21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

1. mál, fjárlög 1936

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 890,912 og 929. Sú fyrsta af þessum till. er við 14. gr. og er á þskj. 890, XXlV. Hún er um 5000 kr. styrk, og 3500 kr. til vara, til ólympíunefndar Íslands, til þess að íslenzkum íþróttamönnum verði unnt að taka þátt í ólympíuleikunum í Berlín á næsta ári. Um þetta hefir legið fyrir fjvn. erindi frá ólympíunefndinni, en af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum hefir hún ekki séð sér fært að taka það til greina. Það er um þetta að segja, að það er enginn vafi á því, að hér er um alveg óvenjulegt tækifæri að ræða fyrir íslenzkt íþróttalíf, ekki aðeins tækifæri til þátttöku í ólympíuleikunum, heldur alveg óvenjulegrar þátttöku. Forstöðunefnd leikanna í Berlín hefir nefnilega boðið öllum þjóðum, sem taka einhvern þátt í leikunum, að senda tvo 30 manna flokka íþróttamannsefna og íþróttakennara til þess að vera viðstadda leikana og læra af þeim. Þessir 60 menn eiga kost á því, að forstöðunefndin taki á móti þeim í þeim hafnarbæ, sem þeir koma fyrst til í Þýzkalandi, og kosti þá að öllu leyti, bæði ferðirnar til Berlínar fram og til baka og dvölina þar. En það, sem þarf til þess; að geta notið þessa boðs, er einhver þátttaka í leikunum af þjóðarinnar hálfu. Nú er það að vísu svo, að margir efast um, að Íslendingar séu komnir svo langt í íþróttum, að þeir geti tekið þátt í þeirri heimsstefnu íþróttamanna, sem hér er um að ræða, án þess að þjóðinni verði meiri vansi að en svo, að til þess sé stofnandi. En þeir íþróttamenn, sem þessu máli eru kunnugastir, telja, að það sé ekki vafi á því, að Íslendingar geti tekið þátt í a. m. k. tveimur íþróttagreinum á þann hátt, að þjóðinni verði áreiðanlega enginn vansæmd að. En það mundi nægja til þess, að við gætum notið þess kostaboðs að fá að senda að mestu leyti ókeypis tvo 30 manna flokka til þess að vera viðstadda leikana og kynna sér þannig íþróttaafrek annara þjóða, þeirra sem lengst eru komnar á því sviði. Ég skal taka það fram, að samskonar boð er gert öllum þjóðum, sem þátt taka í leikunum, og það er nú orðið kunnugt, að Englendingar, Frakkar og Belgir, sem eru eins og menn vita engir aðdáendur núv. stjórnarfars í Þýzkalandi, hafa tekið boðinu og ætla að senda þessa flokka til leikanna. Það er líka kunnugt, að einn af helztu mönnum þessarar starfsemi — ég held mér hafi verið sagt, að hann væri formaður í einhverri allsherjar ólympíunefnd —, sem er belgískur, hefir farið til Berlínar sérstaklega þeirra erinda að kynna sér allan undirbúning leikanna og þar að lútandi starfsemi, og hann fullyrðir, að það muni alls ekki koma til þess, að hugsað sé til að nota þessa íþróttamannastefnu á nokkurn hátt í pólitísku skyni. Ég tek þetta fram af því, að ég og aðrir hafa orðið varir við mikla andúð gegn einmitt þessari íþróttastefnu í Berlín af þeim sökum, að Þjóðverjar myndu ætla að nota hana í einhvern hátt sem pólitíska agitation. En þessi belgíski trúnaðarmaður fullvissar íþróttamenn í öllum löndum um það, að fyrir þessu sé ekki hinn minnsti flugufótur.

Hvað kostnaðarhliðina snertir, þá er sú upphæð sem hér er farið fram á, a. m. k. sú , sem farið er fram á til vara, ekki það há, að hún geti nokkru varðað ríkissjóð. Það, sem hinsvegar er einkum haft á móti slíkum styrkjum, sem hafa utanfarir í för með sér, er það, að af þeim leiði eyðsla erlends gjaldeyris, sem þjóðin megi ekki við. Ég vil því benda á, að utanför þeirra 60 manna, er ég talaði um, er alveg ókeypis að því leyti, er tekur til erlends gjaldeyris. Þeir mundu fara með íslenzkum skipum til Hamborgar og þaðan heim aftur; það kostar engan erlendan gjaldeyri, og í Þýzkalandi yrðu þeir kostaðir að öllu leyti. Það eru því aðeins þátttakendur í leikunum, sem mundu þurfa á erlendum gjaldeyri að halda. Það yrðu samtals 3 —5 menn, sem tækju þátt í þessum tveim íþróttagreinum, svo dvalarkostnaður þeirra í Þýzkalandi mundi ekki geta numið mikilli upphæð. Ég veit, að allir stjórnmálaflokkarnir viðurkenna, að það sé ákaflega mikilsvert að efla íþróttirnar í landinu. Hinsvegar er augljóst, hvað slík kynning, sem hér er um að ræða að afla íslenzkum íþróttamönnum af heimsíþróttunum, getur haft ákaflega mikla þýðingu fyrir þróun íþróttalífsins í landinu. Og þar sem hér er um svo einstakt tækifæri að ræða, að ég er viss um, að íþróttamönnum gefst ekki kostur á öðru eins í náinni framtíð, þá tel ég það sjálfsagða skyldu Alþingis að styðja ólympíunefndina í því að geta tekið þessu kostaboði. — Ég lofaði hæstv. forseta að reyna að stytta mál mitt, og skal því ekki fara fleiri orðum um þessa till.

