01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (3635)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sigurður Kristjánsson:

Það er aðeins örstutt svar við þeirri spurningu, sem hv. þm. Ísaf. kom með. Mér fannst hún nú eiginlega ekki koma þessu máli neitt við. - Hann spurði að því, hvort ég væri ákafur með því, að það væri borgað, sem lög um markaðs- og verðjöfnunarsjóð gera ráð fyrir, og hvort ég harmaði, að þörfin væri nú ekki fyrir hendi.

Það er held ég það fyrsta, að þessi hv. þm. viti, hvað það er, sem þurfti að borga. Það stendur í lögunum, hvað eigi að gera við sjóðinn, að það eigi með honum að tryggja og rýmka markaði fyrir saltfisk og að verja honum til verðjöfnunar á fiski. Ég get svarað þessum hv. þm. strax. Ég er áfram um, að þetta sé gert að markaðurinn sé rýmkaður og tryggður og viðhaldið og menn fái verðjöfnunaruppbætur, þegar ekki er hægt að láta eitt yfir alla ganga um sölu fiskjarins. Mér er ekki kunnugt um, að þessi hv. þm., sem er athafnamikill maður, sé búinn að gera neitt til þess að létta af þörfinni fyrir markaði fyrir sjávarafurðir. Hitt skyldi ég ekki harma, ef það væri gert á þann hátt, að nægir markaðir væru fyrir hendi. Það er áreiðanlegt, að bæði ég og aðrir, sem eitthvað hugsa um sjávarútveginn, vilja láta eitthvað af mörkum til þess að tryggja þá markaði, sem fyrir eru, og rýmka þá, en ég álít aðeins ekki rétt að líta á málið svo sem það sé hagur útgerðarmanna einna, sem er hagur landsmanna allra.