07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (3668)

14. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. játaði það afdráttarlaust, að jarðræktarlögin hefðu á sínum tíma verið sett af þörf og að þau hafi gert mikið gagn. En viðhorfið sé nú orðið mjög breytt og vafasamt sé, hvort þau séu nú jafnsjálfsögð og áður. Og vandkvæðin eru þau, segir hann, að nú sé orðið mjög hæpið með markað fyrir framleiðsluvörur landbúnaðarins. Það þurfi a. m. k. að rannsaka það, hvaða tegundir framleiðslu helzt sé markaður fyrir.

Ég skal játa það, að ef þingið lítur svo á, að það eigi að láta skeika að sköpuðu með aðalframleiðslugreinar landbúnaðarins, þá sé þetta rétt. (JBald: Þetta er útúrsnúningur). Ef hann er staðráðinn í því, að réttast sé að láta skeika að sköpuðu með landbúnaðinn, og lofa bændum að flosna upp og flytja sig í aðrar atvinnugreinar, ég veit ekki hverjar. Ef á að skeika að sköpuðu með þetta og láta býli sveitanna, sem staðið hafa frá landnámstíð, leggjast í eyði. Ef þannig á að skeika að sköpuðu, er réttara að athuga það, hvað helzt á að styrkja. Því ef halda skal áfram að styrkja landbúnaðinn, þá þarf vitanlega að vera fyrir hendi sannfæring um það, að landbúnaðurinn eigi að lifa. Fyrir mér er ekkert „ef“ í þessu efni. Ég get ekki annað séð en að landbúnaðurinn verði að lifa. Ég sé engar útgöngudyr fyrir það fólk, sem stundar hann, engar atvinnugreinir aðrar, sem það gæti horfið að. Og ég sé ekki betur en alþingi líti einnig svo á. Það er meira að segja reynt að örva menn til þess að hverfa frá öðrum atvinnugreinum til landbúnaðarins. Slíkt hlýtur að vera meint með ýmsum þeim frv., sem fram eru borin, svo sem frv. um nýbýli. Mér skilst afstaða Alþingis til landbúnaðarins byggjast á þeirri trú, að sá atvinnuvegur geti brauðfætt það fólk, er hann stundar.

Hv. frsm. meiri hl. var að benda á það, að örðugt væri að selja landbúnaðarvörur. Ég veit, að örðugleikar eru töluverðir á því að selja þann hluta þeirra vara, sem ekki er notaður innanlands, en þó má benda á það, að þeir örðugleikar eru ekki svipað því eins miklir og með sjávarafurðir. Því það er áreiðanlega stórum erfiðara að selja fyrir sjávarútveginn heldur en landbúnaðinn, og á það sérstaklega við stærstu vörutegund sjávarútvegsins, saltfiskinn. Þar að auki er þess að gæta, að enn hefir verið ákaflega lítið gert til þess að vinna nýja markaði fyrir landbúnaðarvörur. Af hálfu þess opinbera hefir ekkert verið til þess gert. Einkafyrirtæki, sem annast þessa sölu, hafa eitthvað reynt, en ég hygg, að þær tilraunir hafi verið bæði kraftlitlar og fálmkenndar. Og miklar líkur eru til þess, ef það mál væri tekið öðrum tökum, að þá mætti margfalda þann erlenda markað, sem nú er til fyrir landbúnaðarvörur, þ. e. a. s. kjötið. Og ástæðan til þess, hve miklu auðveldara er að finna markað fyrir kjötið en fiskinn, er sú, hve kjötframleiðsla okkar er lítil. Hún er svo lítil, að hennar gætir bókstaflega ekkert á heimsmarkaðinum. Það er allt annað mál með saltfiskinn, þar erum við meðal hinna stærri framleiðenda; þess vegna er aukning þeirrar framleiðslu hættuleg. Með kjötið er öðru máli að gegna. Ég er þeirrar skoðunar, að ef það mál væri tekið skynsamlegum tökum, þá gætum við fengið mikinn erlendan markað fyrir kjöt, því lítilfjörlegar tilraunir í þá átt, gerðar af vanmáttugum mönnum, benda ótvírætt til þess.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að rannsaka þyrfti, hvaða atvinnugreinir landbúnaðarins ætti að styrkja, og hann nefndi kartöflurækt og kornrækt. Það eru allir sammála um, að það beri að styrkja kartöfluræktina, og það er verið að gera tilraun með löggjöf til að auka hana. Það er alveg sjálfsagt mál, að framleiða á í landinu sjálfu allar þær kartöflur, sem við notum, og notkunina á líka mikið að auka. Þess vegna er rétt að verja fé til þess að auka þá ræktun. En á það hefir verið bent af hv. 10. landsk., að frv. hans hefir að geyma ákvæði, sem miða að því að auka kartöfluræktina.

