01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (3633)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Finnur Jónsson:

Það er aðeins stutt aths. við ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hv. þm. sagði, að ef það ætti að fylgja afnámi gjaldsins í markaðs- og verðjöfnunarsjóð, að ekki yrði gert það, sem átti að gera fyrir sjávarútveginn með markaðs- og verðjöfnunarsjóði, þá teldi hann þessa gjöf lítils virði. Nú vil ég spyrja þennan hv. þm.: Er honum svo fast í hendi að halda áfram að framkvæma allt það, sem átti að gera með fé úr markaðs- og verðjöfnunarsjóði, að hann endilega vilji leggja þann skatt á landsmenn yfirleitt, og þannig að halda áfram öllu því, sem átti að nota markaðs- og verðjöfnunarsjóð til? Harmar hann, að þær ástæður, er voru fyrir hendi, eru nú orðnar það breyttar, að ástæða er til að koma fram með það frv., sem hér liggur fyrir? - Í öðru lagi er ástæða til að benda á, að í 13. gr. l. um fiskimálanefnd er gert ráð fyrir, að ríkisstj. veiti einstökum mönnum eða félögum lán eða styrk til þess að koma upp tækjum til að verka fisk með nýjum aðferðum, og ennfremur að gera tilraunir um útflutning á nýja markaði. Fiskimálan. á að sjá um þetta, og til þessara framkvæmda var stj. veitt 1 millj. kr. lántökuheimild á síðasta þingi. Af þessu fé mun vera óeydd talsvert mikil fúlga, og efast ég ekki um, að hæstv. ríkisstj. muni verja því, sem óeytt er af fénu, í þessum tilgangi, og meðan svo er, er ekki ástæða til að bera stj. á brýn, að hún sjái ekki að verulegu leyti fyrir þessari þörf sjávarútvegsins, hvað sem liður markaðs- og verðjöfnunarsjóðnum. En ástæða væri til að segja, að ekki væri nema sjálfsagt, að sjávarútvegurinn legði eitthvað á móti, og þá gætum við athugað, hvort halda bæri einhverjum hluta af þessu háa gjaldi, sem allir þingflokkar voru sammála um að leggja á sjávarútveginn á síðasta þingi.