölsverksmiðjanna á landinu, og lýsti því yfir, að ef tollurinn ekki yrði látinn haldast, þá mundu verksmiðjurnar ekki geta haldið áfram starfsemi sinni. Ég býst þess vegna við, að þess verði ekki langt að biða, ef Alþingi veitir ekkert viðnám, að við sjáum enn framan í enn hærri kröfur frá hv. 6. landsk., forstjóranum frá Neskaupstað, um hækkun þessa tolls fram úr því, sem nú er, því honum þykir náttúrlega gott að koma að svo hlaupviðum dyrum hjá Alþingi sem raun hefir verið á. En jafnframt því, sem þeir lýsa yfir sínu ráðþroti, ef Alþingi leyfi þeim ekki að njóta þessara hlunninda, þá skorast þeir undan að birta rekstrarreikninga verksmiðjanna til þess að sanna þessa fullyrðingu, en telja, að hún muni ein duga til þess að sanna fyrir Alþingi, að tollurinn sé réttmætur. Þessi neitun þeirra um að leggja fram reikningsleg gögn er ekki nema eðlileg afleiðing af því, hve lítið þeir þurftu fyrir því að hafa að fá síðasta þing til að veita atvinnurekstri sínum þennan stuðning. Þau rök, sem þeir færa fyrir því, að rétt sé að styðja þennan iðnað með svo gífurlegum skatti á framleiðendur, eru, að fyrir hverja smálest af útflutta fiskmjöli fáist 250 kr. Nú er það vitað, að verksmiðjurnar kaupa beinin fyrir 100 kr. smálestina; mismunurinn er 150 kr., en engin skilgreining er fáanleg um það, hvert þeir peningar fara, hve mikið af þeim fer í vinnulaun og hve mikið rennur til eigenda verksmiðjanna sjálfra. Það væri þó náttúrlega mjög æskilegt að fá rökstuddar upplýsingar um þetta, sérstaklega þar sem svo til háttar, að þessi fyrirtæki eru að mestu leyti rekin fyrir erlent fé, sem eign erlendra manna. Út frá því, sem liggur fyrir, er ekkert hægt að áætla um það. hve mikið af þessum 150 kr. mundi fara til sjómannanna sjálfra, er löggjafarvaldið hefði ekki unnið það óhappaverk að skerða eign þeirra, eins og ég hefi tekið fram og nemur 1/3 af verði vörunnar. Hv. 6. landsk. vitnaði töluvert í það, að aðrir iðnrekendur í landinu, sérstaklega þeir, sem ynnu úr landbúnaðarvörum, nytu mikils stuðnings frá hinu opinbera, og hann gekk svo langt að vitna til l. frá síðasta Alþingi um sölu landbúnaðarafurða, kjötsölulaganna og mjólkursölulaganna. Ég veit nú ekki betur en að það sé svo komið, að bændur borgi sjálfir kostnaðinn við framkvæmd þeirra laga, kostnað við þær nefndir, sem annast sölu varanna, svo mér er ekki kunnugt um, að bændur njóti neins styrks eða stuðnings frá því opinbera í því efni vegna þessarar löggjafar. Ég ætla, að hv. 6. landsk. forstjóranum úr Neskaupstað, veitist næsta örðugt að sýna fram á það, að nokkur iðnrekstur í landinu njóti svipaðs styrks og fiskmjölsverksmiðjurnar njóta af þeim gífurlega skatti, sem sjómenn eru skattlagðir með. Ég vil benda honum á, hvernig d. tók í það að veita færa-, neta- og öngultaumagerð í landinu stuðning. Það var farið fram á, að lagður væri 5% verðskattur á innfluttar vörur af þessum tegundum, en d. fannst ekki fært að leggja slíkan skatt á fátæka sjómenn. Þetta var fellt hér í d., ég held með atkv. þessa hv. þm. Þegar þetta er nú borið saman við þann stuðning, sem fiskmjölsverksmiðjunum er veittur með skattinum á beinin, sem nemur þriðjungi verðs, þá held ég öllum megi vera ljóst, að þvílíkt djúp er staðfest milli þessara tegunda iðnaðarins, að enginn samanburður er mögulegur. Það er sýnt, að hér er farið svo langt út fyrir öll takmörk, að algerlega er brotið í bága við allar þinglegar skyldur gagnvart þessum framleiðendum og lofsamlegri viðleitni þeirra til þess að skapa aukin verðmæti og gjaldeyri fyrir þjóðina. Það er sýnt, að þingið getur ekki staðið við annað en rétta aftur þeirra hlut með því að samþ. till. minni hl. sjútvn. um að færa tollinn niður í 10 kr. á smálest, og hafa fiskmjölsverksmiðjurnar þá unnið mikið á, ef þær þurfa ekki að greiða nema venjulegt útflutningsgjald af fiskmjölinu. Og þá verða verksmiðjurnar algerlega skattfrjálsar, og það getur hv. 6. landsk. stutt með sínu atkv., ef hann vill. Hv. þm. sagði, að það væri ekki að sjá, að innlendu verksmiðjurnar stæðu öðrum að baki með að bjóða í og kaupa fiskbeinin, því þeim hefði á síðasta ári áskotnazt meira af þeirri vöru en öðrum, sem hana vilja kaupa. Ég drap á það áður, að þetta lægi í því, að verksmiðjurnar hefðu verið svo snemma í tíðinni með sin kaup og verið búnar að festa þau áður en hægt var að vita, hvert verða mundi hið raunverulega markaðsverð þegar varan yrði seld. Það lá mest í þessu, en það má hv. 6. landsk. vita, að ef framleiðendur væru ekki svo svínbeygðir af kúgun Alþingis, þá mundu þeir ekki láta verksmiðjurnar kúga sig eins aftur, heldur bíða hins venjulega sölutíma, þegar séð væri, hvert verða mundi samkeppnisverð vörunnar. Ég sé það hér í skjali frá fiskmjölsverksmiðjunum, að kvartað er ákaflega undan því, hve illa þær standi að vígi í samkeppni við norskar verksmiðjur, vegna hinna háu skatta til opinberra þarfa, sem verksmiðjurnar hér þurfi að greiða. Ég skal ekki véfengja, að eitthvað sé satt í þessu; það þekkja allir, að nú herðir hér mjög á öllum sköttum, en leiðin til þess að jafna þennan aðstöðumun milli erlendu og innlendu verksmiðjanna er ekki sú, að sækja mismuninn í vasa þeirra einna, sem framleiða vörurnar, heldur jafna því á heildina, því þess er ekki að vænta, að jafndugandi stétt og íslenzku fiskimennirnir láti til lengdar bjóða sér slíkt óréttlæti. Þess vegna má Alþingi vera það ljóst, að það eykur stórlega á gremju þeirra, ef það þverskallast og daufheyrist við réttlátum kröfum þessara manna.

