20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (3649)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Mér þykir leitt, að hæstv. atvmrh. er ekki viðstaddur, því að ég kvaddi mér hljóðs eingöngu vegna þeirra fáu orða, sem hann sagði hér. Það má vel vera, að hann hirði ekkert um að svara þessu neinu, því að það mátti heita, að hann sæist ekki hér í hv. d., þegar fyrri hl. umr. fór fram; hæstv. ráðh. kom hér rétt inn í dyrnar áður en umr. var frestað, og hann heyrði ekkert af því, sem hv. frsm. málsins sagði, og hann fór út úr hv. d. án þess að vita, hver var frsm. málsins. Hann greip aðeins seinustu orðin í ræðu minni, en ekki var vandvirknin meiri en það, að hann fór ekki rétt með það, sem ég sagði. Þetta get ég borið undir hv. d., því að ég hygg, að hér séu sömu menn og þá voru við. Hann sagði, að ég hefði sagt, að hæstv. ráðh. væru grunaðir um ótrúmennsku við sjávarútveginn. Ég var svo gætinn að skrifa niður hjá mér ummæli mín um þetta. Ég sagði, að það væri grunur um það, að hæstv. stj. væri ekkert sérlega þungt þenkjandi, þótt erfiðleikar mættu sjávarútveginum. Þessi ummæli mín byggði ég á þeim kulda, sem hæstv. stj. og þeir flokkar, sem að henni standa, mæta þeim málefnum með, sem eitthvað snerta hag sjávarútvegsins og borin hafa verið fram hér á hv. þingi. Ég get ekki skilið, að nokkur geti mótmælt því, að ýms önnur mál hafi fengið hlýrri viðtökur hér á hv. þingi af hálfu hæstv. stj. heldur en málefni sjávarútvegsins, og til marks um þetta nægir að benda á það eitt, að stórmáli eins og því, hvort létta eigi af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, hefir varla verið sinnt af hæstv. ríkisstj. Þetta mál var borið fram í þingbyrjun, en það er fyrst nú að koma til 2. umr., þegar þingið er senn á enda, og sjálfum hæstv. atvmrh. finnst svo lítið til um málið, að hann rétt rekur inn höfuðið, þegar umr. er að verða búin. Ég tel það skyldu mína að finna að þeim viðtökum, sem jafnmikilsvert mál og þetta fær, en ég sé samt ekki ástæðu til þess að fara út í langar rökræður um það í þetta skipti, bæði af því, að það hefir verið gert áður, bæði nú á þingi og eins á næsta þingi á undan, og eins af því, að það er auðsætt, að þetta mál getur ekki fengið samþykki á þessu þingi, svo að það er þýðingarlaust að vera að lengja umr. um málið. En ég vil aðeins draga þá ályktun af tómlæti hæstv. stj. og stuðningsfl. hennar í garð þessa máls, að annað tveggja hljóti það að stafa af þeirri andúð, sem vitað er, að þessir flokkar ala í brjósti gegn einkarekstri á atvinnufyrirtækjum, eða af því, að þeir álita þennan atvinnuveg, sem hér um ræðir, ekki eins þýðingarmikinn fyrir land og lýð eins og við, sem höfum flutt þetta mál, teljum hann vera.

Ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. málsins, hv. þm. Vestm., muni gera að sérstöku umtalsefni þá dagskrártill., sem fram er komin, og skal ég því vera fáorður um hana. En sumt af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, var þess eðlis, að ég vil ekki láta því ómótmælt. Hann lét sér nú sæma að sýna þessu máli svo mikið tómlæti, að hann lét sig vanta, þegar hann átti að tala, og varð að fresta umr. hans vegna. Þegar hann svo loksins kom, þá var engin rök hjá honum að finna. Hann sagði, að það væri sennilegt, að flutningur okkar á þessu frv. væri látalæti tóm, og hann sagði ennfremur, að við meintum ekkert með þessu, og þóttist hann draga þetta af því, að við hefðum ekki ýtt mikið á eftir málinu. Við höfum vissulega ýtt töluvert á eftir þessu máli, því að á fyrri hluta þessa þings, í fyrravor, kvartaði þessi hv. þm. undan því, hvað við létum óðslega út af þessu máli, og hann hélt þá margar ræður um ákafa okkar og taldi vitavert, hvað við vildum, að málinu væri hrundið fast fram, svo að andstæðingarnir fengju ekki tóm til þess að brjóta það til mergjar.

