20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (3653)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Finnur Jónsson:

Það hafa talað hér fjórir sjálfstæðismenn síðan ég sagði hér nokkur orð um þetta efni áðan. Fyrstur á vaðið reið hv. 3. þm. Reykv., sem er hér nú ekki nærstaddur, en hann fullyrti, að þetta mál hefði verið til umr. í fjvn. og ekki fengið þar neina áheyrn. Mér hefir verið sagt af þrem fjvnm., sem ég hefi náð í, að þetta mál hafi aldrei komið til orða í fjvn., og styrkist sú umsögn við ummæli hv. þm. Borgf., sem talaði hér áðan. Hv. 3. þm. Reykv. var að bera sjútvn. það á brýn, að hún hefði svikið sína skyldu með því að fylgja ekki þessu máli, og er það, eftir fenginni reynslu, vel sæmandi hv. 3. þm. Reykv. að bregða öðrum um, að þeir hafi svikizt um skyldur sínar. En af því að hann er ekki hér viðstaddur, þá fer ég ekki nánar út í það. - Hv. 6. þm. Reykv. vildi reyna að afsanna það, að minni hl. sjútvn. hefði dregið málið á langinn. En það vill nú svo vel til, að ég hefi fyrir framan mig málaskrá sjútvn. og gerðabók. Þar stendur, að þetta mál hafi verið afgr. 16. nóv. í n., en loks 9 dögum síðar skilaði minni hl. áliti. (SK: Meiri hl. hefir líka komið það illa. Endemis hræsni!). Meiri hl. var á móti því og rak því ekki nauðsyn til fyrir hann að skila sínu áliti svo snemma. Minni hl., sem var að tala um seina afgreiðslu á þessu máli, hefir því engum um að kenna nema sjálfum sér. Þetta mál kom til n. 1. nóv. og var afgr. í réttri röð við önnur mál, eins og venja hefir verið til um afgreiðslu mála í sjútvn. á þessu þingi, þ. 16. nóv. Ég mótmæli því algerlega, að nokkurntíma hafi verið gengið eftir því af hálfu minni hl. í n., að þetta mál yrði afgr. fyrr. Þeir vissu sjálfir vel, að málið mundi verða tekið fyrir í réttri röð í n., og það var gert. Það er sem sagt, að ef þessum minnihl.mönnum hefði verið mikið í mun að herða á þessu máli, þá mátti ekki minna af þeim krefjast en að þeir hefðu ekki 9 daga meðgöngutíma á nál. með mál, sem var þeim jafnkunnugt og þetta. Hv. 6. þm. Reykv. gerðist gamansamur og sagði, að þessi dagskrá, sem við meirihl.menn höfum borið fram, gæti ekki staðizt, af því að það væri eins mikil fyrirhöfn að greiða atkv. um dagskrána eins og frv. sjálft. Ég býst nú við, að það hafi ekki venjulega nein áhrif um dagskrártill., hvort það er meiri eða minni fyrirhöfn að greiða atkv. um þær en frv., sem till. er um. Mér finnst þau rök, sem hv. 6. þm. Reykv. notaði, vera heldur í léttara lagi.

Hv. þm. Borgf. vildi halda því fram, að þessi dagskrá væri komin fram vegna þess, að sjútvn. væri að velta af sér ábyrgð yfir á aðra. Nú er það svo, að sjútvn. einsömul getur vitanlega hvorki létt byrðum af skattgreiðendum eða lagt þær á. Það er meiri hl. Alþ., sem gerir það, en ekki ein og ein þingnefnd. Ummæli hv. þm. Borgf. um þetta eru því sögð algerlega út í loftið og eiga sennilega að vera vörn þess, að hann, sem er í fjvn., gerði ekki neinar aths. við þann stóra lið í fjárlfrv. um 700 þús. kr. tekjur handa ríkissjóði af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Hv. þm. Borgf. getur ekki neitað því, að ef hann hefði gert ráð fyrir því, að þessi liður yrði lækkaður fyrir það, að þetta frv. næði fram að ganga, þá hefði hann sem gætinn maður í fjvn. vitanlega ekki gengið að þessari till. um að áætla útflutningsgjald sjávarafurða mörg hundruð þús. kr. hærra en það hefði orðið, ef þetta frv. hefði náð fram að ganga.

