02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (3606)

148. mál, útflutningsgjald

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég ætla þá að leyfa mér að byrja á því að mótmæla þessum staðhæfingum hv. 3. þm. Reykv., þó að hann standi hér upp og segi, að flutningskostnaður á þessari vöru sé minni héðan frá höfnum til Noregs heldur en á milli hafna hér. Rök hans byggðust ekki á öðru en því, sem hann heyrði hv. 6. landsk. segja um þetta. Vitanlega hefir hann aldrei heyrt þetta fyrr. Hvaðan hefir hv. 3. þm. Reykv. það líka, að ekki nema 2 firmu erlend kaupi þessa vöru af okkur? Hv. 3. þm. Reykv. veit jafnlítið um það atriði og ég. (JakbM: Fáir vita þó jafnlítið um þetta og hv. 8. landsk.).

Það má vitanlega um það deila, hvort hægt sé að tala um heimsmarkaðsverð á þessari vöru. En hvort sem almennt markaðsverð er kallað heimsmarkaðsverð eða hvað annað, þá kemur það fram við það, að útlendir og innlendir kaupendur hafi jafna aðstöðu til að bjóða í vöruna.

Hv. 6. landsk. sagði, að tollurinn væri hafður á þessari vöru til að varna því, að ísl. verksmiðjurnar yrðu yfirboðnar í samkeppni um kaup á þessari vöru. Verður tollurinn þá ekki í raun og veru einnig til þess að varna því, að hið raunverulega verð, sem án hans væri hægt að fá í útlöndum fyrir beinin, komi fram? Jú, auðvitað. Þetta leiðir svo það af sér, að íslenzkir framleiðendur borga raunverulega þennan toll. Þess vegna, þegar með l. eru með þessum tolli settar hömlur við því, að raunverulegt markaðsverð, þ. e. a. s. það, sem. útlendu verksmiðjurnar borga til þess að geta fengið vöruna - þegar hömlur eru settar við því að framleiðendur geti fengið allt markaðsverðið, þá kemur tollurinn niður á framleiðendunum. Og þannig, með tollinum, verður þá verðið 30 kr. lægra fyrir tonnið til framleiðendanna heldur en það mundi vera án tollsins.

Ég man nú ekki orðrétt það, sem hv. 3. þm. Reykv. hafði eftir mér um, að það væri útilokað, að Norðmenn borguðu hærra verð fyrir beinin heldur en innlendu verksmiðjurnar. En mér virðist það ekki óeðlilegt, að Norðmenn notuðu eitthvað af þeim 30 kr., sem þeir nú borga í toll fyrir hvert tonn af þessari vöru, til þess að tryggja sér vöruna, og við það mundi vitanlega hækka það verð, sem framleiðendur fengju fyrir vöruna.

Ef hv. þm. vill skýra frá minni afstöðu til þessa máls, þá er það skylda hans að gera það hlutdrægnislaust.