02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (3600)

148. mál, útflutningsgjald

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er hvorttveggja, að tveir hv. síðustu ræðumenn hafa hnekkt töluverðu af þeirri blekkingafræði, sem hv. 6. landsk. var að reyna að bera hér fram, sér og sinni verksmiðju til framdráttar, enda verður þetta ekki nema örstutt aths. Það eru tvö atriði, sem hv. 6. landsk. minnti mig á, að ég hefði dregið undan úr skýrslu forseta Fiskifél. Ég þakka hv. þm. fyrir að minna mig á þetta, og mun því nota þessa stuttu aths. til þess að sýna, hvað megi út frá þeim staðreyndum draga.

Ef tollurinn yrði lækkaður, hlýtur að leiða af því, að innlendu verksmiðjurnar yrðu að hækka verðið, til þess að standast samkeppnina við Norðmenn. Hráefnin munu vafalaust hækka. Það er því rétt að athuga, hvaða aðstöðu fiskmjölsverksmiðjurnar hér á landi höfðu áður en tollurinn var lagður á, og hver aðstaða þeirra er nú.

Áður stóðust verksmiðjurnar samkeppnina við Norðmenn, þó þær greiddu jafnhátt útflutningsgjald af mjölinu. Samt voru þær færar um að keppa við Norðmenn, og ekki aðeins að þær greiddu jafnhátt verð fyrir hráefnin, heldur hærra stundum. En eftir að aðstaða verksmiðjanna hefir verið bætt, með því nálega að fella niður útflutningsgjaldið af mjölinu og setja 10 kr. útflutningsgjald á hvert tn. af beinum, til þess að létta verksmiðjunum samkeppnina við Norðmenn, þá kemur hv. 6. landsk. með frv. um að hækka tollinn úr 10 kr. og upp í 40 kr. Það er því rétt að bera saman hagsmuni þeirra, sem verið er að vinna fyrir. Áður stóðu verksmiðjurnar Norðmönnum á sporði, en nú segja hv. þm., að þær deyi hordauða, ef ekki sé lagður á ranglátur skattur þeim til framdráttar. Í sömu andránni segir hv. 6. landsk. ennfremur, að orðið hafi verðfall á afurðunum og tap á rekstrinum 1934. Þá gátu verksmiðjurnar mætt þessu með því að láta það ganga út yfir hagnaðinn. Hv. 3. landsk. hefir minnzt á þetta og sýnt fram á, hve óskaplegt ósamræmi var í tölulestri hv. 6. landsk., sem slítur einstakar tölur út úr samhengi, en þykist ekki geta nálgazt reikningana til þess að leggja fram, vegna fjarlægðar. En þm. mun ekki telja þá innlegg í málið, og þess vegna notar hann fjarlægðina sem skálkaskjól. Hv. 6. landsk. segir, að það kosti 25 kr. á tn. að flytja beinin milli f jarða á Austurlandi, en hér er ekki reiknað með nema 10 kr. kostnaði að flytja þau milli nesja. Ég vil því benda á, að hv. þm. telur flutningskostnaðinn 25 kr. á tn. og leggur það til grundvallar sínum útreikningum, en hann er sumstaðar 10 kr. og sumstaðar enginn. Það sýnir því ekki rétta niðurstöðu, þegar reikningarnir eru settir þannig upp. Ég sé, að hæstv. forseti er að gefa mér bendingu, en ég á margt eftir. En þessi málarekstur sýnir, hvert stefnir í þessum málum hér á landi. Hv. 6. landsk. hefir nú sýnt á sér rétthverfuna gagnvart sjómönnunum með þessum 40 kr. skatti. Áður hefir hann þótzt bera þá á höndum sér, með útbreiddan faðminn og allt viljað fyrir þá gera, en þarna fyrst kemur rétthverfan fram. Ég verð því að segja, í tilefni af því, að þessi till. er hans fyrsta verk hér á þingi fyrir sjómennina, að „ill var þín fyrsta ganga“.

Það er þegar búið að hrekja þá regluvitleysu, sem haldið hefir verið fram, að framleiðendurnir borguðu ekki tollinn. En þetta er vitanlega ekki annað en verndartollur, sem leiðir það af sér, að annar kaupandinn greiðir 100 kr., en hinn 130 kr. fyrir tn., og þó selja báðir á sömu markaði. Hv. 6. landsk. krossaði sig fyrir því, að þetta væri verndartollur eða að framleiðendurnir þyrftu að borga hann, og var helzt á honum að skilja, að enginn mundi finna til hans. Kom það einnig fram hjá hv. þm., að hann er ekki að bera hag sjómannanna fyrir brjósti, því honum var ekki nóg að leggja 30 kr. útflutningstoll á hvert tn. af beinunum, heldur vildi hann banna útflutninginn, til þess að tryggja sína stofnun, hvort sem sjómennirnir fá nokkuð fyrir beinin eða ekki.

Ég á margt fleira eftir, sem ég vildi segja, en ég sé, að hæstv. forseti er farinn að gefa mér bendingu, og bið ég hann velvirðingar. Ég vil að lokum benda á, að hér er annar verksmiðjuiðnaður, þar sem er lýsisbræðslan, sem engra verndartolla hefir notið, og þó gengið svo vel, að nú er að mestu hætt að flytja lýsið út óunnið. Ég vil sérstaklega benda á þetta sem alveg hliðstætt dæmi, þar sem keppa þarf á sömu mörkuðum.