Hv. þm. taldi þetta allt fals hjá okkur, og til marks um það væri það, að okkur stæði á sama, hvort málið næði fram að ganga eða ekki. Þessi rök hjá hv. þm. stangast á, en ég vil að þessu sinni ekki eyða orðum að því að mótmæla fyrri ásökuninni, en þeirri síðari vil ég mótmæla, því að við fluttum þetta mál, eins og kunnugt er, í þingbyrjun, og það er ekki hægt að sýna meiri áhuga fyrir flutningi máls á fyrsta stigi en að flytja það sæmilega snemma. Í öðru lagi stóð ekki á okkur að athuga málið í n., en hinsvegar er ekki venja, að þm. heimti með frekju, að mál sé tekið á dagskrá. Það er ekki venja, að menn snúi sér til hæstv. forseta og biðji hann um að reka á eftir máli í n. eða að taka það á dagskrá, fyrr en drátturinn er orðinn svo mikill, að manni virðist málið ekki fá að njóta jafnréttis við önnur mál; og við fórum því fyrst að reka á eftir þessu máli, þegar okkur fannst það vera sett aftur fyrir önnur ómerkari mál. Hitt, sem hv. þm. sagði, að við hefðum sýnt tómlæti, sem honum fannst bera vott um ótrúmennsku við sjávarútveginn, þegar við fluttum málið um afnám 6% gjaldsins, það er byggt á misskilningi hjá honum, og virðist hann vera búinn að gleyma því, að það var gripið til þess mjög svo fátíða bragðs að setja mál, sem átti að mæta þessu frumvarpi okkar og verða því að bana, inn í annað óskylt mál sem brtt. við 3. umr. Það var okkur vitanlegt, að frv. var dautt, því það er ekki hægt að samþ. tvær till. á sama þingi, sem fara í gagnstæða átt hvor við aðra. Ég býst við, að hv. þdm. hafi ekki athugað þetta, því hér var sannast að segja um fágæta meðferð máls að ræða. Mér þykir viðkunnanlegra að rifja þetta upp hér, þar sem í ræðu hv. frsm. meiri hl. sjútvn. fólust alvarleg brigzl í okkar garð, minnihlutamanna. Annars reiðist ég enganveginn slíkum ummælum, og það stafar af því, að barátta okkar sjálfstæðismanna sem fulltrúa þeirra, er við sjávarsíðuna lifa, er öllum kunn, og allar tilraunir til að fella okkur í áliti sem slíka eru því fyrirfram dauðadæmdar.

Ég sagði áðan, að það væri tvennt, sem ég vildi minnast á viðvíkjandi þessari dagskrártill. Það er í sjálfu sér undarlegt, þegar komið er að atkvgr. í lok þessarar umr., að gripið skuli vera til þess að koma með dagskrá í málinu. Það er að sönnu alltaf heimilt að koma með dagskrá í máli. Dagskrá er annaðhvort einföld dagskrá eða rökstudd dagskrá. Nú hefir hv. frsm. meiri hl. ætlað að koma með rökst. dagskrá, en það hefir farið svo, að hann hefir skapað till. í sinni mynd, eins og sagt er að guð hafi skapað manninn, að dagskráin varð einföld. En nú er mælt svo fyrir í þingsköpum, að einföld dagskrá má ekki koma siðar fram en það, að aðeins frsm. máls hafi talað. Ég verð því að fara fram á það við forseta, að hann vísi þessari einföldu dagskrá frá. Það þurfa ekki mikil rök fyrir því, að þessi dagskrá er ekki rökstudd. Ég hefi hér þetta málverk fyrir framan mig. Till. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð fjárveitinganefnd einum rómi, þar á meðal einn flm. frv. þessa, hefir í till. sínum við frv. til fjárl. fyrir árið 1936 áætlað tekjur af útflutningsgjaldi 700000 kr., og engar till. hafa komið fram til breyt. á þessu, heldur hefir sá tekjuliður þvert á móti verið samþ. í sameinuðu Alþingi, og ekkert útlit þannig er fyrir, að mál þetta nái nú fram að ganga, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þeir hv. þm., sem skrifað hafa undir þessa dagskrá, eru meiri hluti sjútvn. Það er sýnilega ekkert við það að athuga, þó tekjuliðir, sem staðið hafa í fjárlögum ríkisins, haldi áfram að vera þar. Slíkir liðir eru fastir liðir og verða að halda áfram að vera þar, meðan þeir tekjustofnar eru til, sem þeir byggjast á. Meðan tekjustofnarnir eru ekki felldir niður verða samsvarandi tekjuliðir að standa í frv., því það væri ekki nema tóm vitleysa að fella niður tekjulið á fjárl., ef lögin um tekjustofninn héldu áfram að vera í gildi og tekjur samkv. þeim lögum héldu áfram að koma í ríkissjóðinn. Alveg eins þó frv. komi fram um að nema úr gildi tekjustofn, þá verður samt sem áður tekjuliðurinn að standa í fjárl. þangað til frv. um að nema tekjustofninn úr gildi hefir verið samþ. Útflutningsgjaldið hlaut því að standa í fjárlagafrv. þangað til búið var að samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir. Ég þykist vita, að hv. flm. komist að raun um það við nánari athugun, að dagskrártill. þeirra er á engum rökum byggð, og þegar hv. form. sjútvn. fær að setjast í það tignarsæti að komast í fjvn. - því miður getur orðið nokkuð langt eftir því að bíða, því hann er ekki í þvílíkum hávegum í sínum flokki og hv. 9. landsk. og hv. þm. A.- Sk., sem ég álít fremstu menn sinna flokka -, en þegar hv. þm. Ísaf. er stiginn svo í áliti og tign, mun hann a. m. k. skilja þetta til fulls.

Ég hefi nú sýnt fram á það, að dagskráin getur ekki staðizt, auk þess, sem hún er næsta þýðingarlaus, þar sem komið er að atkvgr. um frv., og sýnist ekkert meiri fyrirhöfn að afgr. það þannig á eðlilegan máta en að vera að burðast með þessa dagskrá, sem er ekkert nema gagnsæ blekking, því það er misskilningur hjá þessum hv. þm., að þeir geti skýlt sér með dagskránni. Hún er alveg eins og nýju fötin keisarans, en þó reyndar ljótari, því hún er svo blettótt, en föt keisarans voru það ekki, því þau voru ekki neitt.