Um kornræktina ætla ég ekki að ræða. Ég er ákaflega trúlítill á það, að kornræktin geti orðið aðalatvinnuvegur. Það verður kannske hægt að stunda hana í sambandi við annan stærri atvinnurekstur, til þess að framleiða fóður fyrir nautgripi, hesta og e. t. v. svín. Ég skal játa, að ég hefi þó ekki mikla trú á þessu. En ég vil benda hv. frsm. meiri hl. á það, að kornrækt væri hægt að stunda jafnframt kjötframleiðslu, og að hún yrði einmitt til þess að auka kjötframleiðsluna, og hún er sú eina framleiðsla landbúnaðarins, sem við getum aukið vegna erlendra markaðsmöguleika, því ég hefi enga trú á því, að við þurfum að láta okkur detta í hug að selja mjólkurvörur til útlanda. Þar erum við ekki samkeppnisfærir. Danskir bændur hafa undanfarið fengið 7 til 9 aura fyrir sina mjólk; einhvernveginn komast þeir af með það. Íslenzkir framleiðendur fá miklu meira verð fyrir sína mjólk, og vita þó allir, hve örðugt þeir eiga. Það er svo, að þeir draga stöðugt úr framleiðslunni, meira að segja hér í grennd við Reykjavík, Það sýnist því ekki vera skilyrði fyrir fleira fólk við mjólkurframleiðsluna, og að hverju er þá að hverfa, ef ekki að kjötframleiðslunni? Hinsvegar tel ég það æskilegt, ef komizt gæti á meiri verkaskipting með framleiðendum, þannig að í sumum héruðum væri framleidd einhliða mjólk, en í öðrum einhliða kjöt, þ. e. a. s. fyrir utan þá mjólk, sem framleidd væri til heimanotkunar. Þetta er rannsóknarefni. Á undanförnum árum hefir verið unnið að framleiðslunni í blindni. Enginn maður á landinu getur sagt um það, hver hinn raunverulegi framleiðslukostnaður er á hinum ýmsu stöðum á landinu. Þetta þarf að rannsaka, ef menn álíta, að landbúnaðurinn eigi að lifa eða vaxa, og ég er sannfærður um, að kjötframleiðslan á að vaxa. En ef landbúnaðurinn á að byggjast á kjötframleiðslu, þá verður sú framleiðsla að byggjast á heyöflun, og þá verður að bæta skilyrðin fyrir því, að hægt sé að vernda heyin frá skemmdum eins og nauðsyn krefur. Í óþurrkasumrum er ekki nema ein leið til þess, og það er votheysgerð. En sú verkunaraðferð er ekki notuð sem vera ber; það verður því að veita fé til þess að koma henni á, með því að auka styrk til votheystófta. Það er þessi styrkhækkun, sem ég legg höfuðáherzluna á. Ég játa fullkomlega, að það er full þörf á því að hækka fleiri styrki til landbúnaðarins, en ég álít eins og sakir standa mesta þörf á að hækka þennan styrk.

Þá kom hv. frsm. meiri hl. að kauphækkuninni í sveitunum, sem við hv. 10. landsk. minntumst á. Ég gat nú ekki vel fylgzt með því, sem hann sagði um hana. Hann játaði að vísu, að kaupið hefði hækkað, en virtist þó halda því fram, að bændur hefðu samt ekki þurft að borga neitt hærra kaup. Er það ekki rétt skilið? (JBald: Það hefir sumstaðar ekki hækkað). Ef hv. þm. heldur það, þá er það mesti misskilningur. (JBald: Ég hefi eins góðar heimildir og hv. ræðumaður). Ég ætla, að ég sé þessu fullt eins kunnugur og hv. 4. landsk. Ég veit, að kaup það, sem bændur hafa þurft að greiða, hefir alstaðar hækkað, og sumstaðar meira en vegakaupið. Ég skal ekki fullyrða, að það hafi hækkað meira í almennri vinnu, en kaup iðnaðarmanna, t. d. smíða, til sveita hefir hækkað meira en hlutfallslega við vegakaupið á tveimur síðastl. árum. Þá sagði hann, að hvað sem kauphækkun í sveitum liði, þá væri á það að líta, að þetta væri fé, sem ekki færi burt úr sveitunum. En þetta er dæmi, sem hvorki ég eða hv. 4. landsk. getur reiknað. Það er vafalaust rétt, að mikið af því kaupi, sem bændur greiða, fer ekki út úr sveitunum, en ég hygg þó, að mjög mikið fé fari samt þannig til manna, sem búsettir eru utan sveitanna. En hvað sem þessu líður, þá hlýtur hv. þm. að skilja það, að þó kaupið renni til manna innan sveitanna, þá bætir það ekkert aðstöðu þeirra bænda, sem þurfa að kaupa vinnu til þess að byggja súrheystóftir, hlöður eða safnþrær. Þetta eru því engin rök. Hér er aðeins um það að ræða, að aðstaða bænda til þess að byggja þessi mannvirki hefir versnað vegna kauphækkunarinnar.

