07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (3666)

14. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Briem:

Það mun hafa verið 23. febr., sem máli þessu var vísað til hv. landbn., og er það því ekki vonum fyrri að hún hefir skilað áliti. Ég get þakkað hv. minni hl. fyrir hans undirtektir. En mig undrar þær undirtektir stórlega, sem frv. hefir fengið hjá hv. meiri hl. Er svo að sjá á nál. hans, að hann telji það eitt athugavert við frv., að það hefir kostnað í för með sér. Hann viðurkennir, að það væri æskilegt að geta styrkt ræktun og búnaðarframkvæmdir á þennan veg, en ber aðeins fyrir sig kostnaðinn. Þess vegna á að fella frv. - eða vísa því til ríkisstj., sem er ekki annað en fínna form til að fella málið. Þess skal geta, að það hefir verið rannsakað af fyrrv. búnaðarmálastjóra, hver mundi verða kostnaður af þessari lagabreyt., og niðurstaðan varð, að það mundi nema um 50 þús. kr., miðað við jarðabótaskýrslur síðustu ára. En þegar litið er á þann stuðning, sem landbúnaðinum er veittur, ef frv. nær fram að ganga, verður ekki litið svo á, að þetta sé stór upphæð. Frv. felur í sér þessar aðalbreyt.:

I. Að styrkurinn sé aukinn um 1/3 til opinna skurða og að helmingi til lokræsa.

Það er alkunna meðal allra, er við jarðrækt fást, að algengasti gallinn á allri nýrækt er sá, að framræslan er ekki svo góð sem skyldi, og þar af leiðandi verður ending jarðabótanna minni og afrakstur lélegri að vöxtum, og þó einkum að gæðum. Búnaðarþingið hefir í umsögn sinni um þetta mál lagt hina mestu áherzlu á þetta atriði frv. og mælt mjög eindregið með því, að frv. í heild næði fram að ganga.

II. Samkv. frv. á að hækka verulega styrkinn til þeirra framkvæmda, er lúta að betri hagnýtingu innlends áburðar, en nú er.

Þegar þess er gætt, að með góðri áburðarhirðingu fær búfjáráburðurinn lagt til alla þá forfórsýru og kalí, sem bændur þurfa til viðhalds ræktuninni, og 2/3 þess köfnunarefnis, sem með þarf, þá er auðsætt, hversu mjög mætti spara kaup erlends áburðar, ef bændur fengju meiri stuðning í þessu efni. Og eins og gjaldeyrismálum landsins er nú komið, þá skiptir eigi heldur litlu fyrir sjálft ríkið, að unnt verði að spara erlendan áburð.

Það virðist ekki vera ágreiningsmál milli flokka hér á þingi, að styrkja beri matjurtarækt í landinu. Þetta frv. felur í sér stóraukinn styrk til þeirra, er koma sér upp matjurtagörðum. Þá er og hér í fyrsta sinn lagt til að veita styrk til gróðrarskála og vermireita. Er það alkunnugt, hve mikilsverð garðræktin er. Með aukinni garðrækt vinnst hvorttveggja, hollara mataræði hjá landsmönnum og gjaldeyrissparnaður fyrir ríkið sjálft. Og þó vissulega beri vel að meta þær till. allar, er miða að því að styrkja garðræktina á næstu árum, þá ætla ég, að þessi styrkaukning komi í beztar þarfir og að mestu gagni öllum þorra bænda.

En það, sem þorri bænda og helztu búnaðarfrömuðir eru sammála um, að skipti hvað mestu máli, er hækkun styrks til votheystótta. Hér í frv. er og lagt til, að hann verði fjórfaldaður frá því, sem nú er. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í fyrrasumar var svo votviðrasamt í tveimur landshlutum, að fóðurbætiskaup, er af því leiddi, urðu bændum um megn, auk þess stórskaða, sem bændur biðu víða af ýmiskonar vanhöldum og óhreysti í fé.

Hefir því og verið yfirlýst af núv. búnaðarmálastjóra, að ef maímánuður hefði ekki verið eins einmuna góður síðasti. vor og hann var, þá hefði orðið stórfellir í þessum tveimur landshlutum. Slík stórhætta af efnatapi heyja í votviðratíð getur alltaf vofað yfir íslenzkum landbúnaði, meðan ekki eru til votheystóftir á hverju býli.

Það er kunnugt, að enn í ár hefir í sumum sveitum Austurlands a. m. k. tapazt mikið af heyjum, og liggur nú undir snjó, en mikið af því, sem síðast náðist, er ónýtur hrakningur. Má því öllum ljóst vera, að hér þarf bráðra aðgerða og aðstoðar af hálfu þess opinbera. Þetta mál þolir enga bið. Og mig undrar stórlega, að hv. meiri hl. skuli ekki einu sinni taka tillit til þessara brýnu þarfa landbúnaðarins.