Hv. þm. Vestm. talaði hér síðastur og sagði m. a., að það væri ákaflega ábyrgðarlaust, að mér skildist, af meiri hl. sjútvn. að vilja ekki létta þessum skatti af sjávarútveginum. Ég hefi nú í rauninni svarað þessu áður með því, sem ég sagði til hv. 6. þm. Reykv., að sjútvn. getur alls ekki létt þessu af upp á sitt eindæmi; jafnvel þótt meiri og minni hl. stæðu saman, hefði ekki verið hægt að rýra tekjur ríkissjóðs svona mikið án þess a. m. k. að benda á eitthvað í staðinn. Í þessu sambandi sagði hv. þm. Vestm., að meiri hl. sjútvn. hefði svikizt um að gera skyldu sína. Ég vil mótmæla þessu algerlega sem tilhæfulausu. Ég benti á það í minni fyrri ræðu, að það væri vitanlegt, að sú mikla kreppa, sem er og vofir yfir sjávarútveginum, á á engan hátt rót sína að rekja til þessa útflutningsgjalds, og ég veit, að hv. þm. Vestm. segir það ekki heldur. Ég veit, að honum er vel kunnugt um það, að vandræði sjávarútvegsins eru alveg óskyld þessu útflutningsgjaldi. allir óbeinir skattar - aðflutnings- og útflutningsgjöld - hljóta í mörgum tilfellum að koma ranglátlega niður á þeim, sem greiða þá, en meðan svo er ástatt, að hver biti og sopi fátæklinga er skattaður, er nokkuð erfitt að telja einn óbeina skattinn öðrum ranglátari. Nú skal ég þó játa, að það er nokkurt réttlæti í þeirri kröfu að segja, að af því að útflutningsgjaldinu er af létt af landbúnaðarvörum, þá skuli því einnig létt af sjávarútvegsvörum. En þess ber að gæta, að í sama mund og gjaldinu var létt af landbúnaðarafurðum, þá var létt gjaldi af sjávarútveginum, sem nam að krónutali hærri upphæð heldur en útflutningsgjaldið var af landbúnaðarafurðum. Ég á þar við síldartollinn, sem var lækkaður ár 1 kr. á tunnu niður í 15/8%, eins og venjulegt útflutningsgjald var. En hv. þm. Vestm. er víst búinn að gleyma því, hvernig þetta mál var, því að hann heldur því fram, að þessu gjaldi hafi verið létt af vegna nokkurra sjómanna. En það er nú svo, að þetta gjald er greitt af útgerðarmönnum að a. m. k. 2/3 hl., en af sjómönnum ekki nema að 1/3 hl. Það er því fráleitt að segja, að þessi breyt. hafi verið gerð vegna nokkurra sjómanna. Ennfremur er það órökstuddur sleggjudómur, að það hafi verið gert vegna flokkshagsmuna að aflétta þessu gjaldi. Ég veit ekki, hvaða flokkshagsmunir eru í því að aflétta útflutningsgjaldi, sem að 2/3 hl. kemur útgerðarmönnum til góða.

Ég held, að það sé ekki margt fleira, sem ég þarf að segja í þessu sambandi. En út af því, sem hér hefir fallið um álagningu fiskiskattsins, að stj. og stjórnarflokkarnir hafi tekið á sitt breiða bak að afnema þessa skatta án þess að taka nokkuð í staðinn, og því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í þessu máli hér á dögunum, að einstakir menn úr stj.liðinu væru grunaðir um að hafa reynt að spilla fyrir markaði á saltfiski þar, sem hann hefði verið beztur, þá vil ég segja það, að þarna virðist koma á daginn, af hvaða ástæðum Sjálfstfl. hefir skotið sér undan þeirri sjálfsögðu skyldu að taka þátt í meðferð utanríkismála. Af þessari yfirlýsingu hv. 6. þm. Reykv. verður ekki annað séð en að hún staðfesti þann grun, sem á hefir leikið um, að sjálfstæðismenn skjóti sér undan þessari skyldu af því, að þeir búist við, að í þessum málum verði mjög miklir erfiðleikar á næstunni, og að þeir ætli svo að nota sér það, að þeir þykjast ekki hafa tækifæri til að vita, hvað fram fer í þessum málum, til þess að kasta svívirðilegum getsökum að stj. og stj.-flokkunum. Það hefði ég þó ekki haldið um a. m. k. suma í þessum flokkum, að þeir teldu sér samboðið.