08.11.1935
Efri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (3671)

14. mál, jarðræktarlög

Bernharð Stefánsson:

Út af ummælum, sem féllu hjá hv. flm. þessa frv. um afgreiðslu landbn. á málinu, vil ég taka það fram, að ég sé ekki annað en að n. hafi afgr. málið á forsvaranlegan hátt. Að vísu er það rétt, að það er nokkuð langt síðan málinu var vísað til n., en þess ber að gæta, að mestallan þann tíma hefir þingið ekki setið að störfum. Ég vil benda á það, að n. skilaði nál. það snemma, að ef á annað borð er fylgi í þinginu til þess að gera frv. að lögum, þá er áreiðanlega nægur tími til þess. N. hefir að vísu látið ganga fyrir að afgr. stjórnarfrv., og er það gömul venja hjá n. í þinginu, en enn er þó nægur tími til að gera þetta frv. að l.

Þetta frv. á að vera borið fram af hendi hv. flm. sem hagsmunamál bænda, og það var helzt að heyra á honum, að þeir, sem ekki fylgdu þessu frv. hans, létu sér í léttu rúmi liggja hag og afkomu landbúnaðarins í heild sinni. í þessu sambandi talaði hv. flm. um það, að hér væri ekki um stóra upphæð að ræða, sem samkv. frv. ætti að verja til landbúnaðarins úr ríkissjóði. Eins og hv. frsm. meiri hl. benti á í gær, er náttúrlega ekkert víst um það, hversu háa upphæð er hér um að ræða, því að þeir útreikningar, sem fram hafa farið um þetta, sýna ekki annað en hvað þetta hefði verið mikil upphæð, ef lögin hefðu gilt fyrr, en geta ekki fyllilega sýnt það fyrir framtíðina. En ég skal þó játa, að engar líkur eru til þess, að um það stóra upphæð sé að ræða, að ef bændum riði núna mest á framkvæmdum og aðgerðum í þessa átt, þá væri ekki sjálfsagt að samþ. þetta frv., þrátt fyrir það, þótt fjárhagur ríkissjóðs og þjóðarinnar sé erfiður eins og nú stendur. En það er alltaf þægilegt fyrir þá, sem ekki bera neina sérstaka ábyrgð, að gera kröfur. Það má alltaf finna ýmislegt, sem í sjálfu sér væri gott og nauðsynlegt, en ég hygg, að hv. flm. þessa frv. muni þó játa, að einhversstaðar hljóti takmörkin að vera fyrir því, hversu mikið sé hægt að láta af hendi rakna til landbúnaðarframkvæmda eins og til hvers annars, og ef ekki er hægt fjárhagsins vegna að fá allt, sem manni kynni að detta í hug, að væri gott að fá, þá verður vitanlega að meta, hvað það er, sem mest þörf er fyrir. Þá verður auðvitað það nauðsynlegasta að sitja í fyrirrúmi, en það, sem er síður aðkallandi, frekar að sitja á hakanum. Það, að ég vil ekki gera þetta frv. að lögum nú, er þá ekki heldur sökum þess, að ég vilji ekki auka við útgjöld úr ríkissjóði til landbúnaðarins þessari upphæð, sem hér getur verið um að ræða, heldur stafar það af því, að ég tel annað nauðsynlegra og meira aðkallandi. Ég vona, að hv. flm. geti viðurkennt, að þetta eru ekki tóm orð hjá mér, því að ég hefi einmitt flutt frv., sem nú liggur fyrir, um ekki aðeins jafnhátt framlag og gert er ráð fyrir í þessu frv., heldur hærra, en ég tel bara það, sem farið er fram á í minni till., nauðsynlegra en þetta. Það munu allir játa, að ræktunin sé mikið þjóðþrifamál, en ég lít svo á, að aukin ræktun, sérstaklega grasrækt, sé ekki það, sem nú ríður mest á, að styrkt sé með auknu framlagi úr ríkissjóði. Ég tel bændum enn nauðsynlegra, að skuldamál þeirra frá eldri tímum séu endanlega leidd til sæmilegra lykta, og ekki síður það, að sala á afurðum bænda komist í viðunandi horf. Því að hvaða gagn er í rauninni að því að stækka túnin og fjölga kúnum, ef ekkert er hægt að gera við mjólkina? Og hvaða gagn er að því, ef tekjurnar fara næstum allar í vexti og afborganir af skuldum? Það má þó enginn taka orð mín svo, að ég sé með þessu að segja, að aukin ræktun eigi að leggjast niður. Ég er aðeins að tala um, hvaða nýjar aðgerðir séu nauðsynlegastar af hálfu löggjafarvaldsins. En ræktun og þær búnaðarframkvæmdir, sem þetta frv. fjallar um, hafa verið allmiklar undanfarin ár, og ég efast ekki um, að samkv. þeim jarðræktarstyrk, sem nú er veittur, muni þær halda áfram að allverulegu leyti. Ég álít, að þetta tvennt, sem ég hefi nú nefnt, eigi að ganga fyrir auknum styrk til þeirra framkvæmda, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