Þá er sama að segja um þurrheyshlöðurnar. Hér er lagt til, að styrkur til þeirra sé hækkaður um helming, og eigi bundinn við steinhlöður einar, eins og nú er. Einyrkjarnir munu bezt finna vinninginn og verksparnaðinn, að geta stungið heyjunum jafnóðum inn í hlöðu, móts við stríðið við heytóftirnar. Og þó er munurinn eigi minni að vetrinum. Í fæstum héruðum er heygeymsla trygg nema undir járnþaki. Þess eru a. m. k. dæmi á Austurlandi í haust, að heyið hefir eyðilagzt í heystæðum af því að hlöður eru ekki til, eða ekki undir járnþaki. Hér er því um brýna þörf að ræða fyrir landbúnaðinn, og mig undrar, að hv. meiri hl. skyldi ekki heldur taka tillit til þessa.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að fullkomin ástæða væri til þess að styðja kornrækt í landinu. Í frv. mínu er einmitt ákvæði um að styðja kornrækt. Fyrir lofsverðar tilraunir Bf. Ísl. í þessu efni, er það nú sýnt, að vel er hægt að stunda kornrækt hér á landi með góðum árangri, a. m. k. í suðurhluta landsins. Með aukinni kornyrkju fengist ekki aðeins ný vara til manneldis, sem gerði það að verkum, að kaup á sömu vöru frá útlöndum spöruðust, heldur mundi það líka vinnast við þetta, að hægt væri að tryggja fóður búpeningsins betur en nú er auðið með innlendu fóðri. Auk þess gefur kornræktin aðstöðu til þess að stunda meiri eggjaframleiðslu og svínarækt á ódýrari hátt en nú er. Það má því segja, að það kenni nokkurra mótsagna hjá hv. frsm., þegar hann leggur líka á móti styrk til þessara véla, því að vitað er, að bæði félög einstakra manna og einstaklingar í landinu, sem sjálfir hafa gert tilraunir í þessu efni undanfarin ár, mundu ráðast í stærri framkvæmdir, ef þá skorti ekki vélar, sem kosta allmikið fé.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ríkissjóður legði nú allmikið fé fram til ræktunar í landinu. Rétt er það að vísu, en þegar á það er litið, að kaupið hefir nú, einmitt að nokkru leyti fyrir aðgerðir hins opinbera, hækkað allmjög í sveitum landsins, og það svo mjög, að það nemur meiru en öllu því framlagi, sem veitt hefir verið samkv. jarðræktarlögunum til búnaðarframkvæmda, þá er auðséð, að það er sízt ástæða til þess að telja þetta litla fé eftir eins og nú er komið. Og eins og hv. frsm. tók fram, þá leiðir það af sjálfu sér, að þegar hið opinbera gerir ráðstafanir til þess að þessar jarðræktarframkvæmdir verði dýrari en ella, þá verður líka að auka styrkinn til þeirra sömu framkvæmda. Það hefir verið á það bent, að jafnvel ein einasta nefnd, eins og t. d. fiskimálanefnd, muni kosta jafnmikið í rekstri og svarar því fé, sem það mundi kosta árlega fyrir ríkissjóð, að þetta frv. yrði að lögum, og það hefir ekki ennþá sézt neinn verulegur árangur af starfi þessarar nefndar. Ég verð því að líta svo á, að það komi að allmikið meiri notum fyrir þjóðfélagið, að bændur séu styrktir til þess að bæta jarðir sínar og lækka þar með framleiðslukostnaðinn, heldur en að halda þessari n. uppi dýrum dómum. Ef farið væri út í sparnaðarhlið þessa máls og ef um það væri að ræða að spara upphæð á móti þessum útgjaldalið, þá mætti finna fleiri liði en þennan, sem ég nefndi, til þess að hægt væri að spara fyllilega þá upphæð, sem svarar til þessa fjárframlags, og get ég í því sambandi t. d. bent á það, ef horfið væri að því ráði að samræma meira en orðið er laun þeirra, sem taka laun utan launalaga, við laun annara, sem taka sín laun samkv. launalögum. Hvor leiðin, sem farin yrði, mundi nægja til þess að vega upp á móti útgjöldum þessa frv.

Það hefir komið í ljós við framkvæmd þeirra laga, sem að því miða að hækka afurðaverðið, að það reynast allmiklir örðugleikar á þeirri viðleitni í framkvæmdinni, og skal ég ekki fara frekar út í það í þessum umr., hverjar orsakir til þess liggja, en ég ætla, að menn geti verið sammála um, að það komi sér bezt, bæði fyrir framleiðendur og neytendur, að hægt væri að stuðla að því, að framleiðslukostnaður á landbúnaðarafurðum gæti lækkað sem mest, því að þá ættu bændur landsins auðveldara með að framfleyta sér og sínum, jafnvel þótt afurðir þeirra hækkuðu minna. Ég verð því að líta svo á, að það verði til góðs, ekki aðeins fyrir framleiðendur, heldur einnig fyrir neytendur, ef þetta frv. verður samþ. Eins og nú horfir við, þá er það svo allvíða á landinu, að bændur virðast vera að gefast upp. Ég veit t. d. um einn hrepp í þeirri sýslu, sem ég á heima í, þar sem líkur eru til þess, að 5-6 jarðir af 23 byggist ekki á næsta vori. Og hvað verður um þá menn, sem flýja frá jörðunum? Þeir flykkjast í sjóþorpin og kaupstaðina og koma til viðbótar við þann atvinnuleysingjahóp, sem þar er fyrir. Ég verð því að líta svo á, að slíkt mál sem þetta ætti að njóta velvildar fulltrúa allra stétta og flokka, en ekki sæta þeirri meðferð, sem lítur út fyrir, að því sé ætluð.