Hv. 3.þm. Reykv., sem þykist víst vera búinn að inna af hendi Torfalögin fyrir Vestfirðinga hér, var að fara fram á það, að ég léti fram koma þau rök, sem forseti Fiskifél. hefir fram að bera gegn þessum tolli. Þessi hv. þm. er ekki hér staddur nú; hann er kannske einn af þeim, sem lokar sig inni á ráðstefnu í ráðherraherberginu og vilja ekki hlusta á, þegar verið er að bera fram kveinstafi fátækra sjómanna. Það var víst hv. 2. þm. Reykv. (Hv), sem lokaði herberginu. Hann kemur nú í dyrnar. Hann er einn af þeim, sem ekki þarf að hlusta á slíkt, slíkur burgeis sem hann er. Já, hann staðfestir það með því að loka aftur! Annars var það nú 3. þm. Reykv. (JakM), sem ég var að lýsa eftir. - hann kemur þarna. Ég ætla þá að láta hann heyra, hvað forseti Fiskifél. hefir að segja um tollinn. Hv. 6. landsk., sem situr þarna fyrir Norðfjarðarverksmiðjuna sína, hefir gott af að heyra það líka, hvað yfirmaður sjómannanna segir. Hann segir hér í bréfi sínu, þar sem hann talar um þetta 30 kr. gjald á smálest, sem sett var á síðasta þingi, að því hafi verið komið fram „fyrir harðfylgi fiskmjölsverksmiðja þeirra, sem fyrir voru í landinu“, og á hann þar vitanlega fyrst og fremst við hv. 6. landsk., sem varð til þess að flytja þetta harðræði gegn sjómönnum inn í þingið, þó hann fengi ekki að fullu kröfum sínum framgengt. Svo segir hann ennfremur, að mál þetta hafi verið samþ. án þess það „væri nægilega athugað með tilliti til þess, hverjar afleiðingar tollhækkun þessi hefði fyrir afkomu smáútvegsins, en frá smáútgerðinni kemur mest af þeim fiskbeinum, sem fiskmjöl er unnið úr hér á landi, eða flutt eru út óunnin, því stærri veiðiskipin hafa ekki svo nokkru nemi talið borga sig að safna slíkum úrgangi til þess að flytja hann til lands og láta þurrka hann þar.“

