01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (3634)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Flm. (Ólafur Thors):

Ég segi eins og hæstv. fjmrh., að ég geri ekki að neinu kappsmáli, í hvaða n. málið fer, en mér finnst réttara, að það fari til sjútvn.

Mér finnst, að umr. um þetta mál snúist að allmiklu leyti um annað mál, og sannast að segja hafa þær verið nokkuð skringilegar. Það er þinginu til háðungar, að maður, sem er kallaður form. sjútvn., skuli leyfa hér að halda því fram, að engu máli skipti, hvort leyst sé sú þörf sjávarútvegsins, sem þó af öllum löggjöfunum hefir verið talin svo rík, að tilvinnandi hefir þótt að leggja okurgjald á sjávarútveginn í því skyni, að henni yrði fullnægt.

Að öðru leyti er sú þræta, sem hér fer fram, ástæðulaus og gagnslaus. Það hefir komið fram yfirlýsing frá hæstv. atvmrh., að stjórnarfl. séu búnir að ákveða fyrir sitt leyti að létta þessu gjaldi af sjávarafurðunum. Það er og upplýst, að Sjálfstfl. er þeirrar sömu skoðunar, og það er upplýst af hæstv. atvmrh., að honum hefir verið kunnugt frá þingbyrjun, að Sjálfstæðisfl. vill þetta, og það er viðurkennt af mér, að mér hefir verið kunnugt um, að hæstv. atvmrh. hefir haft sömu tilhneigingu til að létta þessum skatti af. Samtalið milli okkar hefir eingöngu snúizt um það, hvort kleift þætti að gera þetta. Nú lýsti hann því yfir, að hans flokkur teldi það kleift, og ég lýsti yfir, að Sjálfstfl. teldi það kleift. Mér er því ekki ljóst, hvers vegna er verið að rífast. Legg ég því til, að deilur falli niður, en menn sameinist í ánægju yfir því, að þessum þungbæra skatti verður af létt.