Þá er önnur till., sem er á sama þskj. undir næsta rómv. lið, um 2000 kr. styrk til Einars Markans söngvara, en hann sækir um þennan styrk, eða raunar nokkru meiri, í því skyni að fara utan og kynna íslenzka hljómlistarstarfsemi og sérstaklega íslenzka lagasmíð. Með umsókn sinni hefir hann sent hinu háa Alþingi meðmæli allra helztu kompónista landsins, og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þau hér upp.

„Við undirritaðir mælum fastlega með því, að hið hattvirta Alþingi veiti herra Einari Markan söngvara styrk til að halda söngskemmtanir víðsvegar á Norðurlöndum, sem eingöngu verða helgaðar íslenzkri tónlist.

Slíkar söngskemmtanir geta haft ómetanlegt gildi fyrir okkar fámennu þjóð.

Reykjavík, febrúar 1935.

Árni Thorsteinsson (sign). Emil Thoroddsen (sign). Páll Ísólfsson (sign). F. h. Markúsar heitins Kristjánssonar, Jóhanna Gestsdóttir (sign). Sigvaldi Kaldalóns (sign). Jónas Þorbergsson (sign). Karl O. Runólfsson (sign).

Jónas Þorbergsson mun að vísu ekki skrifa þarna undir sem kompónisti, heldur sem útvarpsstjóri og í nafni sinnar stofnunar, sem mjög snertir alla söngmennt í landinu. Mér er kunnugt, að hann mun eitthvað fást við sönglagasmiði, en ég hygg, að hann komi þó ekki þarna fram undir því merki.

Það er tilgangur Einars að halda söngskemmtanir víðsvegar um Norðurlönd og syngja þar eingöngu lög eftir íslenzka kompónista. Á þann hátt er ætlazt til, að nágrannaþjóðirnar fái sem nánust kynni af því, hvað Íslendingar geta í þessari íþrótt, og að íslenzkar tónsmiðar fái meiri aðgang að þessum þjóðum en verið hefir; að þær fái þannig meiri kynni af íslenzkri listastarfsemi og réttari hugmynd um hana.

Þá er á þskj. 929, II. till. um að veita Eggert Guðmundssyni 1200 kr., eða til vara 1000 kr. Ég veit, að allir landsmenn kannast við þennan unga og efnilega málara, og Alþingi hefir margsinnis sýnt, að það vill styðja íslenzka málaralist, með því að styrkja góða málara og efnileg málaraefni. Í till. fjvn. er tekinn upp einn slíkur styrkur til hins ágæta listamanns Gunnlaugs Blöndals, og þykir mér vænt um það. En Eggert Guðmundsson er einmitt að mörgu leyti sambærilegur við þennan ágæta málara, Gunnlaugur Blöndal. Báðir hafa starfað mikið erlendis, þó Gunnlaugur sé nokkuð eldri og eigi því lengri feril að baki sér. Það er tiltölulega stutt síðan Eggert átti kost á því að fara utan, m. a. af því Alþingi hefir ekki áður þóknazt að veita honum slíkum styrk. Ég hefi áður flutt till. um, að honum yrði veittur styrkur, en af einhverjum ástæðum náði það ekki fram að ganga. Þá var maðurinn reyndar lítt kunnur og á byrjunarskeiði, en hann hefir haldið áfram að brjótast fram og hefir getið sér góðan orðstír, sem sannast með því, að honum hefir oftar en einn sinni verið gefinn kostur á að halda sýningu á ýmsum stöðum erlendis, m. a. í London. Ég hefi hér í höndum blaðaummæli um þessar sýningar hans. Þau eru í íslenzkri þýðingu, en þó ætla ég ekki að tefja tímann með því að lesa þau upp. En blöðin eru sjálf „Times“ í London og aðalblaðið í Skotlandi, „The Scotchman“. Þessi ummæli eru lofsamleg, og er ekki vafi á því, að það væri Alþingi til sóma að styrkja þennan efnilega listamann. Ég hefi heyrt þau andmæli gegn þessu, að hann sé vel á veg kominn, þar sem hann hafi komizt svo langt að hafa haldið sýningar erlendis og selt nokkuð af málverkum, en þó er enginn vafi á því, að hann á erfitt uppdráttar, eins og flestir listamenn nú á tímum. Hann er sem sé bláfátækur, og faðir hans varð nýlega fyrir því óhappi að missa allar eigur sínar. — Hér er ekki gert ráð fyrir því, að þetta verði framhaldandi styrkur. Hér er aðeins farið fram á styrk á þessu ári til þessa efnilega listamanns, sem líklegur er til að gera garðinn frægan erlendis fremur en líklega flestir aðrir.

