19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (3644)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Í ræðu, sem hv. 6. þm. Reykv. hélt í gær um þetta mál, tók ég eftir því, að hann sagði, að ríkisstj. væri grunuð um ótrúmennsku gagnvart sjávarútveginum, og ennfremur, að ýmsir menn í stjórnarflokkunum væru grunaðir um að spilla saltfisksmarkaðinum. Fyrir þessu færði hann engin rök, og eru þetta aðeins stóryrði, sem ég get látið mér nægja að vísa á bug. Það er kunnugt, að ríkisstj. hefir gert allt og mun gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að tryggja saltfisksmarkaðinn. Það er kunnugt, að um þetta standa stjórnarflokkarnir saman báðir sem einn, og þessi gífuryrði hv. 6. þm. Reykv. eru ekki annað en tilhæfulaus ósannindi, sem ég vildi ekki láta ómótmælt.