20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (3655)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Ólafur Thors:

Það er ekki af því, að ég þurfi að bæta við þau rök, sem fram hafa verið flutt fyrir þessu frv., að ég hefi kvatt mér hljóðs, heldur vegna þess, að mér þykir það óviðfelldið sem 1. flm. frv. að segja alls ekkert um það við 2. umr.

Ég verð að viðurkenna það, að þessar undirtektir, sem málið hefir fengið hjá hv. meiri hl. sjútvn., þykja mér mjög furðulegar; ekki af því, að ég viti það ekki mjög vel, að þeir menn, sem þar eiga hlut að máli, eru reiðubúnir til þess að bera fyrir borð hagsmuni sjávarútvegsins, en ég hélt, sannast sagna, að þá brysti þor til þess að beita sér á móti till. um afnám útflutningsgjalds af sjávarafurðum, eftir að þeir höfðu verið minntir á það við 1. umr., að þeir réðu úrslitum um það á síðasta þingi, með eins atkv. mun, að aflétt var útflutningsgjöldum af landbúnaðarafurðum. Ég get ekki séð, hvernig það er hægt fyrir þessa sömu menn, eftir að það hefir verið upplýst, hve höllum fæti sjávarútvegurinn stendur yfirleitt, að beita sér á móti því, að þessu ósanngjarna gjaldi verði létt af sjávarútveginum, þegar því hefir verið létt af landbúnaðinum með þeirra atbeina. En svo torskilið sem þetta er að því er þm. almennt snertir, þá verður það samt ennþá torskildara, þegar þeir menn eiga hlut að máli, sem sérstaklega eru af þinginu kjörnir til þess að gæta hagsmuna sjávarútvegsins, en það ættu þeir menn að vera, sem eru í sjútvn. Alþ.

Mér þykir þetta því furðulegra fyrir það, að ég hafði leyft mér að byggja - þó ekki á góðvild þessara manna - þá á kjarkleysi þeirra. Ég hefi nú séð borna fram í málinu rökst. dagskrá, sem er afskræmis skrípi. Það er að vísu ekki undarlegt, þegar athugað er, að hv. þm. Ísaf. er flm. hennar, því hann er manna kunnastur að því að vera seinheppinn í till. sínum um afgr. mála. En þessi rökst. dagskrá ber samt vott um meiri kjark heldur en ég hélt, að þessi hv. þm. ætti til. Kjarkurinn er þá líka sýnilega mjög þungt haldinn og alveg aðframkominn, því þessi lítilmótlegi kappi hefir valið þá leið að reyna að skríða undir fald annara, sem þó er tilgangslaust„ vegna þess, að allir sjá og skilja, að hér er um hrein tyllirök að ræða, alveg hreinar og helberar blekkingar.

Svo smánarlegt sem það er, að hv. meiri hl. sjútvn. sýni málefnum sjávarútvegsins slíkan kala á þeim erfiðu tímum, sem nú standa yfir, þá er hitt þó nærri verra, að meiri hl. skuli ekki hafa þann manndóm að þora að koma fram í dagsljósið og sýna sinn innri mann, en vilja heldur gera sig beran að jafnfrámunalegri grunnhyggni og kemur fram í þessari dagskrártill. Ég þarf ekki að rökstyðja þessi ummæli mín, það hefir áður verið gert af mínum flokksmönnum, og sérstaklega af hv. þm. Borgf., sem hefir glögglega tekið það fram, að það er ekki á valdi hv. fjvn. að nema úr gildi slík lög, sem eru um útflutningsgjöld eða aðra skattstofna ríkissjóðs, og þess vegna eru tekjustofnarnir taldir með þangað til Alþingi hefir breytt l. Þessi fáránlega tilraun að skriða undir skjól annara er því gagnslaus og ekki til annars en að sýna bilaðan kjark og grunna vitsmuni, og ég get ekki látið hjá liða að láta í ljós andúð mína á slíkri afgreiðslu á málum. Ég veit það, að hv. þm. Ísaf. er ekki sérlega snjall eða fimur í rökum, og ekki bætir það um, þótt hv. 2. þm. N.-M. hvísli í eyrun á honum.

Ég læt í ljós andúð mína gegn slíkri afgreiðslu sem hér er við höfð á þessu mikla þjóðþrifamáli, og það má mikið vera, ef augu sjávarútvegsmanna fara ekki að opnast og þeir að vakna til skilnings á þeim huga, sem inni fyrir býr hjá þeim mönnum, sem þannig fara með mál þeirra.

Að síðustu vil ég taka það fram, að það er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm. Vestm., þegar hann lýsti því yfir, að hann hefði glaðzt af orðum hv. þm. Ísaf. Ég veit ekki, á hverju slík yfirlýsing ætti að byggjast. Eins og hv. þm. Vestm. viti það ekki, að ekki er að marka eitt einasta orð af því, sem hv. þm. Ísaf. segir. Auðvitað hefir þetta verið sagt í naprasta háði, en ég hélt ekki, að hv. þm. Vestm. væri svona háðskur, og jafnvel viti borinn maður ætti ekki að vera svona meinháðskur í sambandi við þetta mikla alvörumál.