En þetta frv. fjallar að vísu um fleira en aukna ræktun, t. d. súrheystóftir, sem samkv. því á að styrkja. Í þessu sambandi minntist hv. flm. frv. á það, hversu óhagstætt tíðarfarið hefði verið í fyrrasumar, og hann sagði, að ef veðráttan hefði ekki batnað á þeim tíma í vor, sem raun varð á, þá hefði orðið kolfellir a. m. k. í tveim landsfjórðungum. Mér finnst þetta vera stór orð. Ég hygg, að einhvern tíma í sögu landsins hafi komið eins slæmt sumar, og samt hefir aldrei orðið kolfellir í tveim landsfjórðungum, ekki einu sinni í móðuharðindunum. En hitt get ég gengið inn á, að hefði tíðarfarið ekki batnað um svipað leyti og raun bar vitni um, þá hefði sjálfsagt illa farið. Og hverjar þær ráðstafanir, sem orðið geta til þess að koma í veg fyrir fóðurskort og felli, má náttúrlega kalla nauðsynjamál. En ég er bara ekki viss um, að jafnvel þótt þetta frv. yrði samþ., þá mundu koma nægilega margar votheysgryfjur, því að enda þótt ekki sé tiltakanlega dýrt að koma upp votheysgryfjum, miðað við aðrar framkvæmdir bænda, þá hafa þeir gert undarlega lítið að því hingað til. Og orsökin til þess er, að mínu áliti, ekki aðallega getuleysi, heldur er tíðarfarið, t. d. á Norðurlandi, þannig oftast nær, að tekizt hefir allsæmilega að þurrka hey. Sumar eins og í fyrra er a. m. k. á Norðurlandi algerð undantekning. Og þótt allir viti, að heyþurrkun geti brugðizt, þá þykja þó svo miklir ókostir vera á votheyi og meðferð þess, að það hefir engu síður orðið þess valdandi, hversu lítið er til af votheysgryfjum, heldur en getuleysi bænda. Með þessu er ég auðvitað ekki að segja, að ekki sé nauðsynlegt að byggja þær, en ég hefi ekki trú á því, að öllu yrði óhætt í óþurrkatíð, þótt þetta frv. yrði samþ.

Ég er ekki fyrsti maðurinn í þessum umr., sem minnist á afurðasölu bænda í sambandi við þetta mál. Það var allmikið talað um það í gær, og m. a. sagði hv. 2. þm. Rang. þá merkileg orð, svo framarlega sem hægt er að taka þau alvarlega. Hann sagði, að hægt væri að fá markað fyrir margfalt meiri kjötframleiðslu en nú er, ef hæfir menn fengjust við söluna. (PM: Ekki orðaði ég það svona). Ég skrifaði það niður. Það var a. m. k. mjög svipað þessu. Ég kalla þetta fréttir! Ef hann getur bent á leið til þess að fá margfaldan markað fyrir kjötframleiðslu okkar, þá er hann - það skal ég játa - ekki aðeins velgerðamaður íslenzkra bænda, heldur einnig allrar þjóðarinnar. - Það er talað um, að fólkið flykkist úr sveitunum til sjávarbæjanna, og er það talið mikið böl, en það virðist næstum eins og það sé ekki verkefni fyrir fleira fólk í sveitunum. Ástandið hefir verið þannig, að það hefir ekki virzt vera hægt að selja meira kjöt né meiri mjólk, eða aðrar landbúnaðarafurðir, a. m. k. ekki við sæmilegu verði. Ef hægt væri að margfalda söluna, þá væri þetta vandamál leyst. Ef hv. 2. þm. Rang. hefði virkilega á hendinni margfalda markaði fyrir kjötframleiðslu okkar, þá skyldi ég berjast fyrir því með oddi og egg, að honum væri falin forstaða kjötsölunnar.

