18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (3693)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég efast ekki um, að hv. 2. þm. Skagf. skýri rétt frá og að vandræðin séu mikil á Sauðárkróki, þar sem vonir manna um atvinnu hafa brugðizt svo gersamlega. En þessa sögu má segja af fleiri sveitarfélögum, a. m. k. um alla þá staði norðanlands, sem byggt hafa vonir sínar á síldveiðinni. En þó að hér sé að vísu um mikla þörf að ræða, þá liggja samt ekki fyrir upplýsingar þess efnis, að þessa fjár sé ekki hægt að afla á sama hátt og önnur bæjar- og sveitarfélög verða að gera. Mestur hluti þess fjár, sem fengist með þessari aðferð, yrði tekinn úr vösum hreppsbúa og annara Skagfirðinga. Það liggja ekki fyrir upplýsingar um það, að Sauðárkrókur hafi notfært sér þá einu fjáröflunarleið, sem bæjar- og sveitarfélögum er heimiluð með l., útsvörin, þannig, að hann geti staðið við skuldbindingar sínar á næsta ári. Á meðan slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir, er ekki hægt að fara þessa leið, sem frv. fer fram á, að því er snertir eitt sérstakt sveitarfélag. Hingað til hefir engu sveitarfélagi verið veitt þessi heimild, og aðeins einu bæjarfélagi. Ég held því ekki, að ég bregðist skyldu minni sem Alþfl.maður, þótt ég vilji ekki ganga inn á þessa neyðarráðstöfun. Ég vænti þess, að þetta sveitarfélag geti, eins og önnur, staðið straum af útgjöldum sínum með árlegum útsvörum. Og þó að þetta hreppsfélag hafi orðið fyrir þungum búsifjum vegna síldarleysisins, þá hafa fleiri þá sögu að segja, án þess að þau hafi þar fyrir leitað til Alþingis um hjálp.