20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (3646)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Finnur Jónsson:

Það er nokkuð langt liðið síðan þetta mál var hér til umr. síðast, og var ýmislegt í ræðum hv. minni hl. sjútvn., sem ég gjarnan hefði viljað svara, en skal ekki fara ýtarlega út í nú. Ég hefi áður í umr. um annað mál hér í d. bent á, þegar talað hefir verið um, að ekkert samræmi væri í því að greiða útflutningsgjald af sjávarafurðum, en fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, að á sama ári og fellt var niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum var lækkað útflutningsgjald af síld, sem mun hafa numið í venjulegu árferði fullkomlega eins miklu og því útflutningsgjaldi, sem fellt var niður af landbúnaðarafurðum. Ég skal fúslega viðurkenna, að það væri ákaflega gott fyrir sjávarútveginn, ef Alþingi sæi fært að fella þetta gjald niður, en ennþá hefir hvorki ríkisstj.fjvn. treyst sér til að leggja fram neina till. í því efni. Það hefir verið bent á, að mikil nauðsyn væri á að leggja þetta gjald niður vegna þess, að útflutningur á saltfiski til ýmissa landa væri nú orðinn mjög takmarkaður og mundi jafnvel stöðvast. En ef spár þeirra, sem verst spá í þessu efni, kunna að rætast, þá er það áreiðanlegt, að niðurfelling þessa útflutningsgjalds eitt saman getur ekki bjargað fiskútgerðinni frá því hruni, sem yfir henni vofir. Það, sem þess vegna þarf að gera í þessum málum, er það, sem ríkisstj. hefir nú með höndum, sem sé að reyna að koma á sem allra hagkvæmustum samningum við erlend ríki um innflutning á saltfiski, og ennfremur að bæta og breyta verkunaraðferðunum þannig, að líkur séu til, að hægt sé að selja fisk í öðru ástandi en sem saltfisk. Í þessu efni hafa verið gerðar mjög víðtækar ráðstafanir af hálfu Alþingis, en segja má, að þær hafi verið gerðar nokkuð seint, en það var ekki á valdi núv. Alþingis eða núv. stj. að gera þær ráðstafanir svo snemma sem þurft hefði með.

Það var gerð krafa um það frá hv. þm. Vestm. til meiri hl. sjútvn., að honum bæri sérstaklega skylda til að sjá hag sjávarútvegsins borgið. Það er vissulega satt, en sú sama skylda hvílir á öllum þingheimi. Og þar sem hv. fjvn. einum rómi, og þar á meðal einn af flm. þess frv., sem hér liggur fyrir, hefir í till. sínum við frv. til fjárlaga fyrir árið 1936 áætlað tekjur af þessu útflutningsgjaldi 700000 kr., og engin brtt. hefir komið við þessa till. frá hv. þm., og þessi gr. fjárlfrv. samþ. alveg einróma, eftir því sem ég bezt veit, þá lítur út fyrir, að menn hafi álitið, að ríkissjóður mætti ekki missa þær tekjur, sem útflutningsgjaldið getur veitt honum. Áskorunum þeim, sem hv. þm. Vestm. beindi til okkar í meiri hl. sjútvn., ætti hann þess vegna heldur að beina til þingheims yfirleitt, sem hefir gert ráð fyrir, að útflutningsgjaldið héldist á næsta ári, og þar á meðal til sinna flokksmanna í fjvn., og þó sérstaklega þess manns úr fjvn.. sem er meðflm. hans að þessu frv. (hv. þm. Borgf.).

Ég hefi orðið var við, að hv. minni hl. sjútvn. ber hér fram í þessari d. frv., sem ekki virðist, að þeir hafi sérstakan áhuga fyrir að koma í framkvæmd. Ég vil geta þess með þetta frv., að það var afgr. frá sjútvn. 16. nóv., en minni hl. skilaði nál. fyrst 9 dögum seinna. Það ber ekki vott um, að þeir hafi álitið, að það hefði þann byr í þessari d., að þeir teldu þörf á að hraða afgreiðslu þess af þeim orsökum.

Annað mál var einnig afgr. frá sjútvn., sem minnihl.menn studdu og voru flm. fyrir. Það var frv. um markaðssjóð saltfisks. Það mál var afgr. í sjútvn. 9. nóv. Nál. hefir ekki komið enn þann dag í dag frá minni hl. sjútvn. Af þessu má sjá, að þau mál, sem þessi minni hl. ber fram í þessari d., eru meira flutt til að sýnast heldur en af því, að minni hl. geri sér von um, að þau muni komast fram, eða hafi verulegan áhuga fyrir að koma þeim fram. Ég vil láta þessa sérstaklega getið, af því að það var deilt hér á hæstv. forseta fyrir nokkru fyrir það, að þetta frv. hefði ekki verið hér til umr. í d. fyrr en raun hefir á orðið.

Þar sem mjög er liðið á þingtímann og ekki sýnilegt, að flm. frv., ekki einu sinni sá, sem á sæti í fjvn., ætli að gera neina till. um að fella þennan lið niður úr fjárlagafrv., þá leyfi ég mér ásamt hv. 3. landsk. og hv. þm. N.-Þ. að bera fram rökst. dagskrá, sem ég óska, að hæstv. forseti beri undir atkv.umr. lokinni.