Þetta kemur þannig heim við það, sem ég hefi haldið hér fram og vitanlegt er, að það eru einungis smærri útvegsmennirnir, sem hér eiga sérstaklega hlut að máli, og má því segja, að Alþingi ríður ekki á garðinn þar, sem hann er hæstur; þykist það líklega geta haft í fullu tré við þessa smærri útvegsmenn og ekki þurfa að vanda mjög aðgerðir sínar, þegar þessir smælingjar þjóðfélagsins eiga í hlut. Það væri rétt fyrir hv. 6. landsk., sem telur sig sérstaklega málsvara þeirra, sem bera lægra hlut í þjóðfélaginu, að athuga, hverja hann er hér að skattleggja til framdráttar sinni og öðrum fiskmjölsverksmiðjum í landinu, sem sumar munu vera starfræktar hér fyrir erlendan höfuðstól, þannig að ágóðinn, ef einhver er, rennur beina leið út úr landinu til þeirra, sem lagt hafa fram fé í þessi fyrirtæki.

Forseti Fiskifél. viðurkennir fyllilega, að ef hægt sé að reka fiskmjölsverksmiðjurnar án þess að þær þurfi að vera byrði á framleiðendunum, þá beri vitanlega að fagna komu þeirra og áframhaldandi rekstri í landinu. En hann bendir jafnframt á, að það megi ekki ganga svo langt í því að skerða verðmæti fiskbeinanna, að hætta sé á, að menn kippi að sér hendinni með að hirða þau; gerir hann yfirleitt ráð fyrir, að svo frekleg skattálagning, sem hér er um að ræða, geti haft slíkar afleiðingar. Hann segir m. a. um þetta:

„Það veitir mjög mikla atvinnu í landinu að þurrka og verka beinin, ásamt flutningi þeirra frá aðgerðarstöðunum og þar til þau eru komin í verksmiðjurnar eða í flutningaskip þau, sem flytja þau út óunnin. Lækki verð á beinum frá því, sem verið hefir, hvort heldur er af of háu útflutningsgjaldi - sem raunverulega lendir á framleiðanda - (Hann er ekki í neinum vafa um það, forsetinn, hvar gjaldið lendir, að það lendir á framleiðendunum og engum öðrum.) „eða af því að samkeppnin um kaup á beinum minnkar, t. d. fyrir samtök innlendra verksmiðja,“ - það er að segja þegar búið er að hlaða svo undir þær, að þær geta útilokað samkeppni annarsstaðar að, en að því stefnir hv. 6. landsk., m. a. með því að fara svo freklega í kröfurnar eins og hann gerði með sínum 40 kr. skatti á smálest af útfluttum beinum, er hann bar fram till. um á síðasta þingi. - Þegar þannig er búið að útiloka samkeppnina segir Kristján Bergsson, forseti Fiskifélagsins, „gæti svo farið, að útgerðarmönnum þætti ekki borga sig að hirða beinin lengur, og töpuðust þá þau vinnulaun, sem verkun beinanna gefur í landinu, og auk þess sá hagnaður, sem útgerðin hefir haft af því, að hirða beinin og hún á engan hátt má við að missa eins og hag hennar er nú komið.“ Það er þessi bági hagur útgerðarinnar, sem forseti Fiskifél. vitanlega miðar við, þegar hann andmælir því, að Alþingi gangi svo freklega í að skattleggja þessa framleiðslugrein sjávarútvegsmanna. „Tollvernd þá, sem hér um ræðir, hefði eingöngu verið hægt að réttlæta, ef breyting þurru beinanna í fiskmjöl hefði veitt svo mikla atvinnu, að það hefði vegið upp á móti þessari fórn útgerðarinnar, en svo er ekki,“ segir forsetinn. „Mest vinnan liggur í þurrkun beinanna og flutningi á þeim, og er sú vinna jöfn í landinu, hvort beinin eru flutt út unnin eða óunnin, en þessi vinna mundi auðvitað minnka, eða jafnvel hverfa, ef útgerðarmönnum þætti ekki borga sig að hirða beinin, eða ekki nema nokkurn hluta þeirra, enda mundu verksmiðjurnar ekki vera betur settar þá, því þá mundi þær skorta hráefni til þess að vinna úr.“ - Þess vegna er líka vert fyrir þá menn, sem freklegast berjast fyrir, að hlaðið sé undir verksmiðjurnar á kostnað framleiðenda, að athuga það að ganga ekki svo langt í kröfum sínum, að það gangi út yfir þá sjálfa.