Næst kom hv. þm. að því, hvað bændur hefðu fengið fyrir þessa kauphækkun. Jú, þeir fengu kjötsölu- og mjólkursölulögin. Hann talaði nokkuð langt mál um kjötsölulögin, og í sambandi við það tal kom hann með eina yfirlýsingu, sem mér þótti vænt um, því ég veit, að hann stendur við hana síðar, þegar rætt verður um það mál. Hann talaði um það, að bændur í fjarlægari héruðum hefðu verið keyptir til þess að hætta að senda kjöt á Reykjavíkurmarkaðinn. Með þessu á hann vitanlega við verðjöfnunargjaldið. Það er alveg rétt, að það gjald var rökstutt og réttlætt með því, að þeir, sem hefðu bezta aðstöðu til þess að selja kjöt sitt á Reykjavíkurmarkaðinum, ættu að greiða þetta gjald, gegn því, að hinir, sem fjær búa, kepptu ekki við þá um þann markað. En hvernig varð þetta í framkvæmdinni? Hvernig var þetta loforð haldið? Það var svikizt aftan að sunnlenzkum bændum í þessu máli. Bæði í fyrra og núna var hrúgað inn á markaðinn hér kjöti úr fjarlægum héruðum. Það getur verið, að þetta hafi verið afsakanlegt í fyrra, meðan menn vissu ekki, hve mikið kjöt þyrfti til þess að fullnægja Rvíkurmarkaðinum, en í sumar endurtók sig sama sagan. Það var enn hrúgað inn svo miklu kjöti úr fjarlægum verðlagssvæðum, að bændur á Suðurlandi hafa þurft að frysta til útflutnings meira og minna af sínu kjöti. Þannig er nú viðhorf sunnlenzkra bænda. Verð það, er þeir fengu í fyrra fyrir sitt kjöt, var ekki nema á pappírnum. Kjötverðlagsnefnd leyfði þeim ekki að hækka verðið eftir nýár fyrir geymslu og frystingu, svo að sá kostnaður kom til frádráttar á því reiknaða verði. Af þessu leiddi, að jafnvel verðið í fyrra, hvað þá nú, varð lítið eða ekkert hærra en verið hafði áður. Ég veit, að hv. frsm. meiri hl., eftir þá játningu, sem hann er búinn að gera um tilgang kjötlaganna, styður þá að því - og hann mun fá tækifæri til þess áður en langt um liður -, að þessi meðferð á sunnlenzkum bændum endurtaki sig ekki oftar. Ég skal játa, að ef hv. frsm. sér um það, þá getur vel verið, að það muni meiru fyrir sunnlenzka bændur heldur en þó þeir fengju lítilsháttar aukinn styrk til votheystófta og fleiri framkvæmda. Því þetta má heita lífs eða dauða spursmál fyrir þá eins og sakir standa nú, hvort þeir fá að sitja að Reykjavíkurmarkaðinum. Það er greinilegt, að það hefir verið unnið að því með föstu takmarki fyrir augum að koma kjötmarkaðinum hér í Reykjavík á aðrar hendur heldur en hann hefir verið á og sýnist eiga að vera á að eðlilegum hætti. En hvað sem þessu öllu saman líður, þá stendur óhaggað, að eins og sakir standa nú hafa hvorki kjötlögin eða mjólkurlögin orðið til þess að hækka til muna tekjur bænda, svo þeir standa verr að vígi eftir kauphækkunina heldur en áður til þess að koma í framkvæmd þeim mannvirkjum, sem hér er um að ræða.

