20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (3656)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki miklu að svara af því, sem sagt hefir verið hér við þessa umr. Ég vil benda hv. þm. Vestm. á það, að á því þingi, þegar breytt var síldartollinum, þá var líka aflétt fleiri gjöldum, m. a. gengismun á kaffi- og sykurtolli, og með þessu voru tekjustofnar ríkissjóðs rýrðir, en í þess stað var svo ríkissjóði aftur aflað tekna með hækkuðum tekjuskatti, og það er afareinfalt mál, að í hvert sinn sem Alþ. breytir verulega til um tekjustofna ríkissjóðs án þess að draga úr útgjöldum, þá verður að sjá fyrir öðrum tekjum í staðinn fyrir þær, sem felldar eru niður að einhverju eða öllu leyti. Sú skylda, að sjá ríkissjóði fyrir peningum, hvílir fyrst og fremst á stjórnarflokkunum, og sjálfstæðismönnum er þetta vel ljóst, og þess vegna eru þeir æ ofan í æ að leggja fram till. um stór útgjöld, án þess að henda á nokkra leið til tekjuöflunar í staðinn.

Hv. þm. G.-K. þarf ég lítið að svara. Það, sem hann sagði, var mest persónulegur skætingur til mín, og læt ég mér hann í léttu rúmi liggja. Hvort ég á hann skilið eða ekki, kemur í ljós á sínum tíma, og það hefir komið í ljós, því ég hefi í mörg ár starfað að opinberum málum, og það kann að vera, að hv. þm. G.-K. fái líka að sjá það, ef hann sleppur út um þær bakdyr, sem hv. 2. landsk. sagði, að hann mundi verða staddur við árið 2935.

Annars er það greinilegt, að þetta mál er flutt í agitations-skyni. Er það m. a. greinilegt af því, að hv. minni hl. sjútvn. dregur í 9 daga að gefa út nál. um málið. Eins er það sýnilegt, þegar litið er á fyrri afstöðu sjálfstæðismanna. Hvers vegna notuðu þeir ekki aðstöðu sína, þegar þeir voru í meiri hl., til þess að létta gjöldum af sjávarútveginum? Hvers vegna leiðréttu þeir ekki hinn rangláta síldartoll og síldarmjölstoll meðan þeir voru í meiri hl. á Alþ.? Vegna þess að þessi flokkur sá ekki ástæðu til þess að aflétta þessum sköttum frekar en öðrum óbeinum sköttum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. G.-K. er svo gamall hér á þingi, að hann sé einn af forfeðrum þessara gjalda, en ég hefi heyrt sagt, að nokkur hluti þeirra sé undan hans ættarrifjum runninn.

Nú sagði hv. þm. G.-K. út frá því, sem hann minntist á afstöðu hv. þm. Borgf. til málsins, að það væri ekki á valdi hv. fjvn. að aflétta útflutningsgjöldum. Ég veit vel, að það er ekki á valdi fjvn., og það er ekki heldur á valdi sjútvn., en ég vil benda á, að nú hefir hv. fjvn. komið fram með merkilegt frv., sem nefnt er „bandormurinn“ og nú er orðið það liðamargt, að þar er talað um breyt. á 12-16 lögum. Ef hv. fjvn. hefði verið sérstaklega umhugað um að breyta útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, þá hefði hún getað hnýtt þessum eina lið aftan við, eins og öðrum liðum, sem þar hefir verið bætt við, en þetta hefir ekki komið fram í sambandi við það frv.

Þá var hv. þm. G.-K. eitthvað að vorkenna mér, að ég þyrði ekki að koma fram í dagsljósið með þessa dagskrártill. Ég get sagt honum það, að ég þori vel að koma fram í dagsljósið, því ég get vel gert samanburð á því, sem gert hefir verið til hagsbóta fyrir sjávarútveginn samkv. þeim till., sem ég hefi flutt á þeim stutta tíma, sem ég hefi átt sæti á Alþingi, og samkv. þeim till., sem hann hefir gert þau 4 ár, sem hann hefir átt sæti á Alþ. næst á undan. Ég þori mjög vel að gera þann samanburð frammi fyrir kjósendum.

Þá var hv. þm. G.-K. að vita hv. þm. Vestm. fyrir, að hann hefði lýst því yfir, að hann væri ánægður með þá yfirlýsingu, sem ég gaf fyrir mína hönd, að ég áliti, að útflutningsgjaldið væri eitt hið fyrsta af þeim gjöldum, sem ætti að afnema, eða með fyrstu gjaldalækkunum, sem ættu að fara fram, að óbreyttri afstöðu. Það má vel vera, að hv. þm. Vestm. taki þessum vitum með þögn og þolinmæði, en ég get vel skilið ánægju hans með orð mín, því að hv. þm. Vestm. er að betra kunnur heldur en hv. þm. G.-K., sem er kunnur að þeim einstöku endemum að hlaupa undan skyldum sínum í utanríkismálan. og kúga flokk sinn til þess að gera slíkt hið sama.