01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3631)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sigurður Kristjánsson:

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég hefði sagzt hafa komið með frv. í fisksölunefndinni, en það er misskilningur; ég sagðist aðeins hafa hreyft þessu máli fyrir löngu í fisksölunefndinni og kom með það í tillöguformi. Það var kjarni málsins, að ég fór fram á, að n., sem samkv. sinni stöðu er skyldug til þess að vera á verði um hagsmunamál útgerðarinnar, sendi Alþingi beiðni um þetta, og mér var kunnugt um, að það var skoðun margra, að það væri sanngjarnt. En síðan lagði ég það fram í frumvarpsformi í sjútvn., í þeim tilgangi, að n. tæki það að sér fyrst og fremst að ræða það við atvmrh. og síðan að flytja málið.

Ég get skýrt frá því jafnframt, að á næsta fundi n. kom fram frv. frá meiri hl. sjútvn., þeim nm., sem eru stuðningsmenn hæstv. stj., einmitt í þá átt, sem hæstv. atvmrh. gat um og er nokkuð annað mál. Það fer saman í þessum frv., að bæði vilja létta þessu gjaldi af sjávarútveginum.

Ég skal ekki segja um það, hvort stj. hefir fyrir löngu hugsað sér að gera þetta, en ekki varð ég var við, að hún hreyfði þessu máli fyrr en ég var búinn að leggja frv. fram. Það má vel vera, að hún fari svo vel með vilja sinn að létta þessu gjaldi af, en ef það á að fylgja, að ekki á að sjá á neinn annan hátt fyrir því, að markaðs- og verðjöfnunarsjóður geti starfað í þágu útvegsins á þann hátt, sem ætlazt er til, þá skilst mér, að þessi gjöf, sem stj. ætlar að rétta sjávarútveginum, sé heldur innantóm.