Enda þótt áframhaldandi ræktun sé - eins og ég hefi áður sagt - nauðsynleg og sjálfsagt sé, að ríkið styðji að henni, þá verð ég að telja, að eins og nú standa sakir sé ekki sama, í hvaða átt ræktunin beinist. Á meðan hv. 2. þm. Rang. hefir ekki margfaldað markaðinn fyrir kjötframleiðsluna, og meðan ekki hefir tekizt að finna nægilega víðan og góðan markað fyrir mjólkurafurðir okkar, þá verð ég að líta svo á, að það sé enn nauðsynlegra að styðja að garðræktinni, þar sem við vitum, að markaður er enn fyrir hendi fyrir þær vörur, sem þar um ræðir, heldur en að styðja þær framkvæmdir, sem stefna að aukinni búfjárrækt. Á þessu byggist það, eins og hv. frsm. meiri hl. n. benti á, að við í meiri hl. leggjum til, að málinu sé vísað til hæstv. stj. til frekari rannsóknar. Við teljum nauðsynlegt, að jarðræktarlögin verði endurskoðuð, m. a. með það fyrir augum, hvort ekki mætti beina framkvæmdum jarðræktarmálanna meira í ákveðna átt en gert hefir verið, þannig að það, sem mest þörf er á, sæti fyrir. Hv. flm. frv. telur það náttúrlega einskis virði, að málinu sé vísað til hæstv. stj., því að það sé aðeins annað form fyrir því að drepa það. Hann er vitanlega sjálfráður um, hvernig hann lítur á það, en þetta vakti fyrir okkur meiri hl. landbn., að það sé einmitt þörf á athugun um þessi efni. Hv. flm. talaði í gær um þau svör, sem útlit væri fyrir, að bændur fengju í þessu máli, og það var auðheyrt á honum, að honum fannst þau mundu verða köld. Hvað mig snertir, þá á ég till., sem liggja fyrir þinginu, er ég tel, að muni, eins og nú er ástatt, koma bændum að miklu meiri notum en þær till., sem þetta frv. felur í sér. Ég þykist í þessu efni vera meira í samræmi við óskir bænda, eins og þær eru nú, heldur en hv. flm. frv. að því er frv. hans snertir. A. m. k. er því svo háttað um mína umbjóðendur, að þeir telja, að þau mál, sem ég nefndi áðan, séu mest aðkallandi, og ef athugaðar eru samþykktir, sem gerðar hafa verið á fundum bænda, sem komið hafa saman til þess að ræða mál sín, þá kemur það í ljós, að það eru fyrst og fremst þessi mál, sem þær fjalla um. Hitt veit ég aftur á móti, að hv. flm. mun nota pólitískt, að þessu máli er vísað frá, til stj., og mér dettur í hug, að til þess hafi refirnir máske verið skornir. Um það skal ég að vísu ekki fullyrða. En mér dettur það í hug af því, að í vor sem leið var þetta notað á þingmálafundum og deilt á mig og Framsfl. fyrir að hafa drepið þetta frv. á vetrarþinginu, og það var flokksbróðir hv. 10. landsk., sem hélt þessu fram. Ég leiðrétti það og sagði, að frv. lægi enn fyrir þinginu og biði þar afgreiðslu. Annað sagði ég ekki um frv. En blaðið Framsókn skýrði frá því á eftir, að ég hefði lofað fylgi við málið. Þar sem byrjað var að nota þetta mál á þennan þátt, pólitískt, áður en afdrif þess voru komin í ljós á þinginu, þá má nærri geta, hvers muni vera von, þegar úrslit þess eru kunn orðin. Þessi aðferð er algeng hjá smáum landsmálaflokkum, sem hyggjast að vinna sig upp. Þeir gera kröfur á kröfur ofan, sem ekki er mögulegt að fullnægja. Þetta er það, sem hefir viðgengizt bæði hér á landi og í öðrum lýðræðislöndum, og hefir leitt til þess m. a., að sumar þjóðir hafa orðið fráhverfar þingræðinu. Ég ætla ekki að gefa Bændafl. nein ráð, eða biðjast undan ádeilu hans á mig og Framsfl., þó að þessu máli verði vísað á bug. En skeð gæti, ef svo ólíklega vildi til, að hv. flm., 10. landsk., yrði ráðh. í annað sinn og ætti þá að framkvæma þær till., sem Bændafl. hefir haft á prjónunum á Alþingi, í blöðum sínum og á þingmálafundum, að þá kynnu þær ef til vill að horfa öðruvísi við fyrir honum heldur en meðan þær eru aðeins flokksbeita, sem haldið er, að falli í góðan jarðveg hjá bændum.