Þá á ég á þskj. 912 brtt. við 13. gr., um að hækka styrkinn til Guðríðar Helgadóttur, ekkju séra Jóhannesar L. L. Jóhannssonar, úr 132 kr. í 282 kr. virðist þetta, sem í fjárlfrv. er ákveðið, vera óvenjulág ekkjulaun, og mun það stafa af því, að maður hennar lét af prestsskap síðustu árin, en starfaði þó í þjónustu ríkisins síðasta hluta æfi sinnar. En af þessu hafa eftirlaun hennar orðið rýrari en margra annara. hér er aðeins farið fram á 150 kr. hækkun, og verður þó hlutur hennar talsvert rýrari en flestra annara í fjárl.

Ég hefi þá lokið við að tala um brtt. þær, sem ég hefi borið fram við fjárl. Þó verð ég að níðast á góðvild hæstv. forseta út af tveim öðrum till., sem önnur er borin fram af meiri hl. fjvn., en hin af hv. þm. S.-Þ.

Till. frá meiri hl. fjvn. er á þskj. 909 og er um það, að fjárveiting til kvennaskólans sé áætluð 2/5 af rekstrarkostnaði hans, og greiðist því aðeins öll, eða nokkur hluti hennar, að á móti komi 3/5 frá Reykjavíkurbæ. Vil ég mælast til þess við hv. n., að hún taki hana aftur.

Hin till., frá hv. þm. S.-Þ., er á þskj. 934 og fer fram a, að ríkisstj. sé heimilað að leigja eða selja skipin Óðin, Þór og Hermóð. við hana er viðaukatill. frá hv. þm. Borgf. við þessa till. hefi ég það að athuga, að mér virðist varla geta komið til mála, að hún verði borin undir atkv. Þetta er í fyrsta skipti sem hún er lögð fyrir Alþingi. Frv., sem m. a. fól það í sér, að þessi skip skyldu seld, fór hér milli deilda, en var fellt í Nd.

8. gr. þingskapanna mælir svo fyrir: „Lagafrumvörp, er önnurhvor deildin hefir fellt, má eigi bera upp aftur á sama þingi“.

Nú þykist ég vita, að svarað verði, að þessi gr. eigi aðeins við lagafrv. En það er auðsætt, að undir sama ákvæði falla allar till., ályktanir og ályktunarefni Alþingis, sem eiga að öðlast lagagildi. Í þessari till. hv. þm. S.-Þ. er farið fram á, Alþingi geri ályktun, sem fá eigi lagagildi. Hún hlýtur því að heyra undir þessa gr. þingskapa. Þess vegna er óheimilt að bera málið fram á ný, því að búið er að fella það áður. Það nær engri átt að hengja sig í það, að í gr. er talað um lagafrv., því að það er ekki formið, heldur efnið, sem hefir aðalþýðinguna í þessu sambandi. Þar að auki segir 35. gr. stjskr., að eigi megi selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra, nema samkvæmt lagaheimild.

Hér er að vísu ekki um fasteign að ræða í venjulegum skilningi, en að miklu leyti gildir það sama um fasteignir og skip. Og þegar heimtuð er lagaheimild, nægir ekki samþykkt í sambandi við fjárl. Það er margviðurkennt, að fjárl.ákvæði geta ekki haft sama gildi og lagaheimild.

Þetta, sem ber er að ske, sýnir, að það er hugsanlegur möguleiki, að hægt sé að koma því fram á Alþingi sem ákvæðum í sambandi við fjárl., sem ekki hefði komizt fram með venjulegri lagaheimild. En það er ekki hægt, þar sem málið hefir verið fellt hér í annari d. því er ekki heimilt að leggja þetta mál fyrir Sþ.