09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (3620)

180. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki deila við hv. 1. þm. Eyf. um afgreiðslu hv. Nd. á málum þingsins yfirleitt. En mér virðist stundum farið óþarflega langt í því að telja ósamræmi í því, ef mál líta líkt út á yfirborðinu, þó að þau séu afgr. sitt með hverjum hætti. Það er náttúrlega munur á því, hvort Vestmannaeyjar fá heimild til að leggja á vörugjald hjá sér eða t. d. Akureyri og Reykjavík. (BSt: En Siglufjörður?). Ég játa, að á Siglufirði eru miklu svipaðri staðhættir og í Vestmannaeyjum heldur en í Reykjavík og á Akureyri.

Það má ekki eingöngu dæma þetta frv. eftir ytra útliti. Mér virðist eðlilegt, að þessi mál öll verði rannsökuð, tekjuöflunarmöguleikar bæjar- og sveitarfélaga, og að niðurstaða þeirra rannsókna verði lögð sem frv. til heildarlöggjafar um þessi mál fyrir Alþ. Með því út af fyrir sig, að Alþ. samþ. ályktun til stj. um undirbúning málsins fyrir næsta þing, er það þó ekki vitað, hvort það muni takast fyrir því. Þingið vill, að þetta mál verði rannsakað sem fyrst og vill leyfa stj. að glíma við það. En slíkt er þó engin sönnun fyrir því, að mál þetta verði afgr. á næsta þingi.

Mér virtist hv. frsm. meiri hl. snúa út úr því, sem ég sagði um það, hvað þetta mál væri einfalt. Ég dró það skýrt fram, að þetta mál væri alls ekki einfalt, ef ætti að taka gjöld af ríkisstofnunum með almennum sköttum fyrir bæjar- og sveitarfélög, því að þá þyrfti til þess mikla útreikninga. Ég tók það einmitt fram, að málið væri margbrotið með þeim hætti. En sú breyt., sem ég fer fram á í frv. mínu, hún er ákaflega einföld, því að hún fer fram á það aðeins, að í staðinn fyrir, að í l. er nú, að verzlanir ríkisins greiði í stað venjulegs aukaútsvars ákveðið gjald til bæjarsjóða, er nemi 5% af hreinum ágóða, komi það ákvæði í l., að þessar verzlanir greiði 10% í stað 5% o. s. frv. Þetta er ákaflega einfalt mál. Í mínu frv. er ekkert farið inn á flóknar leiðir í þessu máli. Það er því hægt fyrir hv. þm. að taka þá ákvörðun að samþ. þetta frv., alveg án þess að ganga með því að nokkru leyti inn á svið þess máls, sem stj. hefir verið falið að rannsaka og undirbúa löggjöf um fyrir næsta þing.