Svo segir forseti Fiskifél. að lokum: „Þegar vér svo jafnframt tökum tillit til hins mikla fjölda manna hér á landi, sem atvinnu hefir af fiskveiðum á smærri skipum, og þá hlutabót, sem þeir fá af þessum hluta afla síns, og athugum jafnframt fjárhagsafkomu þeirra manna, þá er það augljóst, að ekki nær nokkurri átt að íþyngja þeim til framdráttar þeim fáu mönnum, sem við verksmiðjurnar vinna, eða eigendum verksmiðjanna.“

Þetta eru þá niðurlagsorð forseta Fiskifél., jafnframt því að hann leggur til, að frv. þetta um niðurfelling beinaskattsins verði samþ. Það eru þannig ekki smáútvegsmennirnir einir, sem hv. 6. landsk. hefir á móti sér í þessu máli, heldur liggur hér fyrir skýrt og skorinort álit þess manns, sem sjávarútvegsmenn yfirleitt hafa valið til að veita forstöðu sínum allsherjarfélagsskap, og það kemur algerlega heim og saman við þær kröfur fiskimanna, sem felast í því frv., sem ég hefi flutt inn í þingið um þetta mál.

Það ætti svo í raun og veru ekki að vera þörf á að fara fleiri orðum um þetta mál, því ef menn vilja, eins og vænta verður í lengstu lög af öllum þorra hv. þm., líta eingöngu á þá sanngirni, sem felst í kröfu sjómanna um léttingu eða niðurfellingu þessa gífurlega skatts, sem er alveg sérstæður í íslenzkri löggjöf, þá ætti það við óhlutdræga athugun að nægja til þess að skattinum yrði gersamlega létt af, þó þeir, sem hlut eiga að máli, verði sennilega eftir atvikum að sætta sig við, að nokkur hluti hans haldist. Ég skal aðeins benda á það hér, að þegar athugað er, að það er ekki nema nokkur hluti útgerðarinnar, sem hér á hlut að máli, þá nemur þessi skattur allmiklu, miðað við framleiðsluna síðastl. ár. Hann nemur hvorki meira né minna en 246 þús. kr., eða nálega 1/4 millj. Ég sé, að hv. þm. hristir höfuðið. Þetta er miðað við, að öll beinin væru flutt út óunnin og byggt á þeim skýrslum, sem verksmiðjurnar gefa sjálfar. En ef beinin væru öll unnin í landinu, þá næmi skatturinn í ríkissjóð ekki nema 23 þús. kr. með 15/8% útflutningsgjaldi af fiskmjölinu. Ég dreg þetta fram til þess að sýna aðstöðumuninn milli verksmiðjanna annarsvegar, sem ekki þurfa að greiða nema 15/8% gjald af framleiðslu sinni, og hinna fátæku sjómanna hinsvegar, sem verða að borga 30 kr. af smálest af hráefninu, sem út er flutt, eða allt að því 1/3 af verði þess. Það kann að vera rétt að styðja fiskmjölsiðnaðinn eitthvað, en að fara svona langt í því efni og sækja stuðninginn niður í vasa tiltölulega fárra einstaklinga í landinu, það er svo dæmafátt ranglæti, að Alþingi er eigi sæmandi.

Ég hefi þá orðið við þeim tilmælum hv. 3. þm. Reykv. að koma fram með þau rök, sem forseti Fiskifél. færir fram fyrir þeirri eindregnu skoðun sinni, að þetta frv. eigi að samþ. En því miður held ég, að þetta hafi farið framhjá hv. þm., og get ég þá lánað honum skjalið til athugunar, að hvað miklu gagni sem það kemur nú; það sýnir endanleg afstaða hv. þm. við afgreiðslu málsins, sem ég óska, að fari fram að viðhöfðu nafnakalli. En ég segi þetta af því, að ég mun nú vera búinn að útenda minn ræðutíma og hefi því miður ekki aðstöðu til að taka til máls aftur nema fyrir stutta aths. Vænti ég, að hv. minni hl. sjútvn. haldi uppi fullkominni vörn fyrir þá réttlátu kröfu fiskimanna, sem hér er um að ræða, og að hv. d. leiðrétti þau slysalegu mistök, að meiri hl. sjútvn. varð til þess að leggjast á móti þessu máli, með því að samþ. frv.