Ég get verið fáorður um annað, sem fram kom í ræðu hv. frsm. Ég leyfði mér að benda á í fyrri ræðu minni, í sambandi við þann kostnaðarauka, sem af þessu frv. mundi leiða, að ein nefnd kostaði meira fé heldur en hér væri um að ræða, fiskimálanefndin. Hv. frsm. gerði nú nokkuð mikið úr því, hvað þessi n. hefði þegar gert mikið gagn. Ég vil bara spyrja hann, hvort hann getur ekki hugsað sér, að sú stjórn, sem skipuð hefir verið fyrir fisksamsöluna, mundi geta leyst nokkurn veginn sama hlutverk af höndum og fiskimálanefnd. Finnst honum eðlilegt að vera að tvískipta þessu, hafa tvo framkvæmdastjóra yfir fisksamsölunni, 7 manna nefnd yfir þeim, og svo aðra 7 manna stj. yfir þeirri n.? Er nú nokkurt vit í svona fyrirkomulagi?

Ég held nú, að þó fiskimálanefnd kunni að hafa orðið að einhverju gagni, þá séu það náttúrlega frekar þær fjárveitingar, sem veittar hafa verið til markaðsleita og tilrauna með nýjar verkunaraðferðir, sem komið hafa að liði, heldur en beinlínis fiskimálanefndin. Og þó n. sjálf gerði eitthvert gagn, þá má gera ráð fyrir, að núv. stj. fisksamsölunnar mundi geta látið sama gagn af sér leiða.

Hv. frsm. minntist á, að þessi fiskimálanefnd hefði staðið að mestu leyti fyrir karfaveiðunum. Ég held, að það hafi nú fremur verið stjórn síldarverksmiðja ríkisins, sem hafði forgöngu í því máli. Hann talaði einnig um harðfiskverkunina. Hún hefir nú náttúrlega enn ekki komið að neinu verulegu gagni, hún er í svo smáum stíl, að hún getur ekki haft neina þjóðhagslega þýðingu í svipinn.

Hv. frsm. minntist ekki á það, sem einn mikilsvirtur flokksbróðir hans faldi fiskimálanefnd mest til gildis, að hún hefði gengizt fyrir því að senda frystan fisk til Póllands. Hann sagði frá því, að send hefðu verið 200 þús. tonn og virtist telja, að þar með væri ráðið fram úr fisksöluvandræðum Íslendinga. Ég held, að það hafi nú aldrei farið meira en 200 tonn, og ég veit ekki, hvað mörg hundruð þús. kr. tapið af þeirri sendingu varð, en það bjargráð mun ekki hafa orðið að miklu gagni.

Ég ætla ekki að fara að svara fyrir hv. 10. landsk.; ég veit, að hann er margfaldlega maður til þess sjálfur. En mér þykir hálfleiðinlegt þetta sífellda nudd um, að hann hafi ekkert gert meðan hann var í stj., en nú eftir að hann er orðinn vanmáttugur, eins og það er orðað, komi hann með hvert frv. eftir annað til stuðnings landbúnaðinum. Það er satt bezt að segja, að meðan hann var í stj. voru gerðar miklu stórfelldari ráðstafanir til hagsbóta landbúnaðinum heldur en gerðar hafa verið á Íslandi nokkurn tíma fyrr eða síðar. Á ég þar við kreppulánin, fyrir utan ýms önnur stórmál, sem hann beitti sér fyrir vegna landbúnaðarins. Það er eðlilegt, að þegar verið er að koma fram svo stórvægilegum ráðstöfunum, þá séu hin smærri málin látin bíða. Yfirleitt er það svo, að ekki er heppilegt að taka allt of mörg mál fyrir í einu. Ég minni á þetta af því, að þetta mætti náttúrlega jafnframt vera árás á mig, sem gerzt hefi talsmaður þessa máls, en ekki af því, að ég álíti, að hv. 10. landsk. geti ekki svarað fyrir sig sjálfur. Það kom líka annað fram í þessu hjá hv. frsm. meiri hl., sem mér þótti leiðinlegt að heyra af hans vörum. Hann talaði um, að hv. 10. landsk. væri „vanmáttugur“ nú og gæti engu komið fram. Er hann að gefa yfirlýsingu um, að slík mál sem þetta nái ekki fram að ganga af því, að það er ekki maður úr stjórnarliðinu, sem ber það fram? Þessi hugsun, sem því miður hefir of mikið bólað á á Alþingi síðustu árin, er svo ógeðsleg, að það er raunalegt að heyra jafnmikilsvirtan mann eins og hv. frsm. meiri hl. koma fram með hana